Tekjur


0. Skráningaratriði fyrir viðfangsefni


0.1 Heiti

Tekjur

0.2 Efnisflokkur

Laun og tekjur

0.3 Umsjón; stofnun, deild, sérfræðingur o.s.frv.

Laun, tekjur og menntun
laun@hagstofa.is
Sími: 528 1250

0.4 Tilgangur og aðdragandi

Tekjutölfræði úr skattframtölum hefur verið birt í Landshögum, árbók Hagstofunnar um árabil. Frá árinu 2015 má finna tekjutölfræði í talnaefni á vef Hagstofunnar og voru eldri ár endurreiknuð með samræmdri aðferðafræði. Tilgangur birtingar er að svara eftirspurn eftir nánara niðurbroti á meðaltekjum einstaklinga.

0.5 Notendur og notkunarsvið

Tekjutölfræði úr skattframtölum hefur verið birt í Landshögum, árbók Hagstofunnar um árabil. Frá árinu 2015 má finna tekjutölfræði í talnaefni á vef Haagstofunnar og voru eldri ár endurreiknuð með samræmdri aðferðafræði. Tilgangur birtingar er að svara eftirspurn eftir nánara niðurbroti á meðaltekjum einstaklinga.

0.6 Heimildir

Skattframtöl einstaklinga.

0.7 Lagalegur grundvöllur fyrir hagskýrslugerð

Samkvæmt lögum um Hagstofu Íslands og opinbera hagskýrslugerð nr. 163/2007.

0.8 Svarbyrði við innsöfnun

Engin.

0.9 Ákvæði vegna EES og ESB

Engin slík ákvæði liggja fyrir.

1. Efni


1.1 Efnislýsing

Tekjur - skattframtöl eru eins og nafnið bendir til tölfræði úr skattframtölum einstaklinga. Framtalsskyldir eru allir 16 ára og eldri sem eru skattskyldir á Íslandi. Á grundvelli framtalanna eru birtar upplýsingar um tekjur einstaklinga. Þegar skattframtöl síðastliðins árs liggja fyrir eru gefnar út eftirfarandi töflur sem ná aftur til ársins 1990:
 • Tekjur eftir kyni og aldri
 • Dreifing heildartekna eftir kyni og aldri
 • Dreifing atvinnutekna eftir kyni og aldri

1.2 Tölfræðileg hugtök

Þýðið
Niðurstöður byggja á framteljendum sem eru skattskyldir hér á landi að undanskildum eftirfarandi:

 • Framteljendur sem eru með handreiknað framtal.
 • Framteljendur sem fá áætlaðan skatt á viðkomandi tekjuári eða árinu á undan.
 • Framteljendur sem létust á árinu eða eru búsettir erlendis samkvæmt þjóðskrá.

Handreiknað framtal fá þeir framteljendur sem hafa ekki búið á Íslandi nema hluta úr viðkomandi tekjuári, hafa hér á landi skattalega heimilisfesti, hafa tekjur hér á landi án þess að hafa hér búsetu, og eins ef breytingar hafa orðið á hjúskaparstöðu svo dæmi séu tekin, eða aðrar þær breytingar á högum sem kalla á sérstaka meðhöndlun skattframtalsins. Erlendis búsettur telst sá sem hefur búið fleiri en 30 daga erlendis.

Aldur miðast við 31. desember tekjuárið.

Heildartekjur eru samtala atvinnutekna, fjármagnstekna og annarra tekna.

Atvinnutekjur eru launatekjur og aðrar starfstengdar tekjur, ökutækjastyrkur, dagpeningar og hlunnindi. Auk þess teljast reiknað endurgjald og tekjur erlendis, aðrar en fjármagnstekjur, til atvinnutekna.

Fjármagnstekjur eru vaxtatekjur, arður, söluhagnaður og leigutekjur utan rekstrar. Auk þess teljast tekjur af atvinnurekstri til fjármagnstekna.

Aðrar tekjur eru lífeyrisgreiðslur, greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins og aðrar bótagreiðslur á borð við atvinnuleysisbætur, vaxta- og barnabætur. Vaxta- og barnabætur reiknast á greiðslugrunni, þ.e. miðast við það ár sem þær eru greiddar út eða árið á undan tekjuárinu. Auk þess teljast til annarra tekna náms- og rannsóknarstyrkir, vinningar og ýmsar aðrar tekjur.

Skattar eru samtala af tekjuskatti, útsvari, eignarskatti, fjármagnstekjuskatti og öðrum skatti sem greiddur er á tekjuárinu. Í einhverjum tilfellum getur verið um að ræða endurgreiðslu á sköttum. Skattar eru staðgreiðsluskattar greiddir á tekjuárinu eða eftirágreiddir/eftirstöðvar sem greiðast þá árið eftir tekjuárinu. Allir skattar reiknast á greiðslugrunni, þ.e. miðast við það ár sem þeir eru greiddir.

Ráðstöfunartekjur eru heildartekjur að frádregnum sköttum og greiðslum í lífeyrissjóð frá og með árinu 1997.

Meðaltal - allir er meðaltal framteljenda.

Meðaltal - skilyrt er meðaltal framteljenda sem hafa tilteknar tekjur/skatta.

Miðgildi - allir er miðgildi framteljenda.

Miðgildi - skilyrt er miðgildi framteljenda sem hafa tilteknar tekjur/skatta.

Fjöldi - allir er fjöldi framteljenda.

Fjöldi - skilyrt er fjöldi framteljenda sem hafa einhverjar tekjur/skatta.

Dreifing tekna er birt bæði fyrir heildar- og atvinnutekjur. Framteljendum er raðað eftir tekjum í 10 jafnstóra hópa, frá þeim tekjulægsta til þess tekjuhæsta. Tíundamörk sýna það hlutfall framteljenda sem hafa lægri eða jafnt og tekjur en upphæðin sem gefin er. Auk tíundamarka eru einnig gefin út 95% mörk og 99% mörk. Til dæmis árið 2014 voru 99% mörk atvinnutekna allra 18.400 þús. króna á ári sem þýðir að 99% framteljenda höfðu lægri eða jafnt og 18.400 þús. krónur í atvinnutekjur. Þá höfðu 1% framteljenda hærri atvinnutekjur á ári en 18.400 þús. krónur. Í umfjöllun um dreifingu tekna er eingöngu miðað við þá sem hafa tekjur í viðkomandi tekjuflokki, aðrir hafa verið útilokaðir.

2. Tími


2.1 Viðmiðunartími talnaefnis

Árleg tíðni. Tekjur og skattar eru reiknaðar á greiðslugrunni, það er að segja samanlagðar tekjur sem einstaklingur aflar á árinu og skattar sem innheimtir eru sama árið.

2.2 Vinnslutími

Gögn hvers árs berast í hús fljótlega eftir að árleg álagningaskrá Ríkisskattstjóra liggur fyrir. Vinnslutími er að jafnaði einn mánuður og niðurstöður liggja því að öllu jöfnu fyrir með 9 til 10 mánaða tímatöf.

2.3 Stundvísi birtingar

Niðurstöður eru birtar samkvæmt birtingaráætlun Hagstofunnar.

2.4 Tíðni birtinga

Töflur eru uppfærðar einu sinni á ári.

3. Áreiðanleiki og öryggismörk


3.1 Nákvæmni gagna og áreiðanleiki

Útreikningar miðast við skattframtöl sem skilað hefur verið til Ríkisskattstjóra. Tekjur einstaklinga sem ekki hafa talið fram og eru áætlaðar eru ekki teknar með í þessa úrvinnslu.

3.2 Skekkjuvaldar í gögnum

Skattframtöl eru grunngögn í þessari tölfræði. Þeim er safnað af skattyfirvöldum vegna skattálagningar. Verkefni skattyfirvalda eru ákvörðuð með lögum og þær upplýsingar sem beðið er um á framtali eru til að leggja á opinber gjöld. Vakin er athygli á því að forskráning gagna skattframtala hefur aukið upplýsingagæði þeirra hin síðari ár sem torveldar samanburð við eldri gögn.

3.3 Tölur um öryggismörk/skekkjumælingar

Engin öryggismörk eru reiknuð þar sem um heildarsafn er að ræða.

4. Samanburður


4.1 Samanburðarhæfi milli tímabila

Gögnin eru samanburðarhæf milli ára þar sem beitt er samræmdum aðferðum frá ári til árs við útreikninga og vinnslu. Sambærileiki talna getur þó raskast vegna breyttra heimilda eða aðferða og einnig ef breyting verður á álagningu eða lögbundnum skilum gagna til Ríkisskattstjóra. Vakin er athygli á því að forskráning gagna skattframtala hefur aukið upplýsingagæði þeirra hin síðari ár sem torveldar samanburð við eldri gögn.

4.2 Samanburður við aðrar hagtölur

Ýmis önnur tekjutölfræði er gefin út af Hagstofunni. Farið verður í samanburð á þessari útgáfu og hverri útgáfu fyrir sig hér fyrir neðan.
Upplýsingar um skuldir, eignir og eiginfjárstöðu einstaklinga eru gefnar út í tengslum við verkefni um skuldastöðu heimila og fyrirtækja, verkefni sem stjórnvöld fólu Hagstofunni í ársbyrjun 2012. Upplýsingar um tekjur og skatta eru að mestu leyti sambærilegar en stærsti munurinn er eftirfarandi:
 • Til annarra tekna og heildartekna teljast að auki vaxta- og barnabætur sem ekki eru meðtaldar í skuldaverkefninu. Í báðum útgáfum reiknast ráðstöfunartekjur sem heildartekjur að frádregnum sköttum en í þessari útgáfu dragast lífeyrisgreiðslur auk þess frá ráðstöfunartekjum frá árinu 1997. Annar munur er sá að í skuldaverkefninu reiknast skattar og bætur á framtalsgrunni, þ.e. miðað er við að skattar og bætur tilheyri því tekjuárinu óháð því hvenær þeir/þær koma til greiðslu. Í þessari útgáfu reiknast skattar hins vegar á greiðslugrunni en þá er miðað við þá skatta og bætur sem koma til greiðslu á tekjuárinu. Að lokum er þýðið ekki nákvæmlega það sama, t.d. er þeim sem hafa áætlað framtal eða búsettir erlendis sleppt í þessari útgáfu.

Nokkur munur er á skilgreiningum í geirareikningum þjóðhagsreikninga og þessari útgáfu við mat á ráðstöfunartekjum heimilisgeirans. Má þar einkum nefna fernt:
 • Í fyrsta lagi er munur á því hvernig tekjur sjálfstætt starfandi einstaklinga eru metnar samkvæmt þessum aðferðum. Í þessari útgáfu telst til tekna sjálfstætt starfandi reiknað endurgjald við eigin atvinnurekstur auk hreinna tekna af eigin atvinnurekstri samkvæmt framtali. Í þjóðhagsreikningum eru þær tekjur hins vegar metnar út frá geiraskiptingu framleiðslureikninga hagkerfisins.
 • Í öðru lagi er sá munur að aðferð þjóðhagsreikninga metur til tekna virði þess að búa í eigin húsnæði í stað leiguhúsnæðis, eða nánar tiltekið brúttó rekstrarafgang af fasteignarekstri heimila. Segja má að þar sé um að ræða reiknaðan hagnað af eigin leigu húsnæðis. Þetta mat er hins vegar ekki talið með samkvæmt hreinni tekjutölfræði.
 • Í þriðja lagi er almennur söluhagnaður og hagnaður af sölu hlutabréfa metinn til fjármagnstekna hér en þessir liðir eru hins vegar ekki taldir með í ráðstöfunartekjum eins og þær eru skilgreindar í þjóðhagsreikningum. Þetta er samkvæmt skilgreiningunni á tekjuhugtakinu í þjóðhagsreikningum, en tekjur eru þar skilgreindar sem þær tekjur sem unnt er að ráðstafa án þess að gengið sé á efnahaginn.
 • Í fjórða lagi er um mismunandi aðferðafræði að ræða við mat á liðnum óframtaldar tekjur sem metnar eru til tekna í ráðstöfunartekjum heimila í þjóðhagsreikningum en eðli málsins samkvæmt kemur ekki fram í framtalsgögnum.

Upplýsingar um fjárhagsstöðu heimila eru unnar úr lífskjararannsókn Hagstofunnar. Þar er fjallað um tekjur niður á neyslueiningu en í þessari útgáfu er fjallað um tekjur eftir einstaklingum. Neyslueining í lífskjararannsókn er vog sem er útbúin til þess að hægt sé að taka tillit til mismunandi stærðar heimila og þess að útgjöld aukast ekki alltaf í réttu hlutfalli við fjölda heimilismanna. Hver einstaklingur á heimili fær tiltekið vægi eftir aldri sínum og stærð heimilis. Önnur tekjuhugtök eru sambærileg og í þessari útgáfu að undanskildum ráðstöfunartekjum þar sem auk skatta og lífeyrissjóðs er framlag launamanns í séreignasparnað einnig dregin frá heildartekjum.

4.3 Samband milli bráðabirgðatalna og lokatalna

Engar bráðabirgðatölur eru gefnar út.

5. Aðgangur að upplýsingum


5.1 Miðlunarleiðir

 • Miðlunarleiðir
 • Fréttir, birtar á vef Hagstofunnar
 • Hagtölur, efnisflokkaðar veftöflur
 • Landshagir, árbók Hagstofu Íslands

5.2 Grunngögn; varðveisla og notkunarmöguleikar

Grunngögn eru varðveitt á Hagstofunni. Afstaða er tekin til þess hverju sinni hvort utanaðkomandi aðilar fái aðgang að ítarlegri sundurliðun gagna en birt eru. Í því sambandi er verndun trúnaðarupplýsinga höfð í fyrirrúmi og verklagsreglum Hagstofu Íslands fylgt um meðferð trúnaðargagna, sem eru aðgengilegar á heimasíðu Hagstofunnar.

5.3 Skýrslur


5.4 Aðrar upplýsingar

Frekari upplýsingar fást hjá starfsmönnum deildarinnar.

© Hagstofa �slands, �ann 22-2-2018