Útgjöld til félagsverndar


0. Skráningaratriði fyrir viðfangsefni


0.1 Heiti

Útgjöld til félagsverndar

0.2 Efnisflokkur

Félags- og heilbrigðismál

0.3 Umsjón; stofnun, deild, sérfræðingur o.s.frv.

Kristinn Karlsson
Hagstofu Íslands
Sími: 528 1060
Bréfsími: 528 1199
Netfang: kristinn.karlsson@hagstofa.is

0.4 Tilgangur og aðdragandi

Tilgangurinn er að safna upplýsingum um útgjöld til félagsverndar til að greina þróun, halda þeim til haga og miðla innanlands sem utan. Tölum þessum er safnað árlega fyrir Hagstofu Evrópusambandsins, Eurostat og fyrir Norrænu hagskýrslunefndina á sviði félagsmála (Nordisk Socialstatistisk Komité (NOSOSKO)) sem er ein af fastanefndum Norrænu ráðherranefndarinnar.
Upphaf innsöfnunar þessa talnaefnis nær aftur til fimmta áratugs síðustu aldar og var komið á til að mæta þörf norrænna félagsmálaráðherra til að greina þróun annars vegar á útgjöldum til félagsverndar og hins vegar á fjölda viðtakenda greiðslna og þjónustu. Þessi þörf leiddi til samvinnu í Norrænu hagskýrslunefndinni á sviði félagsmála frá árinu 1946 um samanburðarhæfar upplýsingar um félagsmál, sem gefnar voru út í ritinu: Social Tryghed i de nordiske lande. Það kemur út árlega og nú bæði á dönsku og ensku. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið hefur átt aðild að norrænu nefndinni fyrir Íslands hönd og skipað fulltrúa Íslands. Frá 1986 hefur einn íslenskra fulltrúa komið frá Hagstofu Íslands en Hagstofan sér um verulegan hlut upplýsingaöflunar og útreikninga fyrir Íslands hönd.
Auk upplýsinga um útgjöld hefur NOSOSKO nefndin safnað upplýsingum um fjölda viðtakenda niðurgreiddrar þjónustu og greiðslna (lífeyrir, bætur o.s.frv.) og birt í útgáfu sinni. Ritið inniheldur töflur um viðtakendur greiðslna og niðurgreiddrar þjónustu, útgjöld vegna þeirra, texta um löggjöf í löndunum og loks ýmsa viðauka sem lýsa mismunandi þáttum í norrænni félagsmálatölfræði.
Frá og með árinu 1995 urðu nokkrar breytingar á útgjaldakerfinu til að samræma það fullkomlega nýrri útgáfu að hliðstæðu kerfi Hagstofu Evrópusambandsins (Eurostat), The European System of integrated Social Protection Statistics, skammstafað: ESSPROS. Norðurlöndin hafa eins og önnur aðildarlönd Eurostat endurreiknað útgjaldatölur aftur til ársins 1991 samkvæmt ESSPROS 1996. OECD sem um árabil hefur borið saman velferðarmálaútgjöld þátttökulanda samkvæmt uppgjöri þjóðhagsreikninga hefur nú hafið samvinnu við Eurostat um að nota ESSPROS gögn í samanburði af þessu tagi. Fyrstu niðurstöðu OECD á þeim grunni er að finna í SOCX 1996 gagnagrunninum.

0.5 Notendur og notkunarsvið

Innlendar stofnanir og samtök, einstaklingar, fjölmiðlar. Efnið ætti að nýtast aðilum við stefnumótun og einstaklingum í námi og starfi og í almennri umfjöllun.
NOSOSKO: Fær sendar sundurliðaðar upplýsingar um útgjöld, fjármögnun og viðtakendur til nota í ritinu Social Tryhed sem kemur út árlega.
EUROSTAT: Fær sendar sundurliðaðar upplýsingar um útgjöld skipt eftir verkefnasviðum, tegundum og fjármögnun. Upplýsingarnar eru notaðar annars vegar í árlegri útgáfu Social Protection expenditure and receipts og hins vegar í CRONOS gagnagrunninum.
OECD: Fær göng beint frá EUROSTAT samkvæmt samkomulagi.

0.6 Heimildir

Heimilda um útgjöld á sviði félags- og heilbrigðismála/félagsverndar er leitað í ríkisreikningi, reikningum sveitarfélaga og Tryggingastofnunar ríkisins. Þá er leitað fanga í ársreikningum Atvinnuleysistryggingasjóðs, Ábyrgðarsjóðs launa, Innheimtustofnunar sveitarfélaga og Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Loks er byggt á samantekt Fjármálaeftirlits úr ársreikningum lífeyrissjóða.

0.7 Lagalegur grundvöllur fyrir hagskýrslugerð

Lög um Hagstofu Íslands og opinbera hagskýrslugerð nr. 163/2007.

0.8 Svarbyrði við innsöfnun

Nýttir eru annars vegar útgefnir reikningar og hins vegar sundurliðanir úr skrám (ríkisreikningur og sveitasjóðareikningar). Svarbyrðin er því hverfandi.

0.9 Ákvæði vegna EES og ESB

EES- samningur. Frá 1995 hefur gagnasöfnun verið í samræmi við ESSPROS staðal Eurostat og eru tölulegar upplýsingar sendar til Eurostat.

1. Efni


1.1 Efnislýsing

Upplýsingar um útgjöld á sviði félagsverndar byggja annars vegar á reikningum hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga og hins vegar á ársreikningum vinnumarkaðsstofnana (Atvinnuleysistryggingasjóðs, Ábyrgðarsjóðs launa og Fjármálaeftirlits (vegna lífeyrissjóða)). Upplýsingar þessar eru flokkaðar eftir ESSPROS staðlinum (Esspros Manual 1996).

Flokkunarkerfi ESSPROS á útgjöldum til félagsverndar byggir á eftirfarandi skilgreiningu: Félagsvernd tekur til allra afskipta opinberra aðila og einkaaðila sem miða að því að létta byrðum af heimilum og einstaklingum vegna tiltekinnar áhættu eða þarfar, jafnframt því að ekki komi samhliða til endurgjalds eða um sé að ræða einstaklingsbundið fyrirkomulag.

Áhætta eða þarfir í tengslum við félagsvernd eru samkvæmt ofangreindri skilgreiningu flokkuð í verkefnasvið og innan hvers þeirra er útgjöldum skipt eftir tegund útgjalda og því hverjir fjármagna þau. ESSPROS-staðallinn veitir því samræmdar tölulegar upplýsingar um félagsvernd frá þremur þýðingarmiklum sjónarhornum: verkefnasviði, tegund útgjalda og fjármögnun.

Verkefnasviðin eru átta:
I Fjölskyldur og börn
II Atvinnuleysi
III Heilbrigðismál
IV Aldraðir
V Öryrkjar
VI Eftirlifendur
VII Húsnæði
VIIIÖnnur félagshjálp

Tegundir útgjalda skiptast í:
a. Greiðslur (bætur, lífeyrir o.s.frv.)
b. Niðurgreidda þjónustu

Fjármögnun skiptist á:
1. Ríkissjóð
2. Sveitarfélög
3. Atvinnurekendur
4. Hina tryggðu
5. Aðra fjármögnun (fjármagnstekjur)

Nánar um verkefnasvið:
Fjölskyldur og börn: Greiðslur við fæðingu og ættleiðingu, barnabætur, mæðra- og feðralaun TR, meðlög (nettókostnaður, þ.e. útgjöld að frádregnum greiðslum meðlagsskyldra), dagvistun barna (niðurgreiðsla leikskóla og dagmæðra), öll barnaverndarstarfsemi, félagsleg heimaþjónusta til annarra en aldraðra og fatlaðra, önnur æskulýðsstarfsemi.
Atvinnuleysi: Atvinnuleysisbætur, framlög og styrkir atvinnuleysistryggingasjóðs, atvinnuleysisskráning, vinnumiðlun, námskeiðahald fyrir atvinnulausa.
Heilbrigðismál: Launagreiðslur í veikindum, sjúkradagpeningar og skammtíma slysatryggingar bæði sjúkrasjóða verkalýðsfélaga og TR, sjúkrahús og læknisþjónustu utan sjúkrahúsa, niðurgeiðsla lyfja, niðurgreiðsla tannlækninga, Vinnueftirlit ríksins.
Aldraðir: Grunnellilífeyrir almannatrygginga, ellilífeyrir lífeyrissjóða, vistrými aldraðra (þjónustu- og hjúkrunarrými, og langlegudeildir sjúkrahúsa), dagvistun aldraðra, tómstundarstarf aldraðra, félagsleg heimaþjónusta aldraðra, bílastyrkir aldraðra.
Öryrkjar: Örokulífeyrir almannatrygginga, örorkulífeyrir lífeyrissjóða, langtímaslysatryggingar TR, búseta og vistun fatlaðra (vistheimili, sambýli, heimili fyrir börn og félagslegar/verndaðar íbúðir ("frekari liðveisla")), liðveisla sveitarfélaga, Greininga- og ráðgjafastöð, endurhæfingarstofnanir, hæfingar og endurhæfingarstöðvar, verndaðir vinnustaðir og vinnumarkaðsúrræði, leikfangasöfn dagvistun fatlaðra, skólar fyrir fatlaða, félagsleg heimaþjónusta fatlaðra, hjálpartæki, bílastyrkir fatlaðra.
Eftirlifendur: Dánarbætur/ekkju og ekkilsbætur TR, barnalífeyrir TR (annað en vegna örorku, endurhæfingar eða elli forráðamanna), maka- og barnalífeyrir lífeyrissjóða, dánarbætur sjúkrasjóða.
Húsnæði: Niðurgreiðsla sveitarfélaga á eigin leiguhúsnæði, húsaleigubætur.
Önnur félagshjálp: Fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, aðstoð við flóttamenn og nýbúa, Ábyrgðarsjóður launa, meðferð og endurhæfing áfengis- og fíkniefnasjúklinga, ýmislegt annað þar með talin ráðgjöf og annað hjá félagsþjónustu sveitarfélaga.

1.2 Tölfræðileg hugtök

Grunntölur ásamt samtölum hvers árs.
Verðlaga hvers árs og á verðlagi ársins 1981.
Útgjöld alls.
Útgjöld á íbúa.

2. Tími


2.1 Viðmiðunartími talnaefnis

Viðmiðunartími er almanaksárið.

2.2 Vinnslutími

Úrvinnsla efnis fer fram á fyrri hluta árs einu ári frá viðmiðunarári þegar allir reikningar sem upplýsingar eru sóttar í liggja fyrir. Miðlun til NOSOSKO og Eurostat í júní. Vinna vegna Landshaga, hagtölurárbókar Hagstofu er á hausti og vegna Hagtíðinda seinnihluta hausts.

2.3 Stundvísi birtingar


2.4 Tíðni birtinga

Árlegar tölur í Landshögum, Hagtíðindum og á vef Hagstofunnar.

3. Áreiðanleiki og öryggismörk


3.1 Nákvæmni gagna og áreiðanleiki

Áreiðanleiki gagnanna er yfirleitt mikill, þar sem flestir útgjaldaliðirnir eru sóttir í ríkisreikning, samantekna ársreikninga sveitarfélaga og fleiri opinbera reikninga. Í nokkrum tilvikum þarf þó að leita viðbótar upplýsinga, svo sem um fjölda neytenda niðurgreiddrar þjónustu/viðtekenda greiðslna, eða beita áætlunum til að skipta fjárhæðum, þar sem sundurliðanir í reikningum eru ekki nægar.

3.2 Skekkjuvaldar í gögnum

Þekja gagnanna er 100% miðað við skilgreiningar ESSPROS. Þar sem heimildir eru yfirleitt endanlegir reikningar er ónákvæmni lítil.

3.3 Tölur um öryggismörk/skekkjumælingar


4. Samanburður


4.1 Samanburðarhæfi milli tímabila

Tiltækar eru árlegar útgjaldatölur frá árinu 1981. Rof er í tímaröðinni frá árinu 1991. Mismunur er þó eingöngu milli verkefnasviða og orsakast af nýrri skilgreiningu ESSPROS 1996. Heildarútgjaldatölur eru samanburðarhæfar milli áranna. Veigamestu breytingarnar sem gerðar voru frá 1991 eru: 1) Verkefnasvið sem kallað var aldraðir og öryrkjar, var skipt í tvennt. 2) útgjöld vegna launagreiðslna í gjaldþrotum voru færð frá verkefnasviðinu atvinnuleysi til félagshjálpar. 3) nýtt verkefnasvið, húsnæði (niðurgreiðsla húsnæðiskostnaðar), var tekið upp en útgjöld á því sviði voru áður talin með félagshjálp. Loks var frá 1991 tekið tillit til fjármagnstekna sjóða við fjármögnun. Fyrir þann tíma var eingöngu litið til greiðslna til sjóðanna.

4.2 Samanburður við aðrar hagtölur

Þar sem upplýsingar um útgjöld hins opinbera til félagsverndar eru sóttar beint í reikninga ríkis, sveitarfélaga og Tryggingarstofnunar er samræmi við tölur þjóðhagsreikninga um fjármál hins opinbera gott.
Nákvæmur samanburður við önnur Norðurlönd er gerður árlega og birtist í riti NOSOSKO "Social Tryghed i de Nordiske lande".
Útgjöldin eru gerð upp samkvæmt ESSPROS flokkunarkerfi Eurostat (Hagstofu Evrópusambandsins) og skapar þannig grundvöll til samanburðar við lönd Evrópska efnahagssvæðisins. Rit Eurostat "European social statistics. Social protection, Expenditure and receipts" inniheldur samanburðartölur fyrir lönd Evrópusmbandsins og Ísland, Noreg og Sviss.

4.3 Samband milli bráðabirgðatalna og lokatalna

Ekki eru birtar né reiknaðar bráðabirgðatölur.

5. Aðgangur að upplýsingum


5.1 Miðlunarleiðir

Fréttir, birtar á vef Hagstofunnar
Hagtölur, veftöflur
Hagtíðindi, ritröð
Landshagir, árbók Hagstofu Íslands
Þá lætur Hagstofan í té árlega upplýsingar til NOSOSKO vegna útgáfu Social tryghed i de nordiske lande og til Eurostat.

5.2 Grunngögn; varðveisla og notkunarmöguleikar

Grunngögn aftur til ársins 1991 eru til á aðgengilegu tölvutæku formi. Sundurliðanir gagna fyrir þann tíma eru að hluta á pappírsformi og því ekki aðgengilegar til töflugerðar.

5.3 Skýrslur

Félags- og heilbrigðismál 1991-2000, útg. 2003; Útgjöld til félagsverndar 2001-2004, (Hagtíðindi 2007:1); Social tryghed i de nordiske lande (einnig á ensku), útg. af NOSOSKO; Eurostat "European social statistics. Social protection, Expenditure and receipts".

5.4 Aðrar upplýsingar


© Hagstofa �slands, �ann 6-5-2008