Leikskólar


0. Skráningaratriði fyrir viðfangsefni


0.1 Heiti

Leikskólar

0.2 Efnisflokkur

Menntun

0.3 Umsjón; stofnun, deild, sérfræðingur o.s.frv.

Deild: Laun, tekjur og menntun
Tengiliður: Haukur Pálsson
Sími: 528-1042
Tölvupóstfang: haukur.palsson@hagstofa.is

0.4 Tilgangur og aðdragandi

Hagstofa Íslands hefur frá árinu 1997 safnað skýrslum árlega frá öllum leikskólum á Íslandi. Með skýrslugerðinni er safnað upplýsingum um starfsemi leikskóla, um börn sem dvelja á leikskólum og starfsmenn. Tilgangur skýrslugerðarinnar er að gefa heildarsýn yfir umfang fyrsta skólastigsins og varpa ljósi á starfsemi leikskóla, breytingar á milli ára og skoða leikskólann í alþjóðlegu samhengi. Aðdragandi upplýsingaöflunar Hagstofu Íslands um leikskóla er samningur sem gerður var við menntamálaráðuneytið í nóvember 1997. Samningnum var sagt upp árið 2012.
Fyrir árið 1997 var upplýsingaöflunin í höndum menntamálaráðuneytisins en hluti úrvinnslu fór fram á Hagstofu.

0.5 Notendur og notkunarsvið

Niðurstöðurnar eru nýttar af mennta- og menningarmálaráðuneyti, sveitarfélögum og samtökum þeirra og af stjórnendum leikskóla til stefnumótunar. Tölur um leikskóla eru nýttar til rannsókna á skólastarfi. Upplýsingar um leikskóla eru grundvöllur upplýsingagjafar til alþjóðastofnana og útgáfu Hagstofunnar á tölum um leikskóla..

0.6 Heimildir

Í janúar á hverju ári er beðið um upplýsingar um börn og starfsmenn allra leikskóla á Íslandi þann 1. desember árið á undan. Einnig um starfsemi leikskólanna árið á undan. Oft er erfitt að fá upplýsingar um nýja leikskóla og hefur í því sambandi verið haft samband við sveitarfélögin. Einnig hafa fjölmiðlar verið nýttir og leitarvélar á vefnum.

0.7 Lagalegur grundvöllur fyrir hagskýrslugerð

Lög um Hagstofu Íslands og opinbera hagskýrslugerð 163/2007; lög um leikskóla 90/2008. Reglugerð um mat og eftirlit í leikskólum og upplýsingaskyldu sveitarstjórna um skólahald 893/2009. Samkomulag Hagstofu Íslands og menntamálaráðuneytis um öflun tölulegra upplýsinga um skóla- og menningarmál og úrvinnslu þeirra í tengslum við hagskýrslugerð frá nóvember 1997.

0.8 Svarbyrði við innsöfnun

Samkvæmt lögum skulu sveitarstjórnir gefa mennta- og menningarmálaráðuneyti skýrslu árlega um starfsemi leikskóla. Með samkomulagi Hagstofu Íslands og menntamálaráðuneytis frá nóvember 1997 annast Hagstofan framkvæmd skýrslugerðarinnar, innsöfnun gagna, úrvinnslu og birtingu niðurstaðna. Innsöfnun fer fram á tölvutæku formi.

0.9 Ákvæði vegna EES og ESB

Gagnasöfnun um leikskóla er í samræmi við staðla evrópsku hagstofunnar Eurostat og eru tölulegar upplýsingar sendar til Eurostat og annarra alþjóðastofnana.

1. Efni


1.1 Efnislýsing

Skýrslugerðin nær til eftirtalinna atriða er varða leikskólastofnanir, börn sem í þeim dvelja og starfsfólk:

Heiti leikskólastofnunar, heimilisfang og rekstraraðili.

Starfstími, bæði opnunartími yfir árið og fjöldi daga sem opið er í hverri viku.

Fjöldi barna eftir fæðingarári, kyni og lengd daglegrar viðveru.

Fjöldi barna eftir fæðingarári og kyni sem njóta sérstaks stuðnings/sérkennslu í leikskólum.

Fjöldi barna eftir fæðingarári og kyni sem hafa annað tungumál að móðurmáli en íslensku og heiti móðurmáls.

Fjöldi barna eftir kyni sem eru með erlent ríkisfang og ríkisfang þeirra.

Starfsfólk eftir aldri, kyni, búsetu, starfssviði, stöðuhlutfalli, menntun og réttindum. Vert er að nefna að ekki eru skráðir verktakar, s.s. starfsfólk við þrif og matseld. Merkt er sérstaklega við starfsfólk í launuðu leyfi og það undanskilið í vinnslu Hagstofunnar.

1.2 Tölfræðileg hugtök

Leikskóli. Litið er á leikskóla sem sjálfstæða einingu sem hefur einn leikskólastjóra. Leikskóli getur verið í fleiri en einu húsi og á fleiri en einum stað, yfirleitt þó í einu sveitarfélagi. Eitt sveitarfélag eða fleiri geta séð um rekstur á einum og sama leikskólanum. Skv. lögum um leikskóla á leikskólastjóri að vera menntaður leikskólakennari. Þá skal skólastjóri samrekins skóla (leikskóli og grunnskóli reknir sem ein stofnun) hafa leyfisbréf til kennslu á leik- og/eða grunnskólastigi.

Barn. Barn sem skráð er í leikskólann á viðmiðunardegi skýrslugerðar, þann 1.desember á viðmiðunarári. Frá árinu 2008 er upplýsingum um börn safnað á kennitölu og því er hægt að tengja gögnin saman við þjóðskrá.

Viðvera. Dagleg viðvera barns skráð í heilum klukkustundum.

Móðurmál. Með móðurmáli er átt við það tungumál sem barnið lærir fyrst, er því tamast og talað er á heimili þess, stundum aðeins af öðru foreldri.

Stuðningur. Börn sem hafa fengið sérstaka aðstoð eða þjálfun undir handleiðslu sérfræðinga á árinu. Ekki er gerður munur á því hvort stuðningur átti sér stað í nokkur skipti eða allt árið..

Starfslið leikskólans. Til starfsfólks teljast allir sem starfa í leikskólanum undir stjórn leikskólastjóra. Undanskilin er aðkeypt þjónusta og verktakar. Starfsmenn í tímabundnu leyfi, s.s. vegna veikinda, teljast hér með. Starfsmenn í launalausu leyfi og lengri fjarveru eru taldir fram en teknir frá í gagnavinnslu.

Starf. Störf starfsmanna eru flokkuð eftir starfssviði og eru flokkarnir 9 talsins. Flokkarnir vísa til starfa í ÍSTARF95 starfaflokkuninni, sem byggir á alþjóðlegu flokkunarkerfi starfa, ISCO-88.

Menntun. Menntun hvers starfsmanns er flokkuð eftir ISCED97, alþjóðastaðli menntunar, eftir æðsta prófi sem viðkomandi starfsmaður hefur lokið.

Fagmenntun starfsmanna. Greint er á milli þess hvort starfsmaður við uppeldi og menntun barna hafi lokið leikskólakennaraprófi, annars konar uppeldismenntun, t.d. grunnskólakennaraprófi eða íþróttakennaraprófi, hafi lokið diplómaprófi í leikskólafræðum eða sé leikskólaliði.

Starfshlutfall starfsmanns. Sýnir starfshlutfall starfsmanna. Ef starfsmaður er ekki í fullu starfi er starfshlutfall skráð sem hlutfall af heilu starfi. Oftast er starfshlutfall 100% eða minna en getur þó verið hærra í þeim tilvikum þar sem starfsmaður sinnir meira en sem nemur einu fullu starfi. Starfsmaður sem sinnir tveimur mismunandi störfum innan sama leikskóla eða í tveimur leikskólum, t.d. starfi í mötuneyti og við ræstingu, er skráður í það starf sem er hans aðalstarf. Reynt er að meta vinnuframlag starfsfólks sem vinnur við uppmælingu sem hlutfall af heilu starfi. Fram til ársins 2000 voru starfsmenn sem voru í meira en einu fullu starfi aðeins skráðir í eitt fullt starf.

Barngildi. Reikniaðferð notuð til að meta starfsmannaþörf leikskóla skv. reglugerð nr. 255/1995. Þar kemur fram að það skuli vera 8 barngildi á hvern starfsmann við uppeldi og menntun barna og eru starfsmenn við stuðning og leikskólastjórar ekki meðtaldir. Barngildi hefur verið birt á samanteknu formi í smáritinu Leikskólum 1997 og á heimasíðu Hagstofu Íslands fyrir leikskólatölur frá árinu 1998. Barngildi reiknast út frá aldri og dvalartíma barns í leikskólanum. Þannig reiknast 5 ára barn sem dvelur allan daginn í leikskólanum sem 0,8 barngildi; 4 ára barn sem 1,0 barngildi, 3 ára barn sem 1,3 barngildi; 2 ára barn sem 1,6 barngildi og barn sem er yngra en 2 ára sem 2,0 barngildi. Ekki er kveðið á um hvernig meta skal viðverulengd í þessu samhengi og því hefur verið fylgt reglunni um heilsdagsígildi.

Heilsdagsígildi. Reikniaðferð til að meta ígildi barna sem eru allan daginn í leikskóla óháð aldri. Barn sem dvelur hálfan daginn, 4 klst., er 0,5 heilsdagsígildi (4/8); barn sem dvelur í 5 klst. er 0,625 heilsdagsígildi (5/8); barn sem er 6 klst. er 0,75 heilsdagsígildi (6/8); barn sem er 7 klst. eða lengur í leikskólanum á dag skráist sem 1,0 heilsdagsígildi. Þessi reikniaðferð var notuð í útgáfu Hagstofu á Sveitarsjóðareikningum þegar tölur um leikskóla birtust á þeim vettvangi, í Landshögum og í smáritinu Leikskólar 1997. Einnig er þessi aðferð notuð í tölum sem gefnar eru út af Sambandi íslenskra sveitarfélaga og birtar eru í Árbók þess sundurliðaðar á hvern leikskóla.

Ígildi heilla barna (e. full-time equivalents, FTE). Þessi eining er notuð í skýrslugerð til alþjóðastofnana. Ígildi heilla barna er reiknað eins og heilsdagsígildi að því undanskildu að frá skólaárinu 2003-2004 er 4,5 klst. viðvera talin vera ígildi eins heils barns. Í leiðbeiningum með skýrslum til alþjóðastofnana á dvöl í leikskóla sem er 75% eða meira af kennslutíma í 1.bekk grunnskóla að teljast vera fullt nám. Því teljast börn sem dvelja í 4,5 tíma eða lengur á leikskólum vera í fullu námi. Fyrir þann tíma var ígildi heilla barna reiknað sem 75% af viðveru barns í leikskóla, eða sem svarar 6 klst. á dag.

2. Tími


2.1 Viðmiðunartími talnaefnis

Óskað er eftir skýrslum frá leikskólum í janúar ár hvert og miðast upplýsingagjöf við börn og starfsmenn 1. desember árið á undan. Upplýsingar um opnunartíma leikskóla eiga við um allt árið.

2.2 Vinnslutími

Vinnslutími niðurstaðna er u.þ.b. 9 mánuðir frá viðmiðunardegi.

2.3 Stundvísi birtingar

Helstu niðurstöður skýrslugerðar eru birtar á vefsíðum Hagstofu Íslands á sumrin fyrir tölur ársins á undan. Birtingaráætlun er birt á heimasíðu Hagstofunnar og kemur þar fram hvaða dag efnið verður birt með a.m.k. 10 daga fyrirvara. Þá eru kvaðir um að skila niðurstöðum til norrænna, evrópskra og alþjóðlegra stofnana fyrir ákveðinn tíma.

2.4 Tíðni birtinga

Niðurstöður eru birtar á vef Hagstofunnar árlega. Árlega, til ársins 2015, voru birtar tölur um leikskóla í árbók Hagstofu Íslands, Landshögum.

3. Áreiðanleiki og öryggismörk


3.1 Nákvæmni gagna og áreiðanleiki

Hagstofan leitar eftir skýrslum frá öllum starfandi leikskólum. Skil skýrslna hafa verið 100% undanfarin ár.

3.2 Skekkjuvaldar í gögnum

Skekkjuvaldar í gögnum spretta einkum af skráningarskekkjum (í skýrslum leikskóla og við innslátt eða afritun í tölvukerfi Hagstofu) og mæliskekkjum (ónákvæmni eyðublaða). Skekkjur af öðrum toga geta verið þær að leikskólar gefi rangar upplýsingar eða ekki tæmandi upplýsingar, sem þá þarf að áætla, eða miði skýrslugerðina við annan tíma en tilsettan viðmiðunartíma.
Starfsmaður sem sinnir tveimur mismunandi störfum innan sama leikskóla eða í tveimur leikskólum, t.d. starfi í mötuneyti og við ræstingu, er skráður í það starf sem er hans aðalstarf.
Fram til ársins 2000 voru starfsmenn sem voru í meira en einu fullu starfi skráðir í eitt fullt starf. Vert er að nefna að fjöldi nemenda og starfsmanna er miðaður við einn dag á ári, þ.e. þann 1. desember. Því koma sveiflur í nemenda- og starfsmannafjölda innan ársins ekki fram.
Skekkjum er haldið í lágmarki með samanburði við skýrslugerð fyrri ára, samkeyrslu við aðrar skrár Hagstofu, s.s. þjóðskrá, og fyrirspurnum til einstakra leikskóla.

3.3 Tölur um öryggismörk/skekkjumælingar

Í upplýsingaöflun um leikskóla eru fengnar upplýsingar frá öllum starfandi leikskólum á landinu. Þegar unnið er með allt þýðið eru hvorki reiknuð út öryggismörk né gerðar skekkjumælingar.

4. Samanburður


4.1 Samanburðarhæfi milli tímabila

Áður en Hagstofan tók að sér að afla gagna um leikskóla var upplýsingaöflunin í höndum menntamálaráðuneytisins. Úrvinnsla þeirra gagna fór að hluta til fram á Hagstofu Íslands. Tölur um fjölda barna og um fjölda og stöðuhlutfall starfsmanna, sem menntamálaráðuneytið safnaði, eru sambærilegar við tölur sem Hagstofan hefur aflað frá 1997.
Upplýsingum um börn með erlent ríkisfang hefur verið safnað frá árinu 2000. Frá árinu 2008 hefur upplýsingum um leikskólabörn verið safnað á kennitölu og því verið hægt að tengja gögnin við þjóðskrá. Tölur um ríkisfang barna frá 2008 eru fengnar úr þjóðskrá en gögn fyrir þann tíma eru fengnar frá leikskólunum.
Starfsmenn sem voru í meira en einu fullu starfi voru skráðir í eitt fullt starf fram til ársins 2000.
Að öðru leyti hefur skilgreiningum Hagstofu ekki verið breytt í grundvallaratriðum frá 1997.

4.2 Samanburður við aðrar hagtölur

Niðurstöður skýrslugerðar leikskóla eru bornar saman við aðrar heimildir eftir því sem því verður komið við, s.s. þjóðskrá, nemendaskrá og prófaskrá.
Farið er eftir alþjóðlegum stöðlum um gagnasöfnun í skýrslugerð til alþjóðastofnana. Þar var gert ráð fyrir því að ekki sé um menntun að ræða hjá börnum undir 3 ára aldri. Frá tölum fyrir skólaárið 2003-2004 skipti Hagstofan starfsemi leikskóla því upp í uppeldis- og menntunarþátt í skýrslugerð til alþjóðastofnana. Þar er talið að um menntun væri að ræða í 6 tíma á dag, en leikskóladvöl umfram það skilgreind sem uppeldi. Þá var starfsfólk, sem sinnti uppeldi, ekki talið til starfsfólks leikskóla. Fyrir 2003-2004 var öll dvöl barna á öllum aldri á leikskólum skilgreind sem menntun. Með endurskoðun á alþjóðlegu menntunarflokkuninni.ISCED árið 2011, eru öll börn í leikskólum talin með í gögnum til alþjóðastofnana, og allt starfsfólk við uppeldi og menntun leikskólabarna.
Til starfsfólks við uppeldi og menntun teljast leikskólakennarar, annað uppeldismenntað starfsfólk og ófaglært starfsfólk í þessum störfum. Í sumum erlendum tölum eru eingöngu taldir menntaðir leikskólakennarar. Þannig verður fjöldi heilla barna á hvern starfsmenn við uppeldi og menntun ekki endilega samanburðarhæfur á milli landa.

4.3 Samband milli bráðabirgðatalna og lokatalna

Það eru ekki gefnar út bráðabirgðatölur.

5. Aðgangur að upplýsingum


5.1 Miðlunarleiðir

1. Árið 1996 og fyrr voru birtar sundurliðaðar upplýsingar um leikskóla í útgáfu Hagstofu á Sveitarsjóðareikningum. Samband íslenskra sveitarfélaga hefur og birt sundurliðaðar tölur um starfsemi leikskóla í Árbók sveitarfélaga og síðar í Skólaskýrslu.

2. Gefið var út smárit í febrúar 1999 með heitinu Leikskólar 1997. Ritið var byggt á skýrslum leikskóla í desember 1997.

3. Frá árinu 1998 hafa helstu tölulegu niðurstöður gagnaöflunarinnar verið birtar á vef Hagstofunnar.

4. Í Landshögum eru árlega birtar yfirlitstöflur um starfsemi leikskóla.

5. Í apríl 2004 komu út Hagtíðindi: Starfsfólk í leikskólum í desember 2003.

6. Í apríl 2005 komu út Hagtíðindi: Börn í leikskólum í desember 2004.

7. Í september 2006 komu út Hagtíðindi: Starfsfólk við kennslu í leik-, grunn- og framhaldsskólum 2000-2005.

8. Í maí 2008 komu út Hagtíðindi: Börn í leikskólum í desember 2007.

9. Í maí 2010 komu út Hagtiðindi: Starfsfólk í leikskólum 2009.

10. Upplýsingar úr gagnaöflun Hagstofu um leikskóla er einnig að finna í ritum alþjóðastofnana um menntamál, s.s. Key data on Education in Europe sem kemur út á tveggja ára fresti (útgefandi Eurydice), Education at a Glance (árleg útgáfa OECD) og Global Education Digest (árleg útgáfa UNESCO).

5.2 Grunngögn; varðveisla og notkunarmöguleikar

Gögnin eru geymd á tölvutæku formi á Hagstofunni. Litið er á gögn um einstaka starfsmenn sem trúnaðarmál. Ekki er veittur aðgangur að gögnunum sjálfum en unnt er að fá sérvinnslu úr þeim. Vísindamenn geta sótt um aðgang að gögnunum í rannsóknarskyni að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

5.3 Skýrslur

Leikskólar 1997, Landshagir, Hagtíðindi og efni á vef Hagstofunnar, http://www.hagstofa.is/.

5.4 Aðrar upplýsingar

Frekari upplýsingar má fá hjá ábyrgðarmanni leikskólagagna og öðrum starfsmönnum LTM (laun, tekjur og menntun) deildar.

© Hagstofa �slands, �ann 9-9-2016