Afli, sjávarafurðir, verðmæti og útgerð


0. Skráningaratriði fyrir viðfangsefni


0.1 Heiti

Afli, sjávarafurðir, verðmæti og útgerð

0.2 Efnisflokkur

Fiskveiðar

0.3 Umsjón; stofnun, deild, sérfræðingur o.s.frv.

Hagstofa Íslands
Fyrirtækjasvið
Netfang: fiskitolur@hagstofa.is
Sími: 528 1000

0.4 Tilgangur og aðdragandi

Þann 1. janúar 1999 tók Hagstofa Íslands við úrvinnslu og útgáfu mánaðarlegra og árlegra hagtalna um sjávarútveg, sem áður hafði verið á hendi Fiskifélags Íslands og Fiskistofu.
Fiskistofa annast söfnun upplýsinga um landaðan afla. Upplýsingar um landaðan (og veginn) afla eru skráðar í aflaskráningarkerfið "Lóðs" sem notað er á löggiltum hafnarvogum í löndunarhöfnum. Skráning (söfnun) upplýsinganna fer fram með rafrænum hætti. Fiskistofa annast einnig söfnun upplýsinga um landanir erlendra skipa á Íslandi. Fiskistofa afhendir Hagstofu Íslands gögn sín mánaðarlega. Í gögnum Fiskistofu eru m.a. upplýsingar um þyngd afla í slægðu magni, fisktegund, skipaskrárnúmer þess skips sem landar aflanum, staðsetningu löndunar, dagsetningu löndunar, veiðisvæði aflans og þau veiðarfæri sem notuð voru.
Fiskistofa annast söfnun upplýsinga sem skráðar eru á vigtar- og ráðstöfunarskýrslur, þ.e. upplýsinga frá öllum fiskkaupendum og/eða fiskverkendum, þ.m.t. fiskmörkuðum og vinnsluskipum um viðskipti með afla, kaupverð aflans og ráðstöfun hans eftir verkunargreinum, sbr. 2. mgr. 12. gr. laga nr. 57/1996.
Upplýsingasöfnunin sjálf gegnir því hlutverki að gera Fiskistofu mögulegt að hafa eftirlit með fiskveiðum og vinnslu sjávarafurða í þeim tilgangi að framkvæma stefnu stjórnvalda um stjórn fiskveiða. Markmiðið með útgáfu Hagstofunnar á hagtölum um sjávarútveg er að upplýsa stjórnvöld og almenning um fiskveiðar og stöðu sjávarútvegs.

0.5 Notendur og notkunarsvið

Stjórnvöld, hagsmunaaðilar og aðrir sem tengjast eða hafa áhuga eða gagn af tölulegum upplýsingum um sjávarútveg.

0.6 Heimildir

Grunngögn sjávarútvegstölfræðinnar eru sótt til Fiskistofu, Samgöngustofu, Ríkistollstjóra, Matvælastofnunar, Alþjóðahafrannsóknaráðinu og Matvæla- og landbúnaðarstofnunar S.Þ.
Gögn um afla og aflaverðmæti eru sótt til Fiskistofu. Fiskistofa sækir grunngögn um landaðan afla í aflaskráningarkerfið Lóðs sem byggir á beinum mælingum á hafnarvogum landsins. Fiskistofa hefur eftirlit með því að allur landaður afli sé vigtaður og skráður. Einnig sækir Fiskistofa gögn um vigt og ráðstöfun afla frá sjávarútvegsfyrirtækjum. Fyrirtækin fylla út eyðublöð sem eru meginheimildir um afla, aflaverðmæti og ráðstöfun afla: Vigtarskýrslur, ráðstöfunarskýrslur og selt óunnið.
Gögn um innflutning hráefnis til fiskvinnslu á Íslandi finnast einnig í gögnum frá Fiskistofu.
Vigtarskýrslur innihalda upplýsingar um aflakaup. Þar koma fram upplýsingar um fisktegund, stærðarflokkun, gæðaflokkun, magn og verð, auk upplýsinga um sjálfan kaupandann. Ein skýrsla er gerð fyrir hvert skip sem keypt er af og nær skýrslan í flestum tilfellum yfir mánaðarviðskipti fiskkaupandans við skipið, tilgreind eftir dögum. Fiskkaupandi útbýr vigtarskýrsluna og sendir Fiskistofu sem sér um skráningu hennar. Vigtarskýrslur eru sendar rafrænt eða með hefðbundum leiðum. Í stuttu máli veita vigtarskýrslurnar upplýsingar um allan afla upp úr sjó og verðmæti þess afla, en ráðstöfunarskýrslurnar segja til um vinnsluaðferð hans.
Á ráðstöfunarskýrslum er gerð grein fyrir afla sem var til ráðstöfunar í hverjum mánuði og hvernig honum var ráðstafað. Afli til ráðstöfunar samanstendur af birgðum í upphafi tímabils ásamt fiskkaupum samkvæmt vigtarskýrslum. Afli til ráðstöfunar er annað hvort unninn eða seldur óunninn. Því verður það aflamagn sem til ráðstöfunar er að vera jafnt því aflamagni sem er verkað eða selt óunnið. Ráðstöfunarskýrsla sýnir hvaða verkun aflinn fær. Hins vegar er ekki hægt að sjá á ráðstöfunarskýrslu hvaða afurðir verða til hjá framleiðendum.
Upplýsingar um tollafgreiðslu og útflutning sjávarafurða eru fengnar frá utanríkisverslunardeild Hagstofunnar, fiskeldistölur frá Matvælastofnun og skipaskrá Samgöngustofu Íslands er nýtt við gerð taflna um fiskiskipaflotann, auk þess sem Landssamband smábátaeigenda útvegar upplýsingar um grásleppuafla. Útflutningsframleiðsla sjávarafurða er reiknuð útfrá útflutningi og birgðabreytingum sjávarafurða. Hagstofan safnar ársfjórðungslegum upplýsingum um birgðir sjávarafurða frá framleiðendum.

0.7 Lagalegur grundvöllur fyrir hagskýrslugerð

Samkvæmt reglugerð nr. 224, frá 14. mars 2006, um vigtun og skráningu sjávarafla, skal allur afli veginn á hafnarvog í löndunarhöfn þegar við löndun aflans. Fiskistofa hefur eftirlit með því að þessu sé framfylgt.
Í 2. mgr. 12. gr. laga nr. 57/1996 um umgengni um nytjastofna sjávar, segir að kaupandi afla skuli fylla út og skila skýrslum um ráðstöfun afla í því formi og með þeim hætti er sjávarútvegsráðuneytið ákveður.
Í reglugerð nr. 910/2001 segir að allir aðilar sem stunda viðskipti með afla, þ.m.t. forsvarsmenn útgerða sem eiga viðskipti með afla eða afurðir vinnsluskipa, skuli gera skýrslur og standa skil á þeim til Fiskistofu.
Hagstofan óskar eftir þessum upplýsingum á grundvelli laga um Hagstofu Íslands nr. 24/1913, laga um hagfræðiskýrslur nr. 29/1895 og laga um fyrirtækjaskrá nr. 62/1969. Með þessum lögum er Hagstofunni veitt heimild til að afla upplýsinga um starfsemi og hag fyrirtækja.

0.8 Svarbyrði við innsöfnun

Allur afli skal veginn á hafnarvogum viðurkenndum af Fiskistofu (reglugerð nr. 522, frá 18. ágúst 1998). Óheimilt er, að viðhöfðum viðurlögum, að landa afla "framhjá" hafnarvog. Svarbyrði fyrirtækja vegna skýrslugerðar Hagstofunnar er því engin umfram lagalegar kvaðir sjávarútvegsgeirans.
Þeim sem stunda viðskipti með afla, þ.m.t. útgerðir sem eiga viðskipti með afla eða afurðir vinnsluskipa, er skylt að standa skil á skýrslum til Fiskistofu (Vigtarskýrslu, Ráðstöfunarskýrslu og skýrslu yfir óunninn afla). Öll gögn sem notuð eru við sjávarútvegstölfræði eru opinber gögn sem stofnunum er skylt að afhenda Hagstofunni.
Útflytjendum sjávarafurða er skylt að skila inn tollskýrslu fyrir útflutninginn til tollembætta víða um land. Svarbyrði Hagstofunnar er vegna útskýringa og leiðréttinga á tollskýrslum. Þá leitar Hagstofan ársfjórðungslega til framleiðenda sjávarafurða um birgðaupplýsingar.

0.9 Ákvæði vegna EES og ESB

Hagstofan skilar gögnum í gagnagrunna ESB varðandi veiðar og veiðisvæði, aflamagn, aflaverðmæti, fiskeldi og skipastól í samræmi við eftirfarandi gerðir:
Reglugerð ráðsins (EBE) nr. 1382/91 frá 21. maí 1991 um að leggja fram upplýsingar um landanir fiskafurða í aðildarríkjunum og breytingar á henni með Reglugerð ráðsins (EBE) nr. 2104/93 frá 22. júlí 1993. Reglugerð ráðsins (EBE) nr. 3880/91 frá 17. desember 1991 um að aðildarríki sem stunda fiskveiðar á Norðaustur-Atlantshafi leggi fram aflaskýrslur.
Reglugerð ráðsins (EBE) nr. 2018/93 frá 30. júní 1993 um að aðildarríki sem stunda fiskveiðar á Norðvestur-Atlantshafi leggi fram aflaskýrslur og fiskveiðiskýrslur.
Reglugerð ráðsins (EB) nr. 2597/95 frá 23. október 1995 um að aðildarríki sem stunda fiskveiðar á tilteknum svæðum utan Norðvestur-Atlantshafs leggi fram aflaskýrslur.
Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 1636/2001 frá 23. júlí 2001 um breytingu á reglugerð ráðsins (EBE) nr. 2018/93 um að aðildarríki sem stunda fiskveiðar á Norðvestur-Atlantshafi leggi fram aflaskýrslur og fiskveiðiskýrslur
Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 1637/2001 frá 23. júlí 2001 um breytingu á reglugerð ráðsins (EBE) nr. 3880/91 um að aðildarríki sem stunda fiskveiðar á Norðaustur-Atlantshafi leggi fram aflaskýrslur
Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 1638/2001 frá 23. júlí 2001 um breytingu á reglugerð ráðsins (EBE) nr. 2597/95 um að aðildarríki sem stunda fiskveiðar á tilteknum svæðum utan Norður-Atlantshafs leggi fram aflaskýrslur.

1. Efni


1.1 Efnislýsing

Í hverjum mánuði eru gefnar út eftirfarandi töflur með bráðabirgðatölum um heildarafla íslenskra fiskiskipa í tonnum sem safnað er með hafnarvigtum. Tölurnar ná yfir tímabilið frá janúar til síðastliðins mánaðar fyrir líðandi ár og nokkur síðustu ár. Afli eftir fisktegundum, löndunarhöfnum, kvótaflokkum, veiðarfærum, og mánuðum.
Ennfremur er í hverjum mánuði birt vísitala yfir magnbreytingu fiskafla á föstu verði. Ásamt vísitölunni eru settar fram hlutfallsbreytingar á magnbreytingu milli nýliðins mánaðar og sama mánaðar fyrra árs, hlutfallsbreyting á uppsafnaðri magnbreytingu frá janúar til nýliðins mánaðar og hlutfallsbreyting milli ára. Í janúar ár hvert er vísitalan keðjutengd þannig að úr verði samfelld tímaröð. Í janúar eru einnig tekin inn ný verð (frá síðastliðnu fiskveiðiári). Vísitalan hefur meðal-mánaðarafla ársins 2004 sem viðmiðun. Meðaltal ársins 2004 fær því gildið 100.
Um 2 mánuðum eftir löndun eru birtar eftirfarandi bráðabirgðatölur fyrir hvern mánuð:
· Afli og verðmæti eftir fiskveiðisvæðum og fisktegundum
· Afli og verðmæti eftir tegund löndunar og fisktegundum
· Afli eftir tegund vinnslu og fiskveiðisvæðum
· Afli og verðmæti eftir fiskveiði- og verkunarsvæðum
· Afli eftir tegund vinnslu og fisktegundum
· Afli og verðmæti eftir verkunarsvæðum og tegundum
Lokatölur um aflamagn, aflaverðmæti og ráðstöfun afla eru birtar á miðju ári eftir að Fiskistofa hefur yfirfarið gögnin og lokað fyrir frekari breytingar á tölum fyrra árs. Sama á við um tölur um útflutning sjávarafurða þar sem utanríkisverslun Hagstofunnar lýkur yfirferð á gögnum yfirleitt í apríl-maí á hverju ári.
Hagtíðindi sem byggja á lokatölum eru gefin út tvisvar sinnum á ári. Birt eru tvö hagtíðindahefti:
· Afli, aflaverðmæti og ráðstöfun afla
· Útflutningur sjávarafurða
Veftöflur með sundurliðuðum gögnum eftir fisktegundum, löndunarhöfnum, kvótaflokkum, skipaflokkum, veiðarfærum, löndunartegund, vinnslutegund, fiskveiðisvæðum, verkunarsvæðum, árum og mánuðum eru birtar í kjölfarið. Einnig eru birtar tölur um innflutning hráefnis, magn og virði aukaafurða, útflutningstölur eftir afurðaflokkum og útflutningsframleiðsla, auk fleiri taflna.
Töluleg gögn um stærð og flokkun fiskiskipaflotans, byggt á skráningu Samgöngustofu um áramót, eru birt í janúar. Samanburðargögn afla íslands og annan heimsafla eru einnig birt í janúar, byggt á gögnum þar síðasta árs Alþjóða hafrannsóknarráðsins (ICES) og Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO).

1.2 Tölfræðileg hugtök

Allur afli er umreiknaður í óslægðan afla, eða fisk upp úr sjó. Í umreikninginn eru notaðir umreikningsstuðlar sem gefnir eru út í reglugerðum um veiðar í atvinnuskyni fyrir hvert fiskveiðiár.
Afli: Afla er skipt í botnfiskafla, flatfiskafla, uppsjávarafla, skel- og krabbadýraafla og annan afla. Samkvæmt eðli máls flokkast botnfisktegundir undir botnfiskafla, flatfiskar til flatfiskafla, uppsjávarfiskar til uppsjávarafla, skel- og krabbadýr til skel- og krabbadýraafla. Til annars afla telst afli sem ekki getur flokkast í fyrrgreinda flokka.
Frágangur landaðs afla: Í Hagtíðindum er landaður afli flokkaður sem slægður eða óslægður. Óslægður afli er sá afli sem ekki hefur verið verkaður á neinn hátt um borð (óskorinn). Afli sem verkaður hefur verið um borð er umreiknaður í slægðan afla eftir ástandi hans (slægður, hausskorinn, roðlaus/beinlaus) og er flokkaður sem slíkur. Slægður afli er síðan umreiknaður í óslægðan afla eða fisk upp úr sjó.
Veiðisvæði: Í Hagtíðindum er afla íslenskra fiskiskipa skipt niður á Íslandsmið, Barentshaf, Flæmingjagrunn, norska lögsögu, rússneska lögsögu og önnur veiðisvæði. Með Íslandsmiðum er átt við fiskveiðilögsöguna eins og hún er afmörkuð í reglugerð nr. 299 frá 15. júlí 1975. Með samningi um samstarf á sviði sjávarútvegs milli Íslands, Noregs og Rússlands frá árinu 1999 er íslenskum skipum óheimilar veiðar í Barentshafi á því hafsvæði sem nefnt hefur verið Smugan" en hinsvegar heimilar innan norskrar lögsögu og rússneskrar lögsögu. Flæmingjagrunn er hafsvæði austur af Nýfundnalandi en íslensk rækjuskip hafa veitt þar á svokölluðum "Flæmska hatti". Önnur mið skýra sig sjálf.
Landsvæði. Notuð er hefðbundin landsvæðaskipting Hagstofunnar. Skipting afla eftir landsvæðum miðast hér við löndunarhöfn aflans.
Landsvæði. Notuð er hefðbundin landshlutaskipting Hagstofunnar. Skv. 5. gr. laga nr. 115/1985 skal skrá í skipaskrá Samgöngustofu heimahöfn skips þar sem eigandi eða leigutaki ætlar því heimilisfang. Í töflum þ.s. upplýsingar eru greindar eftir heimahöfnum skipa eru gerðar keyrslur fyrir hvern mánuð ársins og því tekið tillit til breytinga á heimahöfnum einstakra skipa. Verkunarsvæði og verkunarstaður eru landsvæði eða staður þar sem afli er verkaður. Afli sem unninn er í útlöndum er fluttur út óunninn.
Viðskipti með fisk: Bein viðskipti eiga sér stað þegar útgerð selur afla beint til vinnslustöðvar. Gámaviðskipti eiga sér stað þegar afli er seldur til útlanda og er landað ferskum í gám sem sendur er til kaupandans.Innlendir markaðir teljast viðskipti með afla þ.s. aflinn er seldur í gegnum uppboðsmarkað innanlands og er unninn innanlands.
Meðalverð fisktegunda reiknast þannig að heildarmagni fisktegundar er deilt í heildarverðmæti hennar. Heildarmagnið miðast við óslægðan afla (fisk upp úr sjó) og til heildarverðmætis telst ekki verðmæti aukaafurða.
Tegund löndunar: Greint er á milli tegunda löndunar eftir því hvar og hvernig aflanum er landað, í hvaða ástandi aflinn er og til hvaða nota hann er ætlaður. Löndunartegundir eru eftirfarandi:
· Til vinnslu innanlands. Útgerð selur aflann beint til vinnslustöðvar.
· Í gáma til útflutnings. Afla er landað ferskum í gám sem sendur er til útlanda.
· Landað erlendis til bræðslu. Afla er landað erlendis þar sem hann fer til bræðslu.
· Sjófryst. Afli sem er frystur um borð.
· Sjófryst til endurvinnslu innanlands. Afli sem er sjófrystur en fer síðan til endurvinnslu innanlands.
· Á markað til vinnslu innanlands. Afli sem seldur er í gegnum uppboðsmarkað innanlands og er unninn innanlands.
· Á markað, í gáma til útflutnings. Afli sem seldur er í gegnum uppboðsmarkað innanlands og fer síðan í gám til útflutnings (og er unninn í útlöndum).
· Sjósaltað. Afli sem er saltaður um borð.
· Selt úr skipi erlendis. Skip sigla sjálf og selja aflann erlendis.
· Ráðstöfun landaðs afla. Í töflu yfir ráðstöfun landaðs afla koma fyrir eftirfarandi tegundir ráðstöfunar. Greint er á milli ráðstöfun landaðs afla eftir tegund löndunar:
· Verkað innanlands. Afli sem er verkaður innanlands er samtala afla sem er landaður "til vinnslu innanlands" og afla sem fer á "markað til vinnslu innanlands".
· Þar af í heimahöfn. Hér er átt við afla sem verkaður er innanlands en er landaður og unninn í heimahöfn. Með heimahöfn er átt við heimahafnir skipanna sem landa aflanum. Við útreikning á þessum afla er tekið tillit til tilfærslu skipa milli hafna með því að reikna aflann fyrir hvern mánuð ársins.
· Landað unnið. Afli sem er landaður unninn er samtala afla sem landaður er "sjófrystur", "sjófrystur til endurvinnslu innanlands" og "sjósaltaður".
· Landað erlendis. Afli sem er landaður erlendis er samtala afla sem er "seldur úr skipi erlendis" og afla sem er "landað erlendis til bræðslu".
· Gámafiskur. Gámafiskur er afli sem landaður er "í gáma til útflutnings" og afli sem fer "á markað, í gáma til útflutnings".
Kvótaflokkar: Notaðir eru kvótaflokkar sem skilgreindir eru í lögum nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða. Flokkarnir eru: togarar, skip með aflamark, smábátar með aflamark, þorskaflahámarksbátar, línu- og handfærabátar, handfærabátar og smábátar með sóknardaga.
Tegund vinnslu: Greint er á milli vinnslutegunda eftir vinnsluaðferð aflans innanlands og eftir flutningsaðferðinni við að koma honum í vinnslu erlendis. Vinnslutegundir eru eftirfarandi:
· Landfrysting. Afli er frystur í vinnslustöð.
· Sjófrysting. Afli er frystur um borð.
· Söltun. Afli er saltaður í vinnslustöð.
· Hersla. Afli er hertur til útflutnings (skreið).
· Bræðsla. Afli er unninn í mjöl og lýsi.
· Niðursuða. Afli er niðursoðinn í niðursuðuverksmiðju.
· Reyking. Afli er reyktur.
· Innanlandsneysla. Afli fer til neyslu innanlands.
· Útflutt flatt. Afli er flattur og fluttur út ferskur í gámum.
· Ísfiskur. Afli sem landaður er í erlendri höfn (úr skipinu sem veiddi hann).
· Gámar. Ferskur afli sem sendur er til útlanda í gámum og er seldur þar.
· Ísað í flug. Ferskur afli sem sendur er til útlanda með flugi, heill eða í flökum.
Aukaafurðir: Allur afli er umreiknaður í óslægðan afla, eða fisk upp úr sjó. Vegna þess er ekki hægt að flokka aukaafurðir ákveðinnar fisktegundar til heildarafla hennar þar sem slíkt væri hrein tvítalning. Helstu aukaafurðir eru hrogn, lifur, afskurður, hausar, kinnar, gellur og mjöl.
Með innflutningi hráefnis til fiskvinnslu er átt við kaup íslenskra vinnslustöðva á afla erlendra skipa, þ.e. skipa með skráningarríki annað en Ísland.
Útflutningur: Upplýsingar um magn og verðmæti útfluttra sjávarafurða, skiptingu útflutnings eftir markaðssvæðum og ríkjum og eftir afurðaflokkum, auk upplýsinga um sjávarafurðir í loftþéttum umbúðum og úr eldi.
Gerð er grein fyrir útflutningsframleiðslu sjávarafurða á hlaupandi og föstu verðlagi.
Í magnvísitölu fiskafla telst grunnár það ár þaðan sem verðupplýsingar eru fengnar til bráðabirgða til að áætla hugsanlegt verðmæti aflatalna. Algengt er að hugtakinu grunnári sé ruglað saman við hugtakið viðmiðunarár, sem er það ár þar sem vísitala er stillt í 100, enda geta þessi tvö ár verið hin sömu. Það á þó ekki við hér. Í magnvísitölu fiskafla eru notaðar verðupplýsingar sem eru einu ári eldri en fyrra árið í samanburðinum og telst það því grunnárið. Viðmiðunarár, eða upphafsár keðjutengingar er árið 2004=100.

2. Tími


2.1 Viðmiðunartími talnaefnis

Viðmiðunartími talnaefnisins er almanaksárið. Viðmiðunartími bráðabirgðagagna er síðastliðinn mánuður og tímabilið frá janúar til síðastliðins mánaðar núverandi árs ásamt árinu þar á undan.

2.2 Vinnslutími

Samkvæmt samningi milli Hagstofu Íslands og Fiskistofu, afhendir Fiskistofa innfærð gögn um afla og aflaverðmæti nýliðins árs samkvæmt vigtar- og ráðstöfunarskýrslum eigi síðar en 1. apríl hvert ár. Hagtíðindi um útflutning fiskafurða eru að jafnaði gefin út um mitt árið og hagtíðindahefti um aflamagn og aflaverðmæti eru útgefin í sumarlok.
Gögn berast Fiskistofu með rafrænum hætti tvisvar á dag frá löndunarhöfnum. Fiskistofa afhendir Hagstofu bráðabirgða tölur þann 11. hvers mánaðar. Úrvinnsla Hagstofunnar á bráðabirgðatölum í hverjum mánuði tekur um 3 daga.
Gögn um útflutning sjávarútvegsafurða berast frá utanríkisverslunardeild Hagstofunnar í maí árlega og getur tekið 2-3 vikur að vinna úr, útbúa hagtíðindahefti og veftöflur.

2.3 Stundvísi birtingar

Hagtíðindahefti og veftöflur um sjávarútvegsmál birtast í samræmi við útgefna birtingaráætlun Hagstofunnar.

2.4 Tíðni birtinga

Einu sinni á ári og bráðabirgðatölur einu sinni í mánuði.

3. Áreiðanleiki og öryggismörk


3.1 Nákvæmni gagna og áreiðanleiki

Allur afli er veginn á hafnarvogum lögum samkvæmt og hefur Fiskistofa eftirlit með því að á því séu engar undantekningar. Áreiðanleiki gagnanna er háður því að þessi lögboðna skylda sé virt.
Í 2. mgr. 12. gr. laga nr. 57/1996 segir að kaupandi afla skuli fylla út og skila skýrslum um ráðstöfun afla í því formi og með þeim hætti er sjávarútvegsráðuneytið ákveður. Áreiðanleiki gagnanna er háð því að þessari lagareglu sé fylgt.
Allur afli er reiknaður í "fisk upp úr sjó" og eru notaðir til þess s.k. umreikningsstuðlar. Nákvæmni gagnanna er háður því hversu góðir umreikningsstuðlarnir eru.

3.2 Skekkjuvaldar í gögnum

Ósamræmi getur verið milli taflna sem unnar eru annars vegar upp úr vigtarskýrslum og hins vegar upp úr ráðstöfunarskýrslum. Á þessum mismun eru eftirfarandi skýringar:
a) Í ráðstöfunarskýrslunum er miðað við vinnslustað en ekki löndunarstað afla. Þegar fyrsti kaupandi fisks selur hluta aflans í annað sveitarfélag kemur fram misræmi milli gagna úr vigtarskýrslum og ráðstöfunarskýrslum. Dæmi: Vinnslustöð í Grindavík kaupir 10 tonn af bát. Þau viðskipti eru skráð á kaupandann í Grindavík. Ef hann selur síðan t.d. vinnslustöð í Keflavík 2 tonn af þessum afla, skráist vinnslan á þessum tveimur tonnum í Keflavík. Þetta hefur í för með sér að í ráðstöfunarskýrslu er skráður afli bæði í Grindavík (8 tonn) og í Keflavík (2 tonn). Viðskiptin milli upphaflegs kaupanda og báts (10 tonn) sem fram koma í vigtarskýrslu eru hins vegar eingöngu skráð í Grindavík.
b) Hafi afla ekki verið ráðstafað í ákveðna vinnslu er hann talinn til birgða um mánaðamót. Því kemur fram mismunur milli þessara skráa í samanburði á mánuðum og stafar það af birgðabreytingum.
c) Tilfærsla milli tegunda getur orðið við að afli er ekki vandlega tegundagreindur. Við vigtun koma stundum í ljós tegundir sem ekki eru skráðar í viðskiptum báts og stöðvar. Oftast er um óverulegt magn að ræða.
d) Í einstaka tilfellum verður rýrnun á magni frá frumsölu til vinnslu.
e) Afli er í flestum tilfellum skráður í tonnum og verð í þúsundum króna. Einhver munur kemur fram þegar tölur eru hækkaðar eða lækkaðar í næstu heilu tölu.

3.3 Tölur um öryggismörk/skekkjumælingar

Útreikningar á öryggismörkum og skekkjum hafa ekki farið fram. Fyrir úrvinnslu gagna er reiknaður mismunur m.t.t. fyrri talna og ef mismunur er innan við 1% er unnið frekar úr gögnunum og niðurstöður birtar.

4. Samanburður


4.1 Samanburðarhæfi milli tímabila

Upplýsingar um innflutt hráefni til fiskvinnslu eru fyllilega samanburðarhæfar milli ára. Hins vegar ber að hafa í huga að gögn ársins á undan eru áreiðanlegri en þau yngri þar sem Fiskistofa uppfærir eldri tölur með viðbótum og leiðréttingum, þ.e.a.s. líklegra er að eldri gögnin séu "fullnaðarleiðrétt". Við útreikning á magnvísitölu fiskafla er þó ávallt byggt á bráðabirgðatölum, en keðjutenging magnvísitölunnar m.t.t. fyrri ára gefur af sér tölfræðilega rétta tímaröð.

4.2 Samanburður við aðrar hagtölur

Niðurstöður vigtar- og ráðstöfunarskýrslna (VOR) eiga að vera samanburðarhæfar við vigtað magn í löndunarhöfnum (LÓÐS). Hins vegar ber að hafa í huga að einhver mismunur er eðlilegur þar sem hér er um tvær aðskildar upplýsingalindir að ræða
Upplýsingar um innflutning hráefnis til fiskvinnslu eru unnar úr vigtar- og ráðstöfunarskýrslum sem Fiskistofa safnar frá fiskkaupendurm. Niðurstöðurnar eiga að vera samanburðarhæfar við niðurstöður um innflutning sem Hagstofa Íslands vinnur úr aðflutningsskýrslum sem innflytjendur skila til tollstjóra. Þó verður að hafa í huga að magn innflutts afla er í vigtar- og ráðstöfunarskýrslum reiknað upp í þyngd miðað við "fisk upp úr sjó". Slíkir útreikningar eiga sér ekki stað í aðflutningsskýrslum.

4.3 Samband milli bráðabirgðatalna og lokatalna

Athuganir benda til þess að endanlegar tölur séu að hámarki 1-2% hærri en bráðabirgðatölur þegar á heildina er litið en fyrir örfáar fisktegundir getur munurinn þó orðið meiri. Ekki eru gefnar neinar lokatölur úr gögnum sem koma frá hafnarvogum (LÓÐS-gögn).
Bráðabirgðatölur eru uppfærðar mánaðarlega um aflamagn fyrri mánaðar, byggt á gögnum frá hafnarvogum. Bráðabirgðagögn um afla, aflaverðmæti og ráðstöfun afla úr vigtunar- og ráðstöfunarsskýrslum eru birt tveim mánuðum eftir á, til að tryggja sjávarútvegsfyrirtækjum tíma til að skila gögnum til Fiskistofu.

5. Aðgangur að upplýsingum


5.1 Miðlunarleiðir

· Hagtölur, efnisflokkaðar veftöflur
· Fréttir, birtar á vef Hagstofunnar
· Hagtíðindi, ritröð
· Landshagir, árbók Hagstofu Íslands
· Gagnabankar OECD, ICES og Eurostat sem eru aðgengilegir á heimasíðum þessara stofnana
· Norræna tölfræðiárbókin: Nordic Statistical Yearbook

5.2 Grunngögn; varðveisla og notkunarmöguleikar

Grunngögnin eru vistuð hjá Fiskistofu og hjá Hagstofu Íslands. Hagstofan veitir ekki aðgang að grunngögnum, en unnt er að fá sérvinnslur á tölfræði byggðum á þeim gögnum.

5.3 Skýrslur

Hagtíðindi, ritröð Hagstofu Íslands eru þær reglulegu skýrslur sem gefnar eru út um sjávarútvegstölfræði. Annarsvegar hagtíðindahefti um útflutning sjávarafurða og hinsvegar hefti um aflamagn, aflaverðmæti og ráðstöfun afla.

5.4 Aðrar upplýsingar

Nánari upplýsingar um sjávarútvegstölfræði er hægt að fá hjá sérfræðingum Hagstofunnar.

© Hagstofa �slands, �ann 7-1-2016