Upplýsingatækni - Fyrirtæki


0. Skráningaratriði fyrir viðfangsefni


0.1 Heiti

Upplýsingatækni - Fyrirtæki

0.2 Efnisflokkur

Ferðamál, samgöngur og upplýsingatækni

0.3 Umsjón; stofnun, deild, sérfræðingur o.s.frv.

Framleiðslu- og fyrirtækjadeild
Hagstofu Íslands
Borgartúni 21a
150 Reykjavík
Fax 528 1299

Bylgja Árnadóttir
Sími: 528 1263
Netfang: bylgja.arnadottir@hagstofa.is

0.4 Tilgangur og aðdragandi

Krafan um tölfræðiupplýsingar um útbreiðslu og notkun á upplýsingatækni hefur farið vaxandi á liðnum árum samhliða sívaxandi framþróun á tæknisviðinu. Í byrjun ársins 2002 tók Hagstofan við verkefni af verkefnisstjórn forsætisráðuneytisins um upplýsingasamfélagið sem felst í því að safna tölulegum upplýsingum um upplýsingasamfélagið.

Tilgangur upplýsingasöfnunarinnar er að fá mynd af notkun fyrirtækja á upplýsingatæknibúnaði og rafrænum viðskiptum.

Kannanir meðal fyrirtækja hafa verið framkvæmdar árin 2002, 2003 og 2006.

0.5 Notendur og notkunarsvið

Stjórnvöld, alþjóðastofnanir, lögaðilar og einstaklingar. Gögnin nýtast þeim sem áhuga hafa á að fylgjast með framvindu á notkun upplýsingatækni á Íslandi og vilja bera notkun á Íslandi saman við notkun í öðrum löndum.

0.6 Heimildir

Könnun Hagstofunnar, þar sem lagður er spurningarlisti fyrir fyrirtæki með 10 starfsmenn eða fleiri. Við gerð spurningarlistans er stuðst við samræmdan spurningarlista Evrópusambandsins. Þátttaka í könnuninni er valfrjáls.

0.7 Lagalegur grundvöllur fyrir hagskýrslugerð

Lög um hagstofu Íslands og opinbera hagskýrslugerð nr. 163/2007.

0.8 Svarbyrði við innsöfnun

Forsvarsmönnum fyrirtækja er frjálst að neita að taka þátt í könnuninni. Meðalsvartími er um 20-30 mínútur.

0.9 Ákvæði vegna EES og ESB

Reglugerð Evrópusambandsins nr. 808/2004 um hagskýrslugerð um upplýsingasamfélagið.

1. Efni


1.1 Efnislýsing

Könnunin gefur upplýsingar um tölvu- og internetnotkun fyrirtækja á Íslandi.

Helstu efnisþættir eru:
 • Tæknibúnaður fyrirtækis
 • Notkun internets
 • Rafræn viðskipti um internet
 • Rafræn viðskipti um önnur tölvukerfi en internet

1.2 Tölfræðileg hugtök

Úrtak nær til fyrirtækja með a.m.k. 10 starfsmenn á launaskrá. Atvinnugreinarnar eru skv. Íslenskri atvinnugreinaflokkun (ÍSAT 95) eftirtaldar deildir:
 • 15-37 (iðnaður)
 • 45 (byggingastarfsemi og mannvirkjagerð)
 • 50-52 (verslun)
 • 55 (hótel- og veitingahúsarekstur)
 • 60-64 (samgöngur og flutningar)
 • 65-67 (peningastofnanir, fjármálaþjónusta, vátryggingafélög og lífeyrissjóðir)
 • 70-74 (ýmis sérhæfð þjónusta)
 • 92 (tómstunda-, menningar- og íþróttastarfsemi)

Staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra er notuð við val á úrtaki. Úrtökuaðferð er blönduð eftir fjölda fyrirtækja í hverju lagi (strata). Fyrirtækjum er skipt í lög eftir atvinnugrein og fjölda starfsmanna. Árið 2006 voru um 800 fyrirtæki í úrtaki.

Niðurstöður eru birtar eftir atvinnugrein fyrirtækis annars vegar og fjölda starfsmanna hins vegar.

2. Tími


2.1 Viðmiðunartími talnaefnis

Gögnum hefur verið safnað árin 2002, 2003 og 2006.
Viðmiðunartími er annars vegar 1. janúar sama ár og gagnasöfnun fer fram og hins vegar næsta almanaksár á undan.

2.2 Vinnslutími

Gögn fyrir hvert ár eru tilbúin fjórum til sex mánuðum eftir að könnun lýkur.

2.3 Stundvísi birtingar

Fréttatilkynning er gefin út um leið og niðurstöður liggja fyrir.

2.4 Tíðni birtinga

Tíðni birtinga helst í hendur við tíðni kannana. Niðurstöður eru birtar í ritröð Hagtíðinda og á vef Hagstofu Íslands.

3. Áreiðanleiki og öryggismörk


3.1 Nákvæmni gagna og áreiðanleiki

Nákvæmni og áreiðanleiki gagna ræðst að nokkru af því hversu vel viðmælandi er að sér um tæknimál fyrirtækis. Í tölum um rafræn viðskipti fyrirtækis má reikna með ákveðnum skekkjum, þar sem venja er að fyrirtæki gefi upp áætlaðar tölur.
Niðurstöður úrtakskannana eru alltaf háðar óvissu sem er því meiri sem sundurliðun talnaefnis er meiri.

Svarhlutfall árin 2002, 2003 og 2006:
Árið 2002: 88%
Árið 2003: 81%
Árið 2006: 60%

3.2 Skekkjuvaldar í gögnum

Úrtökuskekkjur. Óvissan við úrtökurannsóknir er sú að ekki er hægt að tryggja að úrtakið sé nákvæm eftirmynd af heildarskránni eða þýðinu.

Þekjuskekkjur
. Stafa af því að sú skrá sem lögð er til grundvallar vali á úrtaki inniheldur rangar upplýsingar um flokkun fyrirtækja eftir atvinnugreinum eða fjölda starfsmanna á launaskrá. Til að koma í veg fyrir þetta er fyrirtæki alltaf innt eftir því hverjar séu aðal- og aukaatvinnugreinar þess.

Brottfallsskekkjur
. Líkt og í öllum rannsóknum geta niðurstöður skekkst vegna þess að brottfall dreifist mismunandi eftir hópum svo sem atvinnugreinum eða starfsmannafjölda fyrirtækja. Helstu ástæður brottfalls eru neitanir, fjarvera forsvarsmanna fyrirtækja á meðan á könnun stendur eða að ekki tekst að finna aðsetur eða símanúmer fyrirtækis.

Skráningarskekkjur. Svarendur geta skráð svör sín ranglega, hlaupið yfir spurningar, ruglast í röð þeirra eða misskilið þær.

Sniðskekkjur. Ófullnægjandi skipulagning og hönnun könnunar getur leitt til niðurstaðna sem eru ekki í samræmi við raunveruleikann. Orðalag spurninga getur valdið misskilningi, mismunandi röð spurninga getur leitt til ólíkra svara og reynsla svarenda af öðrum könnunum getur haft áhrif á svör þeirra

3.3 Tölur um öryggismörk/skekkjumælingar


4. Samanburður


4.1 Samanburðarhæfi milli tímabila

Tölur eru að öllu jöfnu samanburðarhæfar milli ára.

4.2 Samanburður við aðrar hagtölur

Við gerð spurningalista er stuðst við samræmdan spurningalista Eurostat, hagstofu Evrópusambandins. Niðurstöður Hagstofu Íslands eru því samanburðarhæfar við niðurstöður kannana á öðrum Norðurlöndum sem og í löndum Evrópusambandsins.

4.3 Samband milli bráðabirgðatalna og lokatalna

Einungis verða birtar lokatölur.

5. Aðgangur að upplýsingum


5.1 Miðlunarleiðir

 • Fréttir birtar á vef Hagstofunnar
 • Hagtölur, efnisflokkaðar veftöflur
 • Hagtíðindi, ritröð
 • Landshagir, árbók Hagstofu Íslands
 • Samnorrænar útgáfur um upplýsingasamfélagið á Norðurlöndum, gefið út af norrænu hagstofunum í samvinnu við Norræna ráðherraráðið

5.2 Grunngögn; varðveisla og notkunarmöguleikar

Gögn geymd á tölvutæku formi á Hagstofunni. Ekki er veittur aðgangur að gögnunum sjálfum en unnt er að fá sérvinnslur úr þeim.

5.3 Skýrslur

 • Hagtíðindi: Upplýsingatækni
 • Nordic Information Society Statistics, 2005
 • Indicators for the Information Society in the Baltic Region. Action line 6, 2005
 • ICT Investments in Enterprises. Nordic Guidelines, 2004
 • Indicators for the Information Society in the Baltic Region. Action line 6, 2003
 • Nordic Information Society Statistics, 2002
 • The ICT Sector in the Nordic Countries, 2000

5.4 Aðrar upplýsingar

Frekari upplýsingar má fá hjá ábyrgðarmanni sviðsins.

© Hagstofa �slands, �ann 6-5-2008