Grunnskólar


0. Skráningaratriði fyrir viðfangsefni


0.1 Heiti

Grunnskólar

0.2 Efnisflokkur

Menntun

0.3 Umsjón; stofnun, deild, sérfræðingur o.s.frv.

Deild: Laun, tekjur og menntun
Tengiliður: Haukur Pálsson
Sími: 528-1042
Tölvupóstfang: haukur.palsson@hagstofa.is

0.4 Tilgangur og aðdragandi

Hagstofa Íslands hefur frá árinu 1997 safnað saman og haldið utan um tölfræðilegar upplýsingar frá grunnskólum landsins. Aðdragandi þess að Hagstofa Íslands hóf þessa starfsemi er samningur sem gerður var á milli Hagstofu Íslands og menntamálaráðuneytisins árið 1997. Samningnum var sagt upp árið 2012. Söfnun þessara upplýsinga fer fram með skýrslugerð haust og vor ár hvert. Með skýrslugerðinni er safnað saman upplýsingum um starfstíma grunnskólans, starfsmenn hans og nemendur. Tilgangur skýrslugerðarinnar er að gefa heildarsýn yfir umfang grunnskólans, sýna þróun í starfsemi skólans og setja fram tölur sem hægt er að nota í samanburði milli landsvæða og í alþjóðlegu samhengi. Fyrir árið 1997 var upplýsingaöflunin í höndum menntamálaráðuneytisins.

0.5 Notendur og notkunarsvið

Upplýsingar um grunnskólann eru grundvöllur upplýsingagjafar til alþjóðastofnana og útgáfu Hagstofunnar um málefni grunnskólans. Niðurstöðurnar eru nýttar af menntamálaráðuneyti, sveitarfélögum og samtökum þeirra og af stjórnendum grunnskólans til stefnumótunar. Þá eru upplýsingarnar einnig notaðar af samtökum kennara og foreldra. Tölur um grunnskólann eru sömuleiðis nýttar til rannsókna á skólastarfi af nemendum og fræðimönnum.

0.6 Heimildir

Upplýsingar um grunnskólann eru grundvöllur upplýsingagjafar til alþjóðastofnana og útgáfu Hagstofunnar um málefni grunnskólans. Niðurstöðurnar eru nýttar af menntamálaráðuneyti, sveitarfélögum og samtökum þeirra og af stjórnendum grunnskólans til stefnumótunar. Þá eru upplýsingarnar einnig notaðar af samtökum kennara og foreldra. Tölur um grunnskólann eru sömuleiðis nýttar til rannsókna á skólastarfi af nemendum og fræðimönnum.

0.7 Lagalegur grundvöllur fyrir hagskýrslugerð

Lög um Hagstofu Íslands 163/2007; lög um grunnskóla nr. 91/2008. Reglugerð um upplýsingaskyldu sveitarfélaga um skólahald nr. 384/1996. Samningur Hagstofu Íslands og menntamálaráðuneytisins frá 1997 um öflun upplýsinga um skóla- og menningarmál og úrvinnslu þeirra í tengslum við hagskýrslugerð.

0.8 Svarbyrði við innsöfnun

Samkvæmt lögum skulu sveitarstjórnir gefa mennta- og menningarmálaráðuneyti skýrslu um starfsemi, nemendur og starfsmenn grunnskóla. Með samkomulagi Hagstofu og menntamálaráðuneytisins frá 1997 annast Hagstofan framkvæmd skýrslugerðarinnar, innsöfnun gagna, úrvinnslu og birtingu niðurstaðna. Gögnum er safnað saman með rafrænum hætti.

0.9 Ákvæði vegna EES og ESB

Gagnasöfnun um grunnskóla er í samræmi við staðla evrópsku hagstofunnar Eurostat og eru tölulegar upplýsingar sendar til Eurostat og annarra alþjóðastofnana.

1. Efni


1.1 Efnislýsing

Skýrslugerðin nær til eftirtalinna atriða varðandi nemendur, kennara og starfsemi grunnskólans.

Grunnskólinn: Heiti skólans og kennitala, rekstraraðili og kennitala, umsjónarmaður með skýrslugerð, sími skólans og hvort skólinn sé einsetinn, einsetinn að hluta eða tvísetinn (haustskýrsla).

Starfstími: Hvenær kennsla hófst og lauk eftir bekkjum, heildarfjöldi skóladaga, fjöldi kennsludaga, fjöldi prófdaga og annarra skóladaga. Þá eru taldir dagar þar sem kennsla féll niður t.d. vegna óveðurs, verkfalla eða annarra óviðráðanlegra orsaka. Einnig eru taldir starfsdagar kennara og þeir flokkaðir eftir því hvort þeir eru á starfstíma skólans eða ekki (vorskýrsla).

Nemendastundir: Kennslustundir á viku flokkaðar eftir námsgreinum fyrir hvern bekk. Einnig er talinn sá fjöldi nemenda sem leggur stund á erlend tungumál og hvaða tungumál eru lærð; enska, danska, norska, sænska, þýska, franska, spænska eða önnur tungumál (vorskýrsla).

Nemendur: Nemendur sem skráðir eru í skólann 15. október ár hvert. Fjöldi bekkja, fjölda nemenda, fæðingarár, fjöldi drengja og fjöldi stúlkna. Upplýsingar um börn með annað móðurmál en íslensku eftir bekk, kyni og móðurmáli. Frá hausti 2006 hefur upplýsingum um nemendur verið safnað eftir kennitölu, bekk, bekkjardeild og móðurmáli. Upplýsinga um kyn, aldur og lögheimili er aflað með samtengingu við þjóðskrá í desember ár hvert (haustskýrsla).

Sérkennsla: Nemendur sem njóta sérkennslu, eftir bekk, kyni og hvort um er að ræða stuðning inni í bekk, í sérkennsluveri eða hvort tveggja. Einnig hvort nemendur eru í sérstakri sérdeild. Safnað frá árinu 2004. Þá hefur verið safnað inn frá skólaárinu 2010-2011 upplýsingum um ástæður sérkennslu; þ.e. hvort formleg greining liggi að baki og hvort um sé að ræða íslenskukennslu (vorskýrsla).

Starfsmenn: Allir starfsmenn skólans eftir aldri, kyni, búsetu eftir landssvæðum, starfsheiti, s.s skólastjórnendur, almennir kennarar, sérkennarar, deildarstjórar, ráðgjafar, heilbrigðisstarfsfólk, bókaverðir, ritarar, uppeldisfulltrúar, mötuneytisstarfsmenn, húsverðir, gangaverðir, baðverðir og ræsitæknar. Starfshlutfall, menntunarflokkur (skv. alþjóðlega menntunarstaðlinum ISCED97), og hvort starfsmaður við kennslu hafi kennsluréttindi eða ekki. Vert er að nefna að ekki eru skráðir verktakar, s.s. skólabílstjórar og í síauknum mæli starfsfólk við þrif og matseld (haustskýrsla).

Heilsdagsskóli: Upplýsingum um heilsdagsskóla, lengda viðveru, var safnað á árunum 2000-2005 (vorskýrsla).

1.2 Tölfræðileg hugtök

Skóli: Litið er á skóla sem sjálfstæða einingu sem hefur einn skólastjóra. Skóli getur verið í fleiri en einu húsi og á fleiri en einum stað, yfirleitt þó í einu sveitarfélagi. Fleiri sveitarfélög geta séð um rekstur á einum skóla.

Einsetning: Skóli er einsetinn ef allar bekkjardeildir skólans byrja skóladaginn á sama tíma. Skóli er að hluta til einsetinn ef a.m.k. 75% bekkjardeilda skólans geta byrjað skóladaginn á sama tíma. Skóli er ekki einsetinn ef færri en 75% bekkjardeilda skólans geta byrjað skóladaginn á sama tíma.

Nemandi: Nemandi sem skráður er sem slíkur í skóla á viðmiðunardegi skýrslugerðar, 15. október. Í nokkrum sérskólum getur nemandi verið tímabundið án þess að vera skráður nemandi skólans, t.d. í skólum tengdum meðferðarheimilum.

Bekkur: Frá 1. - 10. bekk, auk þess sem 5 ára bekkur starfar í nokkrum skólum. Ef skóli tilgreinir ekki bekk eru nemendur flokkaðir í bekk eftir fæðingarári. Einstaklingar eru yfirleitt skráðir í bekk eftir fæðingarári. Nemandi getur þó verið ári á undan eða á eftir jafnöldrum sínum.

Bekkjardeild: Þeir nemendur sem eru alla jafnan saman í námshópi. Oftast er um að ræða nemendur á sama aldri, en í fámennum skólum á sér oftar en ekki stað samkennsla, þar sem tveimur eða fleiri aldursárgöngum er kennt saman. Blöndun árganga getur einnig átt sér stað í þeim skólum þar sem einstaklingsnámskrá er við líði. Skólar eru beðnir um að merkja samkennslubekki þannig að hægt sé að sjá hvar um samkennslu er að ræða.

Móðurmál: Með móðurmáli er átt við það tungumál sem barnið lærir fyrst, er því tamast og talað er á heimili þess, stundum aðeins af öðru foreldri.

Starfslið skólans: Til starfsfólks teljast allir sem starfa í skólanum undir stjórn skólastjóra. Undanskilin er aðkeypt þjónusta og verktakar. Forfallakennarar sem ekki eru á föstum mánaðarlaunum eru ekki taldir hér með. Stundi starfsmaður tvö eða fleiri mismunandi störf við grunnskóla, er hann flokkaður í það starf sem hann sinnir mest, og telst allt starfshlutfall hans þar með. Starfsmenn í tímabundnu leyfi, s.s. vegna veikinda og barneigna, teljast hér með.

Starfsnúmer starfsmanna: Hverjum starfsmanni er gefið starfsnúmer eftir íslenskri starfaflokkun, ÍSTARF95, sem byggir á alþjóðlega flokkunarkerfinu ISCO-88.

Stöðuhlutfall starfsmanns: Sýnir starfshlutfall starfsmanna. Ef starfsmaður er ekki í fullu starfi er það skráð sem hlutfall af heilu starfi. Oftast er stöðuhlutfall 100% eða minna en getur þó verið hærra í þeim tilvikum þar sem starfsmaður sinnir meira en sem nemur einu fullu starfi. Starfsmaður sem sinnir tveimur mismunandi störfum innan skólans, t.d. starfi í mötuneyti og við ræstingu, er skráður í það starf sem er hans aðalstarf. Reynt er að meta starfshlutfall starfsfólks sem vinnur við uppmælingu eftir vinnuframlagi. Fram til ársins 1999 voru starfsmenn sem voru í meira en einu fullu starfi aðeins skráðir í eitt fullt starf.

Flokkur menntunar: Hver starfsmaður er flokkaður eftir ISCED97 staðlinum eftir æðsta prófi sem viðkomandi hefur lokið.

Kennsla hófst: Dagsetning fyrsta kennsludags að hausti.

Síðasti skóladagur: Dagsetning síðasta dags skólaársins sem nemendur sóttu skólann. Getur verið skólaslitadagur.

Kennsludagar: Fjöldi daga á skólaárinu sem nemendur voru í skóla undir skipulagðri leiðsögn kennara skv. stundaskrá.

Aðrir skóladagar: Fjöldi daga sem nemendur sóttu skóla utan kennslu- og prófdaga. Þetta geta verið skólaskemmtanir, sýningar á skólatíma með almennri þátttöku nemenda, vettvangsferðir, dvöl í skólabúðum, skíðaferðir, skólaferðalög, starfsfræðsla, landgræðslustörf og önnur skipuleg störf utan skólans.

Skóladagar alls: Samanlagður fjöldi kennsludaga, prófdaga og annarra skóladaga ársins.

Kennsla féll niður: Kennsla getur fallið niður á starfstíma skóla af óviðráðanlegum orsökum. Má þar til dæmis nefna vegna óveðurs, ófærðar og verkfalla.

Kennslustundir: Þær kennslustundir sem eru á stundaskrá árgangsins. Hver kennslustund er að jafnaði 40 mín. Dæmi eru um að í skólum sé kennslustund á bilinu 30-60 mínútur. Sé skólaárinu skipt upp í tímabil; tvö eða fleiri yfir veturinn og stundaskrá breytt skal leitast við að umreikna kennslustundir til að fá út meðalfjölda kennslustunda vetrarins á vikugrundvelli. Í upphafi gagnasöfnunar Hagstofu var safnað inn fjölda kennslustunda, en frá skólaárinu 2007-2008 hefur verið kennslutíma verið safnað í mínútum á viku eftir námsgreinum.

Starfstími: Skv. kjarasamningum kennara er starfstími skóla frá 20. ágúst til 10. júní., en kalla má kennara til starfa frá 15. ágúst til 15. júní ár hvert.

Starfsdagar kennara: Samkvæmt kjarasamningum grunnskólakennara við sveitarfélög er starfstími grunnskólakennara frá 15. ágúst til 15. júní. Að hámarki átta starfsdagar kennara eru fyrir utan starfstíma skóla en fimm starfsdagar eru á starfstíma skóla. Heimilt er að tvískipta þeim og vinna í ágúst og/eða í júní.

2. Tími


2.1 Viðmiðunartími talnaefnis

Óskað er eftir skýrslum frá grunnskólum tvisvar á ári, að hausti (október-desember) og að vori (júní-ágúst). Við skýrslugerð að hausti er miðað við fjölda nemenda og starfsmanna sem skráðir voru í skólann þann 15. október. Vorskýrsla er eins konar uppgjörsskýrsla um skólahald vetrarins.


2.2 Vinnslutími

Vinnslutími niðurstaðna er u.þ.b. 9 mánuðir frá viðmiðunardegi.

2.3 Stundvísi birtingar

Helstu niðurstöður úr haustskýrslu um nemendur og starfsmenn grunnskólans birtast á vef Hagstofunnar sumarið eftir að skólaári lýkur. Niðurstöður úr vorskýrslu eru sendar til mennta- og menningarmálaráðuneytisins á haustin. Birtingaráætlun er birt á heimasíðu Hagstofunnar og kemur þar fram hvaða dag efnið verður birt með a.m.k. 10 daga fyrirvara. Þá eru kvaðir um að skila niðurstöðum til norrænna, evrópskra og alþjóðlegra stofnana fyrir ákveðinn tíma.

2.4 Tíðni birtinga

Niðurstöður eru birtar á hverju ári. Niðurstöður haustskýrslu og vorskýrslu eru birtar á vef Hagstofunnar. Árlega, til ársins 2015, voru birtar tölur um grunnskóla í árbók Hagstofu Íslands, Landshögum.

3. Áreiðanleiki og öryggismörk


3.1 Nákvæmni gagna og áreiðanleiki

Hagstofan leitar eftir gögnum frá öllum starfandi grunnskólum landsins. Skil skýrslna um nemendur og starfsmenn grunnskólans hafa verið 100%.

3.2 Skekkjuvaldar í gögnum

Markmiðið er að halda skekkjum í lágmarki og er það m.a. gert með samanburði við skýrslugerð fyrri ára, fyrirspurnum til einstakra grunnskóla og samkeyrslu við aðrar skrár Hagstofu, s.s. þjóðskrá um kennitölu starfsfólks. Einnig er leitað upplýsinga í öðrum skrám Hagstofunnar, t.d. prófaskrá og nemendaskrá, ef gögn vantar um einstaka starfsmenn. Skekkjuvaldar í gögnum spretta einkum af skráningarskekkjum (í skýrslum grunnskóla og við innslátt eða afritun í tölvukerfi Hagstofu) og mæliskekkjum (ónákvæmni eyðublaða). Skekkjur af öðrum toga geta verið þær að grunnskólar gefi rangar eða ekki tæmandi upplýsingar, sem þá þarf að áætla, eða miði skýrslugerðina við annan tíma en tilsettan viðmiðunartíma.
Vert er að nefna að fjöldi nemenda og starfsmanna er miðaður við einn dag á ári, þ.e. þann 15. október. Því koma sveiflur í nemenda- og starfsmannafjölda innan ársins ekki fram.
Starfsmaður sem sinnir tveimur mismunandi störfum innan sama grunnskóla eða í tveimur grunnskólum, t.d. starfi í mötuneyti og við ræstingu, er skráður í það starf sem er hans aðalstarf. Fram til ársins 1999 voru starfsmenn sem voru í meira en einu fullu starfi skráðir í eitt fullt starf.

3.3 Tölur um öryggismörk/skekkjumælingar

Í upplýsingaöflun um grunnskóla eru fengnar upplýsingar frá öllum grunnskólum landsins. Þegar unnið er með allt þýðið eru hvorki reiknuð út öryggismörk né gerðar skekkjumælingar.

4. Samanburður


4.1 Samanburðarhæfi milli tímabila

Áður en Hagstofan hóf að safna gögnum skipulega á þann hátt sem nú er gert, var upplýsingum að mestu safnað af mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Með samningi frá árinu 1997 var þessi gagnasöfnun flutt til Hagstofu Íslands og hefur hún lítið breyst frá þeim tíma. Gagnasöfnunin hefur verið löguð að breytingum á grunnskólunum, t.d. breyttum starfsheitum og flokkunaraðferðum. Vorið 2004 hófst söfnun upplýsinga um sérkennslu og varð hún ítarlegri árið 2010.

4.2 Samanburður við aðrar hagtölur

Niðurstöður skýrslugerðar grunnskóla eru bornar saman við aðrar heimildir og hagtölur eftir því sem við á, svo sem þjóðskrá, nemendaskrá og prófaskrá.

4.3 Samband milli bráðabirgðatalna og lokatalna

Það eru ekki gefnar út neinar bráðabirgðatölur.

5. Aðgangur að upplýsingum


5.1 Miðlunarleiðir

1. Niðurstöður skýrslna haust og vor eru birtar á vef Hagstofu Íslands á fyrirfram ákveðnum birtingardegi skv. birtingaráætlun.

2. Niðurstöður upplýsinga um grunnskólann hafa verið birtar í ársskýrslu Hagstofunnar, Landshögum, sem kemur út einu sinni ári.

3. Kverið Grunnskólar 1999 kom út árið 1999, en þar var leitast við að setja fram tölulegar niðurstöður um grunnskólann á aðgengilegan hátt fyrir allan almenning.

4. Í febrúar 2004 komu út Hagtíðindi um nemendur í grunnskólum haustið 2003 á vegum skólamáladeildar Hagstofunnar.
5. Í febrúar 2005 komu út Hagtíðindi um starfsfólk í grunnskólum haustið 2004 á vegum skólamáladeildar Hagstofunnar.

6. Í september 2006 komu út Hagtíðindi um starfsfólk við kennslu í leik-, grunn- og framhaldsskólum 2000-2005.

7. Í maí 2009 komu út Hagtíðindin: Grunnskólar 2007-2008.

8. Upplýsingar úr gagnaöflun Hagstofu um grunnskólann er að finna í ritum alþjóðastofnana um menntamál, s.s. Key data on Education in Europe sem kemur út á tveggja ára fresti (útgefandi Eurydice), Education at a Glance (árleg útgáfa OECD) og Global Education Digest (árleg útgáfa UNESCO).

5.2 Grunngögn; varðveisla og notkunarmöguleikar

Gögnin eru geymd á tölvutæku formi á Hagstofunni. Litið er á gögn um einstaka starfsmenn sem trúnaðarmál. Ekki er veittur aðgangur að gögnunum sjálfum en unnt er að fá sérvinnslu úr þeim. Vísindamenn geta sótt um aðgang að gögnunum í rannsóknarskyni að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

5.3 Skýrslur

Ritið Grunnskólar 1999, árbók Hagstofunnar Landshagir, Hagtíðindi og efni á vef Hagstofunnar, http://www.hagstofa.is/.

5.4 Aðrar upplýsingar

Frekari upplýsingar má fá hjá ábyrgðarmanni gagna um grunnskólann og öðrum starfsmönnum LTM (laun, tekjur og menntun) deildar.

© Hagstofa �slands, �ann 9-9-2016