Fjöldi fyrirtækja og rekstrarupplýsingar


0. Skráningaratriði fyrir viðfangsefni


0.1 Heiti

Fjöldi fyrirtækja og rekstrarupplýsingar

0.2 Efnisflokkur

Fyrirtæki

0.3 Umsjón; stofnun, deild, sérfræðingur o.s.frv.

Hagstofa Íslands
Fyrirtækjatölfræði
Sími 5281000

0.4 Tilgangur og aðdragandi

Fyrirtækjatölfræði heldur utan um gögn um rekstur fyrirtækja og afkomu þeirra.
Tölfræðin er unnin eftir forskrift í reglugerð Evrópusambandsins nr. 295/2008 um hagskýrslur um skipulag fyrirtækja (e. Structural Business Statistics).

0.5 Notendur og notkunarsvið

Helstu notendur eru opinberir aðilar, alþjóðastofnanir, fyrirtæki, sendiráð, fjölmiðlar, hagsmunasamtök og almenningur sem nota gögnin í margvíslegum tilgangi, t.a.m. við efnahags- og markaðsrannsóknir.

0.6 Heimildir

Framkvæmd byggir á reglugerð Evrópusambandsins nr. 295/2008 um hagskýrslur um skipulag fyrirtækja.
Aðrar heimildir eru skattframtal rekstraraðila (RSK 1.04) og rekstrarskýrsla einstaklinga (RSK 4.11), fyrirtækjaskrá Hagstofu Íslands, Virðisaukaskattskýrslur og staðgreiðsluskrá.

0.7 Lagalegur grundvöllur fyrir hagskýrslugerð

Lög um Hagstofu Íslands nr. 163/2007.
REGLUGERÐ FRAMKVÆMDASTJÓRNARINNAR (EB) nr. 295/2008 frá 11. mars 2008

0.8 Svarbyrði við innsöfnun


0.9 Ákvæði vegna EES og ESB


1. Efni


1.1 Efnislýsing


1.2 Tölfræðileg hugtök

Atvinnugrein. Flokkað samkvæmt atvinnugreinaflokkunarkerfi ÍSAT 2008.

Fjöldi fyrirtækja (11 11 0): Fjöldi fyrirtækja, sem eru skráð í fyrirtækjaskrá og hafa haft tekjur eða launakostnað á tímabilinu. Óvirkar einingar eru undanskildar. Einnig teljast með útibú erlendra aðila sem starfa hér á landi jafnvel þó einingin tilheyri erlendu fyrirtæki. Talningin tekur til allra eininga sem eru virkar á að minnsta kosti hluta viðmiðunartímabilsins. Sjá nánar í reglugerð; COMMISSION REGULATION (EC) No 250/2009

Velta (12 11 0): Velta er sú heildarfjárhæð sem viðkomandi eining færir til reiknings á viðmiðunartímabilinu og svarar til sölu á vörum eða þjónustu til þriðja aðila. Velta tekur til allra gjalda og skatta á vörur eða þjónustu, sem einingin færir til reiknings, að undanskildum þeim virðisaukaskatti sem einingin færir viðskiptamanni beint til reiknings og öðrum svipuðum, frádráttarbærum sköttum sem tengjast beint veltu. Hún tekur einnig til alls annars kostnaðar (vegna flutnings, pökkunar o.s.frv.), sem fellur á viðskiptamanninn, jafnvel þótt þessi kostnaður sé talinn upp sérstaklega í reikningnum. Draga verður frá verðlækkanir, afslátt og virði umbúða sem skilað er. Framleiðsla til eigin nota eða fjárfestingar telst ekki til veltu. Tekjur, sem í ársreikningum fyrirtækja eru flokkaðar sem aðrar rekstrartekjur, fjármunatekjur og óreglulegar tekjur, eru undanskildar frá veltu. Rekstrarstyrkir frá opinberum yfirvöldum eða stofnunum Evrópusambandsins eru einnig undanskildir.

Framleiðsluverðmæti (12 12 0): Framleiðsluverðmæti gefur til kynna hversu mikið einingin framleiðir í raun og veru með því að taka tillit til sölu, birgðabreytinga ásamt endursölu á vörum og þjónustu. Framleiðsluverðmæti er skilgreint sem velta, að viðbættum eða frádregnum breytingum á birgðum af fullunnum vörum, vörum í vinnslu og vörum og þjónustu sem keypt eru til endursölu, að frádregnum kaupum á vörum og þjónustu til endursölu, að viðbættri framleiðslu sem færð er til eignar, að viðbættum öðrum rekstrartekjum (að styrkjum undanskildum). Tekjur og útgjöld sem flokkuð eru sem fjármunatekjur og -gjöld eða óreglulegar tekjur og óregluleg útgjöld í ársreikningum fyrirtækja eru undanskilin framleiðsluverðmæti. Kaup á vörum og þjónustu til endursölu taka til kaupa á þjónustu í því skyni að láta hana þriðja aðila í té í óbreyttu ástandi.

Framleiðsluverðmæti (12 12 0)
= Velta (12 11 0)
+ aðrar rekstrartekjur (að styrkjum undanskildum)
- kaup á vörum og þjónustu til endursölu í óbreyttu ástandi (13 12 0)
+/- breyting á birgðum (13 21 0)
+ framleiðslu sem færð er til eignar

Vinnsluvirði á þáttaverði (12 15 0): Vinnsluvirði á þáttaverði er brúttótekjur af rekstrarstarfsemi að teknu tilliti til rekstrarstyrkja og óbeinna skatta. Hann má reikna á grundvelli veltu, að viðbættri framleiðslu sem færð er til eignar, að viðbættum öðrum rekstrartekjum, að viðbættum eða frádregnum breytingum á birgðum, að frádregnum kaupum á vörum og þjónustu, að frádregnum öðrum sköttum á vöru sem tengjast veltu en eru ekki frádráttarbærir, að frádregnum gjöldum og sköttum tengdum framleiðslu. Einnig má reikna hann á grundvelli vergs rekstrarafgangs með því að bæta við starfsmannakostnaði. Tekjur og útgjöld sem flokkuð eru sem fjármunatekjur og -gjöld eða óreglulegar tekjur og óregluleg útgjöld í ársreikningum fyrirtækja eru undanskilin virðisauka.

Vinnsluvirði á þáttaverði (12 15 0)
= Velta (12 11 0)
+/- breyting á birgðum af vöru og þjónustu (13 21 0)
+ framleiðsla sem færð er til eignar
+ aðrar rekstrartekjur
- kaup á vörum og þjónustu (13 11 0)
- aðrir skattar á vörur sem tengjast veltu en eru ekki frádráttarbærir
- gjöld og skattar tengdir framleiðslu

Vergur rekstrarafgangur (12 17 0): Vergur rekstrarafgangur er tekjur umfram gjöld af rekstrarstarfsemi, að frádregnum kostnaði vegna vinnuafls. Hann má reikna á grundvelli vinnsluvirðis á þáttaverði að frádregnum starfsmannakostnaði. Hann er mismunurinn sem einingin hefur til umráða til að greiða þeim til baka sem hafa lagt til eigið fé og lán til að greiða skatta og standa straum af fjárfestingum sínum eða hluta þeirra. Tekjur og útgjöld sem flokkuð eru sem fjármunatekjur og -gjöld eða óreglulegar tekjur eða óregluleg útgjöld í ársreikningum fyrirtækja eru undanskilin vergum rekstrarafgangi.

Vergur rekstrarafgangur (12 17 0)
= Vinnsluvirði á þáttaverði (12 15 0)
- starfsmannakostnaður (13 31 0)

Heildarkaup á vörum og þjónustu (13 11 0): Kaup á vörum og þjónustu taka til virðis allra vara og þjónustu sem keyptar eru á uppgjörstímabilinu til endursölu eða notkunar við framleiðsluferlið, að undanskildum fjárfestingarvörum, en notkun þeirra er skráð sem fjármunanotkun. Vörurnar og þjónustan, sem um ræðir, kunna annaðhvort að vera endurseldar, í breyttu eða óbreyttu ástandi, nýttar til fulls í framleiðsluferlinu eða bókfærðar sem birgðir. Útgjöld sem flokkuð eru sem fjármunagjöld eða óregluleg útgjöld í ársreikningum fyrirtækja eru undanskilin heildarkaupum á vörum og þjónustu. Kaup á vörum og þjónustu eru metin á innkaupsverði að undanskildum frádráttarbærum virðisaukaskatti og öðrum frádráttarbærum sköttum sem tengjast beint veltu. Allir aðrir skattar og gjöld á vörurnar eru því ekki dregin frá mati á kaupum á vörum og þjónustu. Meðferð skatta á framleiðslu skiptir ekki máli fyrir mat á þessum kaupum.

Kaup á vörum og þjónustu til endursölu í óbreyttu ástandi (13 12 0): Kaup til endursölu eru kaup á vörum með það að markmiði að selja þær aftur þriðju aðilum án frekari vinnslu. Þau taka einnig til kaupa á þjónustu þjónustufyrirtækja, þ.e. fyrirtækja þar sem velta samanstendur ekki aðeins af umboðsþóknun sem innheimt er fyrir veitta þjónustu (svo sem hjá fasteignasölum) heldur einnig fjárhæðinni sem er í raun hluti af þjónustunni, svo sem farmiðakaupum ferðaskrifstofa. Virði vara og þjónustu, sem eru seldar þriðju aðilum gegn umboðslaunum, er undanskilið þar eð umboðsmaðurinn, sem fær umboðslaunin, kaupir hvorki né selur þessar vörur. Með þjónustu til endursölu er hér átt við afurð þjónustustarfsemi, rétt til að nota tiltekna þjónustu eða búnað til nota í tengslum við þjónustu. Kaup á vörum og þjónustu til endursölu í óbreyttu ástandi eru metin á innkaupsverði að undanskildum frádráttarbærum virðisaukaskatti og öðrum frádráttarbærum sköttum sem tengjast beint veltu. Allir aðrir skattar og gjöld á vörur eru því ekki dregnir frá mati á kaupum á vörum og þjónustu.

Breytingar á birgðum af vöru og þjónustu (13 21 0): Breytingar á birgðum (jákvæðar eða neikvæðar) eru mismunurinn á virði birgða í lok viðmiðunartímabils og í byrjun þess. Birgðabreytingar má mæla eftir virði þess sem skráð er sem aukning á verðmæti birgða, að frádregnu því sem skráð er úr birgðum og virði hvers kyns tjóns sem verður á vörubirgðum. Birgðir eru skráðar á innkaupsverði án virðisaukaskatts ef þær eru keyptar af annarri einingu, annars á framleiðsluverði. Til þessara birgða teljast birgðir af fullunnum vörum eða vörum í vinnslu sem einingin hefur framleitt og hafa enn ekki verið seldar. Þessar vörur taka til vara í vinnslu sem tilheyra einingunni, jafnvel þótt þriðji aðili hafi viðkomandi vörur undir höndum. Á sama hátt eru vörur, sem einingin hefur undir höndum en sem tilheyra þriðju aðilum, undanskildar. Til þessara birgða teljast vörur og þjónusta sem keyptar eru gagngert til endursölu í óbreyttu ástandi. Undanskildar eru birgðir af vörum og þjónustu sem látnar eru þriðju aðilum í té gegn umboðslaunum. Vörur, sem þjónustufyrirtæki kaupa til endursölu og bókfæra sem birgðir, geta verið hvort heldur sem er vörur eða þjónusta (réttur til að nota auglýsingarými, flutninga, gistiaðstöðu o.s.frv.). Með þjónustu, sem bókfærð er sem birgðir, er átt við afurð þjónustustarfsemi, rétt til að nota tiltekna þjónustu eða búnað til nota í tengslum við þjónustu. Þessi breyta tekur einnig til birgða af hráefnum og hjálparefnum, aðfanga, íhluta, orkugjafa og smærri verkfæra og þjónustu, sem ekki eru færð til eignar, sem tilheyra einingunni.

Starfsmannakostnaður (13 31 0): Starfsmannakostnaður er skilgreindur sem heildarlaun, í fé eða fríðu, sem vinnuveitandi greiðir starfsmönnum (jafnt fastráðnum starfsmönnum og afleysingafólki sem starfsmönnum með vinnuaðstöðu heima) fyrir vinnu sem hinir síðarnefndu hafa innt af hendi á viðmiðunartímanum. Starfsmannakostnaður tekur einnig til skatta og framlags starfsmanna til almannatrygginga, sem einingin dregur af launum þeirra, auk lögboðins og valfrjáls framlags vinnuveitanda til almannatrygginga. Greiðslur til vinnumiðlana vegna afleysingafólks heyra ekki undir starfsmannakostnað.

Starfsmannakostnaður (13 31 0)
= launakostnaður (13 32 0)
+ kostnaður vegna almannatrygginga (13 33 0)

Launakostnaður (13 32 0): Launakostnaður er skilgreindur sem heildarlaun í fé eða fríðu sem greidd eru öllum einstaklingum á launaskrá (þar með talið starfsmönnum með vinnuaðstöðu heima) fyrir unna vinnu á uppgjörstímabilinu", án tillits til þess hvort greitt er fyrir hana með tilliti til vinnutíma, afraksturs eða ákvæðisvinnu eða þess hvort greitt er fyrir hana reglulega eða ekki. Launakostnaður tekur til virðis hvers konar framlags til almannatrygginga, tekjuskatts o.s.frv. sem starfsmanni ber að greiða, jafnvel þótt vinnuveitandi dragi þau í raun af launum þeirra og greiði beint til almannatryggingakerfa, skattyfirvalda o.s.frv. fyrir hönd starfsmannsins. Launakostnaður tekur ekki til framlags til almannatrygginga sem vinnuveitanda ber að greiða. Launakostnaður tekur til: allra óreglulegra aukagreiðslna, kaupauka, greiðslna sem vinnuveitandi er ekki skyldugur að greiða, greiðslna fyrir 13. mánuð, biðlauna, húsnæðisstyrks, ferðastyrks, framfærslu- og fjölskyldugreiðslna, þjórfjár, umboðslauna, aukaþóknunar fyrir fundarsetur o.s.frv. sem starfsmenn fá, auk skatta, framlags til almannatrygginga og annarra fjárhæða sem starfsmönnum ber að greiða og vinnuveitandi dregur af launum þeirra. Launakostnaður sem vinnuveitandi heldur áfram að greiða vegna veikinda, vinnuslyss, fæðingarorlofs eða skammtímaráðningar má skrá hér eða undir kostnað vegna almannatrygginga, eftir reikningsskilavenjum einingarinnar. Greiðslur til vinnumiðlana vegna afleysingafólks heyra ekki undir launakostnað.

Kostnaður vegna almannatrygginga (13 33 0): Kostnaður vinnuveitenda vegna almannatrygginga samsvarar fjárhæð að jafnvirði framlags til almannatrygginga sem vinnuveitendum ber að greiða til að tryggja rétt starfsmanna sinna til félagslegra bóta. Kostnaður vinnuveitanda vegna almannatrygginga tekur til framlags til kerfa vegna eftirlauna, sjúkratrygginga, fæðingarorlofs, fötlunar, atvinnuleysis, vinnuslysa og vinnusjúkdóma, fjölskyldugreiðslna og annarra kerfa. Innifalinn er kostnaður vegna allra starfsmanna, þar á meðal þeirra sem hafa vinnuaðstöðu heima og lærlinga. Gjöld til allra kerfa eru meðtalin án tillits til þess hvort þau eru lögboðin, í kjarasamningi, samningsbundin eða valfrjáls. Launakostnaður sem vinnuveitandi heldur áfram að greiða vegna veikinda, vinnuslyss, fæðingarorlofs eða skammtímaráðningar má skrá hér eða undir launakostnað, eftir reikningsskilavenjum einingarinnar.

Greiðslur fyrir langtímaleigu og rekstrarleigu á vörum (13 41 1): Greiðslur fyrir langtímaleigu taka til alls kostnaðar tengdum leigu á efnislegum vörum til lengri tíma en eins árs. Rekstrarleiga er leiga, þar sem hvers kyns áhætta og umbun, sem óhjákvæmilega fylgir eignarrétti, færist ekki í reynd til leigutaka. Með rekstrarleigu öðlast leigutaki rétt til afnota af varanlegri neysluvöru í tiltekinn tíma, sem kann að vera langur eða stuttur og þarf ekki að vera ákveðinn fyrir fram. Þegar leigutímabilið rennur út, býst leigusalinn við því að fá vöru sína aftur í nokkurn veginn sama ástandi og þegar hann leigði hana út, að undanskildu eðlilegu sliti. Því tekur leigutímabilið hvorki til alls né stærsta hluta endingartíma vörunnar. Greiðslur fyrir rekstrarleigu á vörum taka til kostnaðar í tengslum við notkun efnislegu varanna sem einingin fær til umráða með þessum samningum.

Fjöldi starfsmanna (16 11 0): Fjöldi starfsmanna er skilgreindur sem heildarfjöldi einstaklinga sem starfa í viðkomandi einingu (að meðtöldum starfandi eigendum, félögum sem starfa reglulega í einingunni og ólaunuðum starfsmönnum í sömu fjölskyldu), auk einstaklinga sem vinna utan einingarinnar en tilheyra henni og fá greidd laun frá henni (þ.e. sölufulltrúar, sendlar og þeir sem annast viðgerðir og viðhald). Breytan tekur til fólks sem er fjarverandi um skamman tíma (þ.e. í sjúkraleyfi, launuðu leyfi eða sérstöku leyfi), auk þeirra sem eru í verkfalli, en ekki þeirra sem eru fjarverandi ótímabundið. Hún tekur einnig til starfsmanna í hlutastarfi, sem samkvæmt landslögum í viðkomandi landi teljast til starfsmanna í hlutastarfi og eru á launaskrá, auk árstíðabundins vinnuafls, lærlinga og starfsmanna með vinnuaðstöðu heima sem eru á launaskrá. Fjöldi starfsmanna tekur ekki til mannafla, sem önnur fyrirtæki sjá einingunni fyrir, einstaklinga, sem sinna viðgerðum og viðhaldi í einingunni fyrir hönd annarra fyrirtækja, eða þeirra, sem gegna lögboðinni herskyldu. Með ólaunuðum starfsmönnum í sömu fjölskyldu er átt við einstaklinga sem búa með eiganda einingarinnar og starfa reglulega fyrir eininguna, en hafa ekki ráðningarsamning og fá ekki ákveðna fjárhæð fyrir þau störf sem þeir sinna. Þetta takmarkast við þá einstaklinga, sem eru ekki á launaskrá hjá annarri einingu þar sem þeir gegna sínu aðalstarfi.

Fjöldi launþega (16 13 0): Fjöldi launþega er skilgreindur sem þeir einstaklingar sem vinna fyrir vinnuveitanda og hafa ráðningarsamning og fá greitt fyrir í formi launa, þóknunar, óreglulegra aukagreiðslna, ákvæðisvinnukaups eða þóknunar í fríðu. Tengsl eru á milli vinnuveitanda og launþega þegar fyrir hendi er formlegur eða óformlegur samningur milli fyrirtækis og einstaklings, sem báðir aðilar ganga yfirleitt að af fúsum og frjálsum vilja, en samkvæmt honum vinnur einstaklingurinn fyrir fyrirtækið gegn greiðslu í fé eða fríðu. Starfsmaður er talinn vera launþegi hjá tiltekinni einingu ef einingin greiðir honum eða henni laun, án tillits til þess hvar vinnan er innt af hendi (innan eða utan framleiðslueiningarinnar). Starfsmaður frá vinnumiðlun fyrir afleysingafólk er talinn vera launþegi vinnumiðlunarinnar en ekki einingarinnar (viðskiptamannsins) sem hann vinnur hjá. Eftirtaldir eru einkum taldir til launþega: starfandi eigendur á launum, námsmenn með formlega skuldbindingu um að leggja sitt af mörkum til framleiðsluferils einingarinnar gegn þóknun og/eða kennslu, launþegar sem eru ráðnir samkvæmt samningi, sem sérstaklega er ætlað að hvetja til ráðningar atvinnulausra einstaklinga, starfsmenn með vinnuaðstöðu heima, ef fyrir hendi er skilmerkilegur samningur um að starfsmaðurinn fái greidd laun fyrir vinnu sem innt er af hendi og sé á launaskrá. Fjöldi launþega tekur til starfsmanna í hlutastarfi, árstíðabundins vinnuafls, einstaklinga í verkfalli eða í stuttu leyfi, en einstaklingar í langtímaleyfi eru undanskildir. Fjöldi launþega tekur ekki til sjálfboðaliða. Fjöldi launþega er reiknaður út á sama hátt og fjöldi starfsmanna, það er að segja sem fjöldi starfa, og er mældur sem ársmeðaltal.

2. Tími


2.1 Viðmiðunartími talnaefnis

Árstölur vísa til almanaksárs og er tölunum ætlað að lýsa rekstri og afkomu fyrirtækja á viðkomandi ári.

2.2 Vinnslutími

Endanlegar tölur eru gefnar út ekki síðar en 18 mánuðum eftir að viðmiðunarári lýkur.

2.3 Stundvísi birtingar

Í samræmi við birtingaráætlun Hagstofu Íslands. Birtingaráætlun er gefin út á vef Hagstofu Íslands í október hvert ár.

2.4 Tíðni birtinga

Árlega.

3. Áreiðanleiki og öryggismörk


3.1 Nákvæmni gagna og áreiðanleiki

Helsta gagnalindin eru skattframtöl rekstraraðila og rekstrarskýrslur einstaklinga frá Ríkisskattstjóra. Áreiðanleiki gagnanna er háður því að þessi lögboðna skylda sé virt og framtölin fyllt rétt út.

3.2 Skekkjuvaldar í gögnum

Helstu skekkjuvaldar geta verið villur í skattframtölum eða að fyrirtæki/einstaklingar skili ekki inn framtölum til Ríkisskattstjóra. Röng atvinnugreinaskráning fyrirtækja veldur einnig skekkju.

3.3 Tölur um öryggismörk/skekkjumælingar

Engin öryggismörk eru reiknuð þar sem um heildarsafn er að ræða.

4. Samanburður


4.1 Samanburðarhæfi milli tímabila

Gögnin eru samanburðarhæf milli ára þar sem samræmdum aðferðum er beitt frá ári til árs við útreikninga og vinnslu. Sambærileiki talna getur þó raskast vegna breyttra heimilda eða aðferða og einnig ef breyting verður á skilum til Ríkisskattstjóra.

4.2 Samanburður við aðrar hagtölur


4.3 Samband milli bráðabirgðatalna og lokatalna


5. Aðgangur að upplýsingum


5.1 Miðlunarleiðir

  • Fréttatilkynning
  • Talnaefni birt á heimasíður Hagstofunnar

5.2 Grunngögn; varðveisla og notkunarmöguleikar

Grunngögn eru varðveitt sem trúnaðarupplýsingar á Hagstofunni. Aðgangur að grunngögnum er bundin við þá starfsmenn Hagstofunnar sem vinna með gögnin. Hagstofan veitir ekki aðgang að grunngögnum en unnt er að fá sérvinnslur úr þeim að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

5.3 Skýrslur


5.4 Aðrar upplýsingar


© Hagstofa �slands, �ann 27-1-2017