Tekjuskiptingaruppgjör-árlegt


0. Skráningaratriði fyrir viðfangsefni


0.1 Heiti

Tekjuskiptingaruppgjör-árlegt

0.2 Efnisflokkur

Þjóðhagsreikningar

0.3 Umsjón; stofnun, deild, sérfræðingur o.s.frv.

Aron Leifsson
Hagstofa Íslands
Þjóðhagsreikningadeild
netfang: aron.leifsson@hagstofa.is
sími: 528 1135

0.4 Tilgangur og aðdragandi

Tekjuskiptingaruppgjör er ein af þremur aðferðum sem beitt er við gerð þjóðhags¬reikninga. Fram til ársins 2014 höfðu þjóðhagsreikningar verið færðir með tvennum hætti hér á landi, annars vegar samkvæmt ráðstöfun og hins vegar samkvæmt framleiðslu.
Ráðstöfunaruppgjör byggist á því að meta þau verðmæti sem ráðstafað er til endanlegra nota, þ.e. til einkaneyslu, samneyslu, fjárfestingar og útflutnings en innflutningur dregst hins vegar frá. Framleiðsluuppgjörið byggir á því að meta verðmætasköpunina eða virðisaukann þar sem hann verður til en ekki þar sem honum er ráðstafað. Virðisaukinn verður til í einstökum fyrirtækjum og atvinnugreinum og samanstendur af vinnulaunum, afskriftum af framleiðslufjármunum og hreinum hagnaði fyrirtækja áður en kemur til greiðslu vaxta. Þriðja uppgjörsaðferðin og sú uppgjörsaðferð sem hér er til umfjöllunar, tekjuskiptingaruppgjörið, byggir á því að meta virðisaukann eftir að honum hefur verið útdeilt til þeirra, sem tekið hafa þátt í myndun hans.
Í tekjuskiptingaruppgjörinu er hagkerfinu skipt í fimm innlenda megingeira, þ.e. (1) fyrirtæki önnur en fjármálastofnanir, (2) fjármálastofnanir, (3) hið opinbera, (4) heimilin og (5) félagasamtök. Í uppgjörinu er litið á hvern geira og tekjur hans. Með sama hætti eru útgjöld geirans metin, bæði til endanlegrar ráðstöfunar og tilfærslna. Frumþáttatekjur, þ.e. launa og eignatekjur að viðbættum nettó tilfærslutekjum mynda ráðstöfunartekjur hvers geira og eru þær jafnar sparnaði og útgjöldum hans. Í þessu uppgjöri kemur fram skipting tekna milli geira hagkerfisins og af því er heitið tekjuskiptingaruppgjör dregið.
Útlönd eru talin sem sjötti geirinn. Í uppgjörinu er færður einn reikningur fyrir öll viðskipti við útlönd, hvort sem um er að ræða vöru-, þjónustu- eða tilfærsluviðskipti. Útlönd" uppfylla ekki meginreglu geiraskiptingar, þ.e. þau mynda ekki afmarkaðan hóp hvað varðar ákvarðanir um tekjuöflun og ráðstöfun tekna. Hins vegar er nauðsynlegt að setja upp reikning fyrir útlönd í tekjuskiptingaruppgjöri, m.a. til afstemmingar. Uppgjörið fyrir útlönd er unnið úr uppgjöri viðskiptajafnaðar sem Seðlabanki Íslands birtir ársfjórðungslega.
Við gerð tekjuskiptingaruppgjörs er alþjóðlegum stöðlum um gerð þjóðhagsreikninga fylgt, nánar tiltekið ESA 2010, sem er útfærsla Eurostat á hinum alþjóðlega þjóðhagsreikningastaðli SNA 2008.
Hagstofa Íslands fékk styrk til að efla gerð þjóðhagsreikninga á Íslandi í gegnum IPA-fjölþáttaáætlun (e. Instrument for multibeneficiary Pre-Accession Assistance) Evrópusambandsins. Eitt af verkefnunum sem féll undir styrkinn var þróun tekjuskiptingar-uppgjörs fyrir Ísland.

0.5 Notendur og notkunarsvið

Tekjuskiptingaruppgjörið er mikilvægt tæki til að greina tekju- og útgjaldastreymi á milli efnahagsgeira innan hagkerfisins og samband innlendra efnahagsgeira við útlönd. Nota má uppgjörið við greiningar á framleiðslu, dreifingu tekna og tekjuflæðis milli geira.

0.6 Heimildir

Víða er leitað eftir gögnum við gerð tekjuskiptingaruppgjörsins og mismunandi heimildir notaðar fyrir hvern efnahagsgeira. Notast er við skattagrunnskrá fyrir hvert einstakt ár til að skipta hagkerfinu upp milli geira. Annars eru helstu heimildir hvers geira eftirfarandi:
· Hið opinbera: Ríkisreikningur, reikningar sveitarfélaga og almannatrygginga.
· Útlönd: Erlend staða þjóðarbúsins, gögnum safnað af Seðlabanka Íslands.
· Fjármálastofnanir: Efnahagsreikningar, gögnum safnað af Fjármálaeftirlitinu.
· Fyrirtæki önnur en fjármálastofnanir: Efnahagsreikningar og skattframtöl frá Ríkisskattstjóra.
· Heimili: Skattframtöl frá Ríkisskattstjóra.
· Félagasamtök: Efnahagsreikningar og skattframtöl frá Ríkisskattstjóra.

0.7 Lagalegur grundvöllur fyrir hagskýrslugerð

Sjá lög um Hagstofu Íslands og opinbera hagskýrslugerð nr. 163/2007.

0.8 Svarbyrði við innsöfnun

Í meginatriðum má segja að við gerð tekjuskiptingaruppgjörsins sé notast við ýmsar stjórnsýsluskrár sem safnað er í öðrum tilgangi. Lítið er leitað beint til fyrirtækja eða stofnana við gagnasöfnun og ekki til einstaklinga. Ef leitað er til fyrirtækja þá er jafnan beðið um gögn sem þegar eru tiltæk. Svarbyrðin er því hverfandi.

0.9 Ákvæði vegna EES og ESB

Í reglugerð Evrópusambandsins nr. 2223/96 er kveðið á um samræmdar aðferðir við gerð þjóðhagsreikninga í ríkjum ESB og EES.
Við birtingu og gagnasendingar tekjuskiptingaruppgjörsins er reglugerð Evrópusambandsþingsins og -ráðsins fylgt um skil á þjóðhagsreikningagögnum, nr. 549/2013. Sjá nánar:
http://eur-lex.europa.eu/LexUriServ/LexUriServ.do?uri=OJ:L:2013:174:0001:0727:EN:PDF

1. Efni


1.1 Efnislýsing

Tekjuskiptingaruppgjörið skiptist í framframleiðslureikning, ráðstöfun vinnsluvirðis, skiptingu frumtekna, tekjutilfærslur, tekjujöfnun í fríðu og notkun ráðstöfunartekna.
Hver reikningur byrjar með upprunalið (tekjur) og lokast með ráðstöfunarlið (gjöld) sem afstemmingarlið (e. balancing items). Síðasti afstemmingarliðurinn í uppgjörinu er sparnaður sem í þjóðhagsreikningum er sá hluti tekna af framleiðslu hagkerfisins, innanlands eða utan, sem ekki er notaður til neyslu.
Framleiðslureikningurinn er unninn út frá upplýsingum úr framleiðsluuppgjöri Hagstofunnar og geiraskiptri skattagrunnskrá fyrir hvert ár. Hlutföll geiranna af launagreiðslum í hverri atvinnugrein eru notuð til að skipta framleiðslu, aðföngum, leiðréttingu aðfanga v. framleiðsluskatta/framleiðslustyrkja og afskriftum niður á geira. Ráðstöfunarliður þess reiknings, verg landsframleiðsla (VLF), er hér reiknaður sem vinnsluvirði úr hverjum geira auk leiðréttingar aðfanga vegna framleiðsluskatta að frádreginni afstemmingu aðfanga vegna framleiðslustyrkja, skv. framleiðslu- og ráðstöfunaruppgjöri.
Reikningi yfir ráðstöfun vinnsluvirðis er ætlað að kortleggja uppruna frumtekna eftir fimm geirum hagkerfisins. Til frumtekna teljast laun og launatengd gjöld, skattar á framleiðslu og innflutning ásamt framleiðslustyrkjum.
Í reikningi yfir skiptingu frumtekna er einblínt á móttöku þeirra tekna eftir geirum en ekki uppruna. Hér teljast til tekna laun og launatengd gjöld til heimila, skatttekjur hins opinbera ásamt sundurliðuðum eignatekjum og -gjöldum á milli allra fimm geiranna auk útlanda.
Í reikningi yfir tekjutilfærslur eru bókfærðar tilfærslur frumtekna á milli geira í formi skatta, tryggingaiðgjalda, lífeyrisgreiðslna og ýmissa tryggingarbóta.
Reikningur yfir tekjujöfnun í fríðu gefur víðtækari mynd af tekjum heimilanna með því að telja með til tekna þær vörur og þjónustu sem heimilin fá gjaldfrjálst. Þar teljast ýmsar félagslegar bætur í fríðu (e. social benefits in kind) frá hinu opinbera til heimila. Stærstur hluti þeirra er einstaklingsbundin samneysla en það eru útgjöld hins opinbera svo sem til menntunar og heilsu og renna því til heimilanna aftur.
Síðasti reikningur yfir tekjuskiptingu innlendra geira nær yfir notkun ráðstöfunartekna. Ráðstöfunartekjum má verja ýmist til neyslu eða sparnaðar og þessi reikningur sýnir þær færslur. Jöfnuður reikningsins sýnir vergan og hreinan sparnað. Vergur sparnaður heimilageirans reiknast sem vergar ráðstöfunartekjur eftir að leiðrétt hefur verið fyrir breytingum á hreinni eign heimila í lífeyrissjóðum en að frádreginni einkaneyslu heimila. Á sama hátt er vergur sparnaður fjármálastofnana jafn vergum ráðstöfunartekjum þess geira að frádregnum breytingum á hreinni eign heimila í lífeyrissjóðum. Vergur sparnaður hins opinbera er jafn vergum ráðstöfunartekjum að frádregnum hlut hins opinbera í einkaneyslu auk samneyslu.
Sér reikningur er að lokum færður fyrir öll viðskipti við útlönd.

1.2 Tölfræðileg hugtök

Þau hugtök sem notuð eru í þjóðhagsreikningum byggja öll á Hinu evrópska þjóðhagsreikningakerfi (European system of accounts, ESA 2010).
· Við gerð tekjuskiptingaruppgjörs er íslenska hagkerfinu skipt í fimm mismunandi geira, en innan hvers geira teljast þeir sem hafa ýmis sameiginleg hagræn einkenni sem afmarka þá frá öðrum geirum. Sjötti efnahagsgeirinn, útlönd, nær yfir alla erlenda aðila. Yfir- og undirgeirarnir eru eftirfarandi:
· S.0 Allir geirar
· S.1 Ísland (innlendir efnahagsgeirar)
o S.11 Fyrirtæki önnur en fjármálafyrirtæki
o S.12 Fjármálafyrirtæki. Undir þennan geira falla bankar, sparisjóðir, eignaleigur, greiðslukortafyrirtæki, fjárfestingalánasjóðir, verðbréfafyrirtæki og -sjóðir, tryggingafélög og lífeyrissjóðir
o S.13 Hið opinbera
o S.14 Heimili
o S.15 Félagasamtök
· S.2 Útlönd
· Laun og launatengd gjöld: Með launum og tengdum gjöldum er átt við greiðslur í peningum eða fríðu frá atvinnurekanda til launþega fyrir vinnuframlag. Hér teljast einnig greiðslur vinnuveitandans til lífeyristrygginga vegna starfsmanna hvort sem um er að ræða formlega sjóði eða reiknaðar skuldbindingar vinnuveitandans.
· Þáttatekjur: Skiptast í frumþáttatekjur og rekstrarframlög
o Frumþáttatekjur: Tekjur sem verða til af framlagi hvers geira til framleiðsluferlisins eða með því að leigja fjáreignir eða náttúruauðlindir til annarra geira. Þær ná yfir laun, fjárfestingartekjur og aðrar frumþáttatekjur.
o Rekstrarframlög: Skiptast í framlög milli einstaklinga og önnur framlög. Framlög milli einstaklinga taka til allra peningasendinga milli einstaklinga sem hafa búsetu í sitthvoru landinu. Algengastar eru peningasendingar einstaklinga, sem flust hafa búferlum til annarra landa í þeim tilgangi að stunda atvinnu, til ættingja í heimalandinu. Önnur framlög samanstanda af framlögum hins opinbera og frjálsra félagasamtaka til þróunarmála, greiðslur launþega í almenna lífeyrissjóði sem og greiðslur lífeyrissjóða til eftirlaunaþega. Það sama á við um greiðslur launveitenda til almannatrygginga sem og greiðslur úr almannatryggingum til einstaklinga í formi elli- eða örorkulífeyris, sjúkradagpeninga o.s.frv. Endurgreiðslur hins opinbera af skatti til erlendra aðila, svo sem endurgreiðslur af virðisaukaskatti til ferðamanna og vegna kvikmyndagerðar á Íslandi, eru taldar með rekstrarframlögum. Einnig teljast iðgjöld og kröfur vegna skaðatrygginga til annarra framlaga.
· Tilfærslutekjur-/gjöld: Til tilfærslutekna-/gjalda teljast ýmsar bætur og áunnin réttindi greidd af ríki og sveitarfélögum ásamt bótagreiðslum tjónatrygginga.
· Eignatekjur-/gjöld: Meginflokkar eignatekna-/gjalda eru fimm talsins. Þeir eru:
1. Vextir
2. Arður
3. Endurfjárfesting tekna af beinum erlendum fjárfestingum
4. Eignatekjur til eigenda í tryggingasjóðum
5. Leiga af landi og neðanjarðarauðlindum
· Ráðstöfunartekjur: Þáttatekjur að viðbættum nettó tilfærslutekjum mynda ráðstöfunartekjur hvers geira. Í tekju- og útgjaldareikningum gildir, að ráðstöfunartekjur hvers geira eru jafnar sparnaði og útgjöldum hans.
· Sparnaður: Er í þjóðhagsreikningum sá hluti tekna af framleiðslu hagkerfisins, innanlands eða utan, sem ekki er notaður til neyslu. Sparnaður heimilageirans reiknast sem ráðstöfunartekjur eftir að leiðrétt hefur verið fyrir breytingum á hreinni eign heimila í lífeyrissjóðum en að frádreginni einkaneyslu heimila. Á sama hátt er sparnaður fjármálastofnana jafn ráðstöfunartekjum þess geira að frádregnum breytingum á hreinni eign heimila í lífeyrissjóðum. Sparnaður hins opinbera er jafn ráðstöfunartekjum að frádregnum hlut hins opinbera í einkaneyslu auk samneyslu.
· Landsframleiðsla: Er vinnsluvirði að viðbættum sköttum á framleiðslu og innflutning en að frádregnum framleiðslustyrkjum.

2. Tími


2.1 Viðmiðunartími talnaefnis

Árstölur vísa til almanaksárs. Þeim er, eftir því sem kostur er, ætlað að lýsa verðmætastraumum á rekstrargrunni, ekki greiðslugrunni.

2.2 Vinnslutími

Fyrsta útgáfa tekjuskiptingaruppgjörsins var birt í nóvember 2014. Sú útgáfa nær til áranna 2000-2011.

2.3 Stundvísi birtingar

Niðurstöður eru birtar samkvæmt birtingaráætlun Hagstofunnar.

2.4 Tíðni birtinga

Stefnt er að útgáfu árlegra talna tekjuskiptingaruppgjörsins frá og með október 2015 með 22 mánaða tímatöf (t+22). Sending gagna til hlutaðeigandi alþjóðastofnana mun fylgja í kjölfar birtingar. Uppgjörið er aðgengilegt á íslensku og ensku á heimasíðu Hagstofunnar.

3. Áreiðanleiki og öryggismörk


3.1 Nákvæmni gagna og áreiðanleiki

Á árinu 2014 var hið nýja þjóðhagsreikningakerfi Evrópusambandsins, ESA 2010, tekið í notkun. Við undirbúning þess voru ýmsar áætlunaraðferðir teknar til endurskoðunar og matsfjárhæðum breytt eftir því sem ástæða var talin til. Með kerfisbundinni afstemmingu og ítarlegri sundurliðun gagna að uppskrift þjóðhagsreikningastaðals ESA 2010 má tryggja nákvæmni talna tekjuskiptingaruppgjörsins.

3.2 Skekkjuvaldar í gögnum

Skekkjur eða ónákvæmni í gögnum setja vissulega mark sitt á tölur úr tekjuskiptingaruppgjörinu. Þó má segja að með samræmdri meðhöndlun gagnanna frá ári til árs og kerfisbundinni afstemmingu við áður birtar hagstærðir megi draga verulega úr skekkjum.

3.3 Tölur um öryggismörk/skekkjumælingar

Engar sérstakar rannsóknir hafa verið gerðar á skekkju eða öryggismörkum í tekjuskiptingaruppgjörinu.

4. Samanburður


4.1 Samanburðarhæfi milli tímabila

Ein af grunnhugmyndunum með þjóðhagsreikningum er að fylgt skal samræmdum aðferðum frá ári til árs í því skyni að tímaraðir verði eins sambærilegar og kostur er. Með tilkomu nýrra og betri heimilda eða aðferða eitthvert ár getur sambærileikinn þó raskast og er þá leitast við að leysa þann vanda með því að reikna breytingaárið samkvæmt bæði gömlu og nýju aðferðinni og nota breytingaárið sem tengiár. Sem dæmi um slíka breytingu má nefna upptöku nýs flokkunarkerfis atvinnugreina (ÍSAT 2008) árið 2008.

4.2 Samanburður við aðrar hagtölur

Samanburður við innlendar hagtölur er ýmsum takmörkunum háður því oftar en ekki byggja tölur um þjóðhagsreikninga á slíkum hagtölum og samanburðurinn er þá fremur á vinnslustigi en lokastigi.
Samanburður við erlendar hagtölur er algengur og ætti að vera marktækur fyrir þau lönd sem fylgja sama staðli við gerð þjóðhagsreikninga.

4.3 Samband milli bráðabirgðatalna og lokatalna

Litið er svo á að engar þjóðhagsreikningatölur séu lokatölur.

5. Aðgangur að upplýsingum


5.1 Miðlunarleiðir

· Vefur Hagstofu Íslands
· Hagtíðindi
· Gagnabankar OECD og Eurostat sem eru aðgengilegir á heimasíðum þessara stofnana.

5.2 Grunngögn; varðveisla og notkunarmöguleikar

Grunngögn eru varðveitt á Hagstofunni. Afstaða er tekin til þess hverju sinni hvort utanaðkomandi aðilar fá aðgang að ítarlegri sundurliðun gagna en birt eru. Í því sambandi er verndun trúnaðarupplýsinga höfð í fyrirrúmi og fylgt verklagsreglum Hagstofu Íslands um meðferð trúnaðargagna, sem eru aðgengilegar á heimasíðu Hagstofunnar.

5.3 Skýrslur

European system of accounts, útgáfur 1995 og 2010, þjóðhagsreikningastaðall Hagstofu Evrópusambandsins.
System of National Accounts, útgáfur 1993 og 2008. Þjóðhagsreikningastaðall, samantekinn af vinnuhópi á vegum Hagstofu Evrópusambandsins, Eurostat, Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, OECD og Sameinuðu þjóðunum.
Lýsing á aðferðum við gerð tekjuskiptingaruppgjörs-Hagtíðindi: Geiraskiptir þjóðhagsreikningar 2000-2011, 27. nóvember 2014. https://hagstofa.is/?PageID=421&itemid=36adcdc1-65f7-4a9c-90fa-cae58b11226b
Helstu skýrslur um aðferðafræði þjóðhagsreikninga á Íslandi eru:
Gross National Income Inventory (ESA95) Iceland, http://www.hagstofa.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=12687; Statistics Iceland, apríl 2011; birt á heimasíðu Hagstofunnar. Hér er um að ræða ítarlega lýsingu á aðferðum við gerð þjóðhagsreikninga á verðlagi hvers árs. Skýrslan er tekin saman að kröfu Eurostat sem hefur ákveðið kaflaskiptingu og umfjöllunarefni innan hvers kafla. Sambærilegar lýsingar eru til fyrir öll löndin á Evrópska efnahagssvæðinu.
Þjóðhagsreikningar 1945-1992; Þjóðhagsstofnun, Reykjavík Ágúst 1994.

5.4 Aðrar upplýsingar

Nánari upplýsingar um einstaka þætti tekjuskiptingaruppgjörsins veita einstakir starfsmenn Þjóðhagsreikningadeildar, sjá Netfangaskrá.

© Hagstofa �slands, �ann 2-11-2017