Nemendaskrá; framhaldsskólar og háskólar


0. Skráningaratriði fyrir viðfangsefni


0.1 Heiti

Nemendaskrá; framhaldsskólar og háskólar

0.2 Efnisflokkur

Menntun

0.3 Umsjón; stofnun, deild, sérfræðingur o.s.frv.

Deild: Laun, tekjur og menntun
Tengiliður: Haukur Pálsson
Sími: 528-1042
Tölvupóstfang: haukur.palsson@hagstofa.is

0.4 Tilgangur og aðdragandi

Hagstofa Íslands hefur frá árinu 1975 safnað saman og haldið utan um tölfræðilegar upplýsingar um íslenska nemendur á framhalds- og háskólastigi. Söfnun þessara upplýsinga fer fram á haustin ár hvert. Tilgangur skýrslugerðarinnar er að gefa heildarsýn yfir umfang framhalds- og háskólastigsins, fjölda nemenda á þessum skólastigum, sýna þróun námsframboðs og setja fram tölur sem hægt er að nota í samanburði milli landsvæða og í alþjóðlegu samhengi fyrir þessi skólastig.

0.5 Notendur og notkunarsvið

Upplýsingar um nemendur á framhalds- og háskólastigi eru grundvöllur upplýsingagjafar til alþjóðastofnana og útgáfu Hagstofunnar um málefni þessara skólastiga. Niðurstöðurnar eru nýttar af mennta- og menningarmálaráðuneyti, fræðasamfélaginu og stjórnendum og starfsmönnum skóla. Notkunin er hvoru tveggja til stefnumótunar og rannsóknarstarfa.

0.6 Heimildir

Aðalheimildir Hagstofu eru skýrslur frá skólunum og stofnunum um nemendur en einnig skrá um nemendur framhaldsskóla sem tekin er beint úr miðlægu nemendakerfi sem kallast INNA. Þá er gögnum safnað um nemendur í samningsbundnu iðnnámi og nemendur erlendis frá Lánasjóði íslenskra námsmanna (L.Í.N.). Gögnum er safnað á haustin ár hvert með 15. október sem viðmiðunardag. Í þessari haustsöfnun er spurt um kennitölu hvers nemanda, námsbraut, stöðu í námi, umfang námsins og kennsluform. Á háskólastigi er einnig spurt frá hvaða landi nemandinn lauk stúdentsprófi eða sambæilegu námi sem veitti aðgang að háskólastigi. Með gagnasöfnun um nemendaskrá fylgir beiðni um upplýsingar um nemendur á framhaldsskólastigi við nám í erlendum tungumálum.

0.7 Lagalegur grundvöllur fyrir hagskýrslugerð

Lög um Hagstofu Íslands og opinbera hagskýrslugerð 163/2007; lög um framhaldsskóla nr. 92/2008 og lög um háskóla nr. 63/2006. Ákvæði í skólasamningum milli menntamálaráðuneytis annars vegar og skóla hins vegar.

0.8 Svarbyrði við innsöfnun

Hjá flestum skólum telst svarbyrði lítil og hefur farið minnkandi eftir að meirihluti gagna er tekinn úr miðlægu nemendakerfi. Þeir skólar sem ekki skrá nemendur sína í miðlægt nemendakerfi þurfa sjálfir að útbúa nemendalista og senda Hagstofu. Svarbyrði þeirra er mismikil eftir stærð skóla og meiri vinna við skýrslugerð hjá stórum skólum en litlum.

0.9 Ákvæði vegna EES og ESB

Gagnasöfnun um nemendur á framhalds- og háskólastigi er í samræmi við staðla evrópsku hagstofunnar Eurostat. Tölulegar upplýsingar eru sendar til Eurostat og annarra alþjóðastofnana.

1. Efni


1.1 Efnislýsing

Skýrslugerðin nær til eftirtalinna atriða sem varða nemendur á framhalds- og háskólastigi:

Nemendur
: Gögnum er safnað á kennitölu um nemendur í námi í hinu hefðbundna menntakerfi, eða í námi sem mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur viðurkennt. Eingöngu er tekið með nám sem er a.m.k. eitt misseri að lengd í fullu námi, eða ígildi þess. Aðeins eru teknir með nemendur sem hafa íslenska kennitölu. Upplýsinga um hjúskaparstöðu, kyn og lögheimili er aflað með samtengingu við þjóðskrá 1. desember ár hvert. Iðnnemar á samningi eru taldir með, sem og nemendur í námi erlendis samkvæmt skrá Lánasjóðs íslenskra námsmanna.

Námsbraut
: Auðkenni námsbrauta, merkt í samræmi við opinbera námsskrá sem gefin er út af mennta- og menningarmálaráðuneyti, eða skólanámsskrá þegar ekki er um opinbera námsskrá að ræða.

Staða í námi
: Fjöldi lokinna eininga við upphaf haustmisseris. Ef skóli byggir nám á anna- eða árskiptu kerfi er spurt um önn eða stöðu nemanda miðað við ár. Á grundvelli þessara upplýsinga er námsstaða nemenda skráð með sérstökum tákntölum sem tákna fyrsta, annað, þriðja námsár o.s.frv. í viðkomandi námi.

Umfang náms
: Upplýsinga um umfang náms er aflað með því að spyrja um fjölda eininga sem nemendur eru skráðir í á misserinu. Þegar upplýsingar um einingar liggja ekki fyrir er skóli beðinn um að áætla í hundraðshlutum hvort um sé að ræða fullt nám eða hlutanám. Þessar upplýsingar liggja fyrir frá árinu 1997.

Kennsluform
: Frá 1997 hefur verið spurt um kennsluform, þ.e.a.s. hvort nám nemanda fari fram að degi, utanskóla, að kvöldi eða hvort um fjarnám sé að ræða.

Erlend tungumál
: Upplýsinga er aflað um lifandi erlend tungumál sem nemendur læra á framhaldsskólastigi. Þessara upplýsinga er aflað bæði á haust- og vormisseri.

Bæði eru birtar tölur um skráða nemendur og endanlegar tölur skv. nemendaskrá Hagstofu Íslands. Í skráningartölunum eru taldir allir nemendur sem skráðir eru til náms í öllum skólum og stofnunum sem falla undir þekju gagnasöfnunarinnar að undanskildum nemendum í námi erlendis skv. gögnum Lánasjóðs íslenskra námsmanna (L.Í.N.) og iðnnemum á samningi utan skóla. Í tölum um skráða nemendur eru tvítalningar þar sem nemendur geta verið skráðir til náms í fleiri en einum skóla samtímis, á fleiri en einni námsleið eða skráðir hvoru tveggja til náms í dagskóla og kvöldskóla/fjarnámi. Í endanlegu tölunum er hver nemandi aðeins talinn einu sinni, þannig að sé nemandi skráður í fleiri en einum skóla, í fleiri en einu námi eða með fleiri en eitt kennsluform þá er hann aðeins talinn einu sinni, þ.e. þar sem hann stundar aðallega nám.

1.2 Tölfræðileg hugtök

Skóli: Litið er á skóla sem sjálfstæða einingu þar sem nám fer fram. Skóli þarf ekki að vera bundinn húsnæði eða stað. Skóli getur t.d. verið land (t.d. Danmörk) eða stofnun og/eða embætti sem tekur að sér menntun (t.d. Isavia). Skóli getur einnig verið form af námi, s.s. iðnnemar á samningi utan skóla. Oftast er skóli þó hefðbundin stofnun á einum stað með skólastjóra sem stjórnanda.

Nemandi: Einstaklingur sem skráður er til náms í skóla á viðmiðunardegi skýrslugerðar, oftast 15. október ár hvert. Aðeins eru teknir með nemendur sem hafa íslenska kennitölu.

Námseining: Skilgreining á námseiningu er sú sama og finna má í námsskrá fyrir viðkomandi skóla eða skólastig. Eining í framhaldsskóla miðaðast áður við 2 kennslustundir. Þá var nemandi í fullu námi skráður í 18 eininga nám, um 36 kennslustundir á viku. Með lögum um framhaldsskóla nr. 92/2008 voru teknar upp framhaldsskólaeiningar (sk. f-einingar) og þá telst eitt námsár vera 60 f-einingar. Einingar á háskólastigi hafa sambærilega merkingu en þar taldist ein eining vera vikuvinna og töldust 30 einingar í háskólanámi vera fullt nám á einu skólaári. Síðan voru sk. ECTS einingar teknar upp, þar sem 60 ECTS einingar eru fullt nám í eitt ár.

Einingum lokið: Endurspeglar stöðu nemenda í námi við upphaf haustmisseris. Notaðar til að áætla námsframvindu í árum talið.

Einingar á önn: Einingar sem nemandi hefur skráð sig í á önn/misseri og sýna umfang náms.

Skólasókn: Hlutfall nemenda á ákveðnum aldri af íbúum í sama aldursflokki.

Brottfall: Hlutfall nemenda sem skráðir hafa verið í nemendaskrá Hagstofu Íslands eitt ár og koma ekki fram í nemendaskrá ári síðar án þess að hafa verið brautskráðir eða látist á árinu.

2. Tími


2.1 Viðmiðunartími talnaefnis

Nemendaskráin er gagnagrunnur sem nær aftur til ársins 1975 og er uppfærð á hverju ári. Óskað er eftir skýrslum frá skólum/stofnunum einu sinni á ári, að hausti (október-nóvember). Við skýrslugerð að hausti er miðað við fjölda virkra nemenda sem skráðir voru í námi við skólann þann 15. október. Í háskólum sem útskrifa nemendur í seinni hluta október er viðmiðunartíminn 1. nóvember. Nemendur sem skráðir eru í námsleyfi eða hafa tekið sér tímabundið hlé frá námi eru ekki taldir með.

2.2 Vinnslutími

Vinnslutími talna árið 2016 er um 20 mánuðir frá viðmiðunardegi.

2.3 Stundvísi birtingar

Efni er sett á birtingaráætlun Hagstofunnar með 10 daga fyrirvara. Hefur sú dagsetning alltaf staðist eftir að sú regla var tekin upp.

2.4 Tíðni birtinga

Niðurstöður gagnasöfnunar eru birtar árlega á vef Hagstofunnar og í tölfræðiárbók Hagstofu Íslands, Landshögum. Þá birtast tölur í erlendum ritum og á vefjum erlendra stofnana.

3. Áreiðanleiki og öryggismörk


3.1 Nákvæmni gagna og áreiðanleiki

Hagstofan leitar eftir gögnum frá öllum starfandi framhalds- og háskólum landsins. Skil skýrslna um nemendur þessara skóla hafa verið 100%.

3.2 Skekkjuvaldar í gögnum

Markmiðið er að halda skekkjum í lágmarki og er það m.a. gert með samanburði við skýrslugerð fyrri ára, fyrirspurnum til einstakra skóla og samkeyrslu við aðrar skrár, s.s. þjóðskrá. Þannig er t.d. leitað upplýsinga í eldri nemendaskrám, prófaskrá og tungumálaskrá. Skekkjuvalda í gögnum má oft rekja til ónákvæmra skráninga í frumgögnum hjá skólum. Helst er um að ræða að nemendur hafi verið skráðir rangt á námsbraut og/eða að nemendur séu of eða vantaldir þar sem tiltekt í nemendakerfi skóla er ábótavant. Þegar nemendur eru oftaldir eru nemendur skráðir til náms sem ekki eru nemendur viðkomandi skóla á viðmiðunartíma. Þegar nemendur eru vantaldir hefur skóli ekki skráð virka nemendur í nemendakerfi sitt. Auðkenni skóla fyrir námsbrautir eru stundum ekki skráð í samræmi við aðalnámsskrá og þá getur komið fram villa í tengingu auðkennis við námsbraut skv. aðalnámsskrá. Þá eru nemendur sem eru í starfsnámi utan skóla sem hluta af sínu námi ekki alltaf með í tölunum, þar sem stundum skortir á skráningu þessara nemenda. Þá getur fjöldi skiptinema valdið villu í gögnunum. Erlendir skiptinemar á Íslandi eru eingöngu skráðir ef þeir frá íslenska kennitölu. Kennsluform er ekki skráð með samræmdum hætti í öllum skólum og þannig gefa tölur um nemendur eftir kennsluformi ekki endilega nógu samræmda mynd af kennsluformi nemenda.
Fjöldi nemenda að hausti er talinn endurspegla nemendafjölda skólaársins. Ekki er vitað hvort fjöldi nemenda á vormisseri er sá sami og að hausti og því kann það að valda skekkju þegar ályktun er dregin um fjölda nemenda skólaársins af hausttölum einum saman. Þannig koma nemendur, sem eingöngu stunda nám á vormisseri ekki fram í tölunum.

3.3 Tölur um öryggismörk/skekkjumælingar

Í upplýsingaöflun um framhalds- og háskóla eru fengnar upplýsingar frá öllum framhalds- og háskólum landsins. Þar sem unnið er með þýðistölur eru hvorki reiknuð út öryggismörk né gerðar skekkjumælingar.

4. Samanburður


4.1 Samanburðarhæfi milli tímabila

Gagnasöfnun þessi hefur staðið óslitið frá 1975 og að mestu með sama sniði. Gögn eru því að mestu samanburðarhæf á milli ára en þó þarf þess að geta að þekja söfnunarinnar hefur verið aukin og gagnasöfnun bætt. Fyrstu árin náði gagnasöfnunin ekki til allra skóla en frá árinu 1979 nær hún til allra skóla í hinu hefðbundna skólakerfi. Árið 1997 var fyrst safnað upplýsingum um nemendur í hlutanámi, kvöldskólum og fjarnámi en við það hækka allar tölur umtalsvert, þar sem til þess tíma var eingöngu beðið um upplýsingar um nemendur í fullu námi í dagskóla. Árið 1997 er því brot í tímaröðinni. Tölur frá árinu 1979 til dagsins í dag eru betur samanburðarhæfar sé eingöngu miðað við kennsluformið dagskóli.
Gagnagrunnur nemendaskrár er lifandi grunnur, sem er uppfærður ef þarf að leiðrétta gögn aftur í tímann. Við birtingu eru því eldri tölur yfirleitt uppfærður um leið og nýjar tölur eru birtar.

4.2 Samanburður við aðrar hagtölur

Niðurstöður skýrslugerðar um framhalds- og háskóla eru bornar saman við aðrar heimildir og hagtölur eftir því sem við á, svo sem þjóðskrá og prófaskrá. Einnig tölur frá öðrum löndum, m.a. í alþjóðlegum ritum. Tölurnar eru að mestu unnar í samræmi við alþjóðlegar skilgreiningar. Þegar tölur eru birtar um nemendur í fullu-námi og hlutanámi og reiknuð eru ígildi heilla nemenda fyrir alþjóðastofnanir er miðað við alþjóðlegu skilgreininguna þannig að nemandi sem er skráður í a.m.k. 75% af fullu námi teljist vera í fullu námi. Þannig teljast nemendur sem skráðir eru í 24 f-einingar (14 gamlar einingar) eða meira á framhaldsskólastigi vera í fullu námi og nemendur á háskólastigi sem skráðir eru í 24 ECTS einingar (12 gamlar einingar) eða meira. Ekki er þó tekið tillit til þess að sumir nemendur eru skráðir í meira en fullt nám heldur eru þeir taldir sem einn heill nemandi.

4.3 Samband milli bráðabirgðatalna og lokatalna

Ekki eru birtar bráðabirgðatölur. Samanburð er hægt að gera á tölum um skráða nemendur í skólum og endanlegum tölum með því að fletta upp í gögnum sem birt eru á vef Hagstofu Íslands undir hvorum lið fyrir sig. Munur á fjölda nemenda í skráningartölum og endanlegum tölum vegna tvítalninga nemenda í skráningartölum er á bilinu 3-7% en þar fyrir utan er þekja endanlegu talnanna meiri en skráningartalnanna.

5. Aðgangur að upplýsingum


5.1 Miðlunarleiðir

1. Fréttir, birtar á vef Hagstofunnar.
2. Hagtölur, efnisflokkaðar veftöflur.
3. Landshagir, árbók Hagstofu Íslands.
4. Hagtíðindi, ritröð (nýjast 2012).
5. Upplýsingar úr gagnasöfnun Hagstofu um framhalds- og háskóla er að finna í ritum alþjóðastofnana um menntamál, s.s. Key data on Education in Europe sem kemur út á tveggja ára fresti (útgefandi Eurydice), Education at a Glance (árleg útgáfa OECD) og Global Education Digest (árleg útgáfa UNESCO).
6. Gögnin eru notuð til frekari úrvinnslu, t.d. til að finna fjölda nýnema. Líka til að svara fyrirspurnum um brottfall nemenda og um lengd náms í framhalds- og háskólum, hvort tveggja með tengingu við prófaskrá Hagstofu Íslands. Birtar eru tölur um skólasókn, þ.e. fjölda nemenda á ákveðnum aldri sem hlutfall af íbúum í sama aldursflokki. Þá er hægt að skoða námsferil nemenda og leið þeirra í gegnum menntakerfið.

5.2 Grunngögn; varðveisla og notkunarmöguleikar

Gögnin eru geymd á tölvutæku formi á Hagstofunni. Litið er á gögn um einstaka nemendur sem trúnaðarmál. Ekki er veittur aðgangur að gögnunum sjálfum en unnt er að fá unnar tölur að ósk fyrirspyrjenda þar sem niðurstöður eru á samandregnu formi og ekki hægt að þekkja einstaklinga. Vísindamenn geta sótt um aðgang að gögnunum í rannsóknarskyni að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

5.3 Skýrslur


5.4 Aðrar upplýsingar

Frekari upplýsingar má fá hjá ábyrgðarmanni gagna um framhalds- og háskóla og öðrum starfsmönnum LTM (laun, tekjur og menntun) deildar.

© Hagstofa �slands, �ann 21-6-2016