Jafnvirðisgildi (PPP)


0. Skráningaratriði fyrir viðfangsefni


0.1 Heiti

Jafnvirðisgildi (PPP)

0.2 Efnisflokkur

Verðlag og neysla

0.3 Umsjón; stofnun, deild, sérfræðingur o.s.frv.

Snorri Gunnarsson
Vísitöludeild
Hagstofa Íslands
ppp@hagstofa.is
S. 528 1207

0.4 Tilgangur og aðdragandi

Jafnvirðisgildi (PPP: Purchasing Power Parity) er notað til að færa landsframleiðslutölur til sambærilegs verðlags í ýmsum ríkjum. Einnig notað til að bera saman hlutfallslegt verðlag milli landa.
Jafnvirðisgildi er umreikningstala fyrir mismunandi gjaldmiðla notuð í stað gengis. Jafnvirðisgildi sýnir hve mikið þarf í gjaldmiðlum einstakra ríkja til að kaupa sama magn vöru og þjónustu í öðrum löndum.
Jafnvirðisgildi hafa verið reiknuð í OECD löndum frá 1980 en Sameinuðu þjóðirnar unnu að málinu frá 1970. Ísland hefur frá 1990 tekið þátt í alþjóðlegu verðsamanburðarverkefni þar sem jafnvirðisgildi eru reiknuð og notuð til að bera saman magn landsframleiðslu og undirþátta hennar.

0.5 Notendur og notkunarsvið

Helsta notkun jafnvirðisgilda er við samanburð á magntölum þjóðhagsreikninga milli landa og við samanburð á hlutfallslegu verðlagi. Notendur eru milliríkja- og alþjóðastofnanir, t.d. IMF og OECD. Stærsti notandinn er þó ýmsar deildir innan Evrópusambandsins en hjá þeim eru jafnvirðisgildi m.a. notuð, auk samanburðar þjóðhagstalna:
Við ákvörðun byggðastyrkja.
Til að fylgjast með verðlagsþróun á evrusvæðinu.
Við ákvörðun á staðaruppbót á laun starfsmanna ESB.
Við samanburð á hlutfallslegu verðlagi.

0.6 Heimildir

Verð á vörum í verslunum og hjá þjónustufyrirtækjum vegna kannana fyrir einkaneyslu. Undirvísitölur neysluverðs eru notaðar við framreikning milli ára. Verð á leigu er fengið úr húsaleigukönnun og útgjaldarannsókn Hagstofu og við framreikning er m.a. stuðst við gögn úr húsaleigubótakerfinu.
Fyrir samneyslu er stuðst við gögn frá ríki og launa- og kjaramáladeild Hagstofu um laun opinberra starfsmanna og eru þau notuð sem verð á samneyslu.
Verð fyrir fjárfestingarliðinn fæst með könnunum á verði bygginga, véla og tækja sem framkvæmdar eru annað hvert ár. Við framreikning eru notaðar verðvísitölur úr þjóðhagsreikningum.
Úr þjóðhagsreikningum fást upplýsingar um verðmæti og sundurliðun landsframleiðslu.

0.7 Lagalegur grundvöllur fyrir hagskýrslugerð

Engin séríslensk lög gilda um útreikning eða birtingu jafnvirðisgilda. Unnið er að lagasetningu hjá ESB og gert ráð fyrir að reglugerð um verkefnið taki gildi árið 2007.

0.8 Svarbyrði við innsöfnun

Á hverju ári eru gerðar verðkannanir og miðað er við að á þriggja ára tímabili nái þær til allra þátta landsframleiðslunnar. Árlega eru nýjar niðurstöður úr könnunum sem liggja fyrir teknar með í útreikninginn meðan niðurstöður eldri kannana eru framreiknaðar með vísitölum. Svarbyrðin er því í flestum tilfellum ekki mikil, aðeins sú að gefa upp verð á nokkrum vörum á þriggja ára fresti. Kannanirnar eru að stórum hluta framkvæmdar með heimsóknum sem gerir svarbyrði enn minni fyrir þau fyrirtæki sem leitað er til. Hluta upplýsinga er aflað með hringingum og/eða fyrirspurnum sem sendar eru í símbréfi eða rafrænt.
Þjóðhagsreikningadeild Hagstofu sér fyrir fjárhæðum þjóðhagsreikninga og sundurliðun á þeim.
Þyngst byrði við innsöfnun er lögð á ríki og launa- og kjaradeild Hagstofu vegna launa opinberra starfsmanna. Árlega er safnað meðalárslaunum og vinnutíma fyrir stærstu hópa launafólks í starfi hjá hinu opinbera og er vinnan fólgin í samkeyrslu gagna á tölvutæku formi.

0.9 Ákvæði vegna EES og ESB

ESB-reglugerð var innleidd 2007 um útreikning jafnvirðisgilda. Regulation (EC) No 1445/2007 of the European Parliament and of the Council of 11 December 2007 establishing common rules for the provision of basic information on Purchasing Power Parities and for their calculation and dissemination. http://europa.eu/legislation_summaries/regional_policy/management/l34019_en.htm Hér á landi er ekki til sjálfstæð reglugerð fyrir jafnvirðisgildi eru þau nefnd í öðrum reglugerðum og þar tilgreint að þau skuli notuð. Þetta eru reglugerðir nr 1164/94, 1260/99 og 1267/99 um byggða- og þróunarsjóði (cohesion and structural funds) og nr. 3830/91 um laun starfsmanna ESB.

1. Efni


1.1 Efnislýsing

Jafnvirðisgildi (PPP: Purchasing Power Parities) er reiknieining, notuð í stað gengis við samanburð á magni landsframleiðslu milli landa. Þau eru meðaltal af verðhlutföllum á milli landa (sem þátt taka í verkefninu) fyrir vörukörfu af sambærilegum vörum og þjónustu, sem á að gefa mynd af landsframleiðslu landanna. Vörukörfunni er skipt upp í flokka (sjá 1.2) og í henni eiga að vera vörur sem eru lýsandi fyrir neyslumynstur hverrar þjóðar. Með verðhlutföllunum eru verðmætafjárhæðir þjóðhagsstærða færðar til sambærilegs verðlags við samanburð á magni.

1.2 Tölfræðileg hugtök

Flokkunarkerfið sem notað er við samanburð á Evrópulöndum og löndum OECD er:
SNA (System of National Accounts, flokkun notuð af Sameinuðu Þjóðunum) en skv. henni eru þjóðhagsreikningar flokkaðir eftir fjármögnun útgjalda.T.d. eru útgjöld ríkisins vegna heilsugæslu einstaklinga flokkuð með samneyslu, aðeins hluti sjúklings með einkaneyslu. Hentar ef um er að ræða mat á því sem fjölskyldur hafa greitt fyrir vöru og þjónustu.
Önnur flokkun sem notuð er er kölluð ICP (International Comparison Programme). Það er flokkun sem byggist á neyslu, þ.a. útgjöld hins opinbera vegna einstaklinga og fjölskyldna eru dregin frá samneyslu og bætt við einkaneysluna. Hentar betur við samanburð þar sem útgjöld til heilsugæslu og menntunar eru fjármögnuð á mismunandi hátt.
Frá 1999 hefur verið notað COICOP flokkunarkerfið fyrir einkaneysluna, en það er einnig notað í vísitölu neysluverðs, samræmdu neysluverðsvísitölunni og í útgjaldarannsókn Hagstofunnar.
Notað er COFOG (Classification of the Functions of Government) fyrir samneysluna, en hún er flokkuð eftir tilgangi og gerð. Þá er COPNI (Classification of the Purpose of Non-Profit Institutions Serving Households) notað til að skipta útgjöldum félagasamtaka.
Útreikningur á jafnvirðisgildum fer fram í þremur áföngum.
Reiknuð eru verðhlutföll milli allra ríkja, fyrir hvern undirflokk vöru og þjónustu t.d. osta og mjólk.
Reiknuð eru verðhlutföll fyrir flokka vöru og þjónustu, t.d. mjólkurvörur, vegin eftir útgjaldaskiptingu þjóðarframleiðslu fyrir flokkinn.
Meðaltöl verðhlutfalla reiknuð eftir EKS (Eletö-Köves-Schultz) aðferð og fyrst reiknað margfeldismeðaltal fyrir dæmigerðar vörur í fyrra landinu (Laspeyres) Margfeldismeðaltal er reiknað fyrir dæmigerðar vörur í síðara landinu (Paasche) Margfeldismeðaltal reiknað fyrir niðurstöður í báðum löndum (Fischer)
Í einstaka tilvikum er ekki til verð fyrir allar vörur í löndunum og er þá beitt sérstakri reikniaðferð til að áætla þau gildi sem vantar, þannig að alls staðar verði til verðhlutföll fyrir sambærilegar vörur.
Við útreikning á heildarniðurstöðum er EKS -aðferð einnig notuð, bæði hjá Eurostat og OECD. Grunnjafnvirðisgildin eru vigtuð miðað við skiptingu landsframleiðslunnar á útgjaldaflokka og lögð saman og aftur eru með EKS-aðferð reiknuð meðaltöl hlutfalla milli allra landa. Aðferðin leiðir til þess að mismunandi samsetning útgjalda breytir ekki heildarniðurstöðum. Hentar best við samanburð á einstökum útgjaldaþáttum og verðhlutföllum milli landa.
GK (Geary-Kamis) aðferð (notuð hjá Sameinuðu þjóðunum). Litið er á löndin sem hóp og vægi hvers lands er jafnt hlut þess í landsframleiðslu hópsins og þar vega stærri ríki því meira en smærri. Meðalverðin eru reiknuð með ítrun fyrir allan hópinn í senn. Leiðir til þess að samsetning og hæð útgjalda hefur áhrif á niðurstöður í einstökum löndum og heildarniðurstöðurnar. Breyting á verðhlutföllum í einu landi getur haft áhrif á öll önnur lönd og heildarniðurstöður, t.d. getur breyting á verðhlutföllum í fötum í Frakklandi haft áhrif á verðhlutföll fyrir matvöru í Bretlandi
Hentar ekki ef eitthvert land er með útgjaldasamsetningu sem er frábrugðin meðaltalinu og geta niðurstöðurnar þá verið villandi og er þetta nefnt "Gerschenkron áhrif". Helsti kostur við aðferðina er að hægt er að leggja niðurstöðurnar saman fyrir öll löndin og eru þær tölur sambærilegar. Hentar best við samanburð á innbyrðis skiptingu útgjalda í einstökum löndum.

2. Tími


2.1 Viðmiðunartími talnaefnis

Viðmiðunartími fyrir niðurstöður úr PPP-samanburðinum er 1 ár. Gögnum um hvert ár er safnað fyrir þriðjung verðsafnsins, en 2/3 hluta verðsafns einkaneysluflokkanna er framreiknað með vísitölum.

2.2 Vinnslutími

Bráðabirgðaniðurstöður samanburðar eins árs birtast í desember árið eftir. Endanlegar og sundurliðaðar niðurstöður eru birtar á miðju ári þar á eftir. (Dæmi: bráðabirgðaniðurstöður 2004 voru birtar í desember 2005 og endanlegar niðurstöður á miðju ári 2006).

2.3 Stundvísi birtingar

Eurostat gefur út útgáfuáætlun miðað við vinnslutímann (sjá 2.2).

2.4 Tíðni birtinga

Heildariðurstöður eru birtar á hverju ári. Að auki eru gefnar út niðurstöður úr könnunum á einstökum vöruflokkum þegar þær liggja fyrir.

3. Áreiðanleiki og öryggismörk


3.1 Nákvæmni gagna og áreiðanleiki

Hvert land, sem þátt tekur í verkefninu, ber ábyrgð á þeim gögnum sem það sendir frá sér en Eurostat ber ábyrgð á útreikningi og útgáfu niðurstaðna.

3.2 Skekkjuvaldar í gögnum

Í verðkönnunum á vöru og þjónustu einkaneyslunnar, sem framkvæmdar eru á 3ja ára fresti og í könnunum á verði bygginga, véla og tækja eru ýmsar skekkjur mögulegar:
Við tilbúning vörulista, úrtaksskekkjur: Þýði kannananna er vörur/þjónusta þess hluta einkaneysluútgjalda sem kanna á. Löndin hafa oft ónógar markaðsupplýsingar eða erfitt reynist að útbúa lista með vörum sem eru lýsandi fyrir neyslumynstur hvers lands. Land með neyslumynstur sem er frábrugðið mynstri í öðrum ríkjum getur átt í erfiðleikum með að finna einkennandi vörur sem til eru annars staðar því nauðsynlegt er að a.m.k. eitt annað land geti verðlagt sömu vöru. Ávallt er reynt að hafa listana sem einfaldasta, til að auðvelda vinnu við þýðingar og verðsöfnun en á móti kemur það niður á gæðum ef þekja verður lítil.
Við verðsöfnun, mæliskekkjur: Ónákvæmni í vörulýsingum og/eða þýðingu getur valdið því að verðsöfnun verður óáreiðanleg eða ef spyrlar eru ekki nægilega þjálfaðir. Ef verslanir eða þjónustufyrirtæki eru ekki valin eftir markaðshlutdeild eða ef erfitt reynist að finna vörurnar sem á að verðleggja geta orðið skekkjur vegna þess.
Við yfirferð á gögnum, úrvinnsluskekkjur: Ef verðsöfnunin er fábrotin fyrir vöru/þjónustu getur verið erfitt að meta áreiðanleika gagnanna. Skráningarskekkjur geta orðið þegar handskrifaðar upplýsingar frá spyrlum eru skráðar í tölvu eða þegar upplýsingar úr símtölum eru færðar inn.
Mæliskekkjur geta orðið Þegar gögnum er safnað einu sinni á ári, s.s. vegna leigu, launa opinberra starfsmanna og í þjóðhagsreikningavogum. Leiguliðurinn er vandasamur þar sem húsnæðismálum ríkja er háttað með mjög mismunandi hætti og því er allur samanburður vandasamur. Skekkjur í launaupplýsingum sem Hagstofan fær frá launadeild ríkisins og frá launa- og kjaradeild Hagstofu geta verið vegna þess að flokkun starfa, samkvæmt ISCO-88 (ÍSTARF 95) er ekki fullkomin. Þá getur mismunur milli landa á vinnutímaskilgreiningu valdið skekkju í gögnum. Skekkjur í vogum þjóðhagsreikninga geta orðið vegna mismundi aðferða við færslu þeirra. Mikil samræmingarvinna hefur átt sér stað og hefur ESA-95 verið tekið upp en það kerfi er notað í flestum Evrópulöndum.
Þegar löndin hafa skilað gögnum til Eurostat er unnið úr þeim og samantekt gerð á niðurstöðum fyrir allan hópinn. Þá þarf að yfirfara gögnin og sérstaklega er athugað að ríkin noti sambærilegar skilgreiningar og aðferðafræði við gagnaöflun.

3.3 Tölur um öryggismörk/skekkjumælingar

Í útgáfum eru ekki notaðar tölur um skekkju/öryggismörk en í yfirferð á gögnum er verð sem er 20% fyrir ofan eða neðan meðaltal EU15-landa athugað sérstaklega.

4. Samanburður


4.1 Samanburðarhæfi milli tímabila

Ársniðurstöður fyrir PPP-samanburðinn eru ekki ætlaðar til tímaraðagreiningar enda er um hlutfallstölur milli landa að ræða. Árin 2002 til 2004 fór fram endurskoðun á tölum PPP aftur til 1995. Var leitast við að endurmeta eldri gögn m.t.t breyttra aðferða með það að markmiði að gera þau samanburðarhæfari yfir tíma. Niðurstöðurnar voru í ágúst 2004 gefnar út sem tímaraðir.

4.2 Samanburður við aðrar hagtölur

Ekki hefur verið gerður samanburður á niðurstöðum PPP og öðrum hagtölum.

4.3 Samband milli bráðabirgðatalna og lokatalna

Bráðabirgðatölur fyrir PPP eru aðeins gefnar út fyrir verga landsframleiðslu, ekki fyrir undirflokka hennar. Ef löndin endurskoða eða leiðrétta tölur þjóðhagsreikninga geta orðið breytingar á lokaniðurstöðunum.

5. Aðgangur að upplýsingum


5.1 Miðlunarleiðir

  • Á vef Hagstofu um leið og þær liggja fyrir frá Eurostat
  • Í Hagtíðindum einu sinni á ári.
  • Eurostat birtir niðurstöður í fréttatilkynningum og á vef sínum, http://epp.eurostat.ec.europa.eu/

5.2 Grunngögn; varðveisla og notkunarmöguleikar

Grunngögn vegna PPP-verkefnisins eru geymd á tölvutæku formi á Hagstofu og að hluta til í skjalasafni (gögn vegna verðsöfnunar). Aðgangur er ekki veittur að grunngögnum, í samræmi við þær reglur að ekki skuli veittar upplýsingar sem geti afhjúpað veitanda þeirra.

5.3 Skýrslur

OECD gefur á þriggja ára fresti út rit um niðurstöður PPP-samanburðar fyrir ríki OECD auk nokkurra annarra ríkja. Í því riti er að finna kafla um aðferðafræði PPP.
Til er handbók um alþjóða verðsamanburðarverkefnið, PPP sem gefin var út af OECD og Eurostat. Hana má finna á:
http://www.oecd.org/std/prices-ppp/eurostat-oecdmethodologicalmanualonpurchasingpowerparitiesppps.htm

5.4 Aðrar upplýsingar

Hægt er að finna nýlegar fræðigreinar um útreikning jafnvirðisgilda á vef OECD:
http://www.oecd.org/std/prices-ppp/

© Hagstofa �slands, �ann 5-5-2014