Prófaskrá; framhaldsskólar og háskólar


0. Skráningaratriði fyrir viðfangsefni


0.1 Heiti

Prófaskrá; framhaldsskólar og háskólar

0.2 Efnisflokkur

Menntun

0.3 Umsjón; stofnun, deild, sérfræðingur o.s.frv.

Deild: Laun, tekjur og menntun
Tengiliður: Ásta M. Urbancic
Sími: 528-1041
Tölvupóstfang: asta.urbancic@hagstofa.is

0.4 Tilgangur og aðdragandi

Hagstofa Íslands hefur frá árinu 1995 safnað saman upplýsingum um útskrifaða nemendur á framhaldsskólastigi og háskólastigi. Söfnun þessara upplýsinga fer fram í júní og desember ár hvert, auk þess sem skólar sem útskrifa á öðrum tímum eru beðnir um skýrslur eftir útskrift. Tilgangur skýrslugerðarinnar er að gefa yfirlit yfir fjölda nemenda sem útskrifast á framhaldsskólastigi og háskólastigi, sýna þá þróun sem hefur átt sér stað, setja fram tölur sem hægt er að nota í samanburði við nemendatölur, til að finna brottfall og skoða í alþjóðlegu samhengi.

0.5 Notendur og notkunarsvið

Upplýsingar um útskrifaða nemendur á framhalds- og háskólastigi eru grundvöllur upplýsingagjafar til alþjóðastofnana og útgáfu Hagstofunnar um útskrifaða nemendur. Niðurstöðurnar eru nýttar af menntamálaráðuneyti, fræðasamfélaginu, stjórnendum og starfsmönnum skóla. Notkunin er hvoru tveggja til stefnumótunar og rannsóknarstarfa.

0.6 Heimildir

Aðalheimildir Hagstofu eru skýrslur frá skólum og stofnunum sem útskrifa nemendur. Upplýsingar um sveinspróf koma frá menntamálaráðuneyti. Skrá um útskrifaða nemendur framhaldsskóla, sem tekin er beint úr miðlæga nemendakerfinu INNU, hefur verið notuð til hliðsjónar. Í þessari gagnasöfnun er spurt um kennitölu hvers nemanda, skóla, námsbraut, prófgráðu, kennsluform og útskriftardagsetningu.

0.7 Lagalegur grundvöllur fyrir hagskýrslugerð

Lög um Hagstofu Íslands og opinbera hagskýrslugerð nr. 163/2007, lög um framhaldsskóla nr. 92/2008 og lög um háskóla nr. 63/2006. Samningur Hagstofu Íslands og menntamálaráðuneytisins frá 1997 um öflun upplýsinga um skóla- og menningarmál og úrvinnslu þeirra í tengslum við hagskýrslugerð. Ákvæði í skólasamningum milli menntamálaráðuneytis annars vegar og skóla hins vegar.

0.8 Svarbyrði við innsöfnun

Svarbyrði er fremur lítil þar sem skólar gera yfirleitt skrár yfir útskrifaða nemendur fyrir hverja útskrift til eigin nota. Flestir framhaldsskólar geta sent skrá úr miðlæga skráningarkerfinu INNU en þeir skólar sem ekki skrá nemendur sína í miðlægt nemendakerfi þurfa sjálfir að útbúa lista yfir útskrifaða nemendur og senda Hagstofu. Svarbyrði þeirra er mismikil eftir stærð skóla og meiri vinna er við skýrslugerð hjá stórum skólum en litlum.

0.9 Ákvæði vegna EES og ESB

Gagnasöfnun um útskrifaða nemendur á framhalds- og háskólastigi er í samræmi við staðla evrópsku hagstofunnar Eurostat. Tölulegar upplýsingar eru sendar til Eurostat og annarra alþjóðastofnana.

1. Efni


1.1 Efnislýsing

Skýrslugerðin nær til eftirtalinna atriða sem varða útskrifaða nemendur á framhalds- og háskólastigi:

Nemendur: Gögnum er safnað á kennitölu um nemendur í námi í hinu hefðbundna menntakerfi, eða í námi sem menntamálaráðuneytið hefur viðurkennt. Upplýsinga um kyn og lögheimili er aflað með samtengingu við þjóðskrá 1. desember ár hvert. Iðnnemar sem ljúka sveinsprófi eru taldir með, sem og nemendur í Lögregluskóla ríksins, í atvinnuflugmannsnámi í Flugskóla Íslands og í námi flugumferðarstjóra.

Námsbraut: Auðkenni námsbrauta, merkt í samræmi við opinbera námsskrá sem gefin er út af menntamálaráðuneyti, eða skólanámsskrá þegar ekki er um opinbera námsskrá að ræða.

Prófgráða: Próf sem nemandinn hefur lokið.

Kennsluform: Hvort nemandinn hafi útskrifast úr dagskóla, utanskóla, kvöldskóla/öldungadeild eða verið í fjarnámi.

Útskriftardagsetning: Dagsetning formlegrar útskriftar. Ef nemandi lýkur námi í desember en formleg útskrift fer ekki fram fyrr en vorið á eftir telst vordagsetningin vera útskriftardagsetning.

1.2 Tölfræðileg hugtök

Skóli: Litið er á skóla sem sjálfstæða einingu þar sem nám fer fram. Skóli þarf ekki að vera bundinn húsnæði eða stað. Skóli getur t.d. verið stofnun og/eða embætti sem tekur að sér menntun (t.d. Flugmálastjórn eða Lögreglustjóraembætti ríkisins). Oftast er skóli þó hefðbundin stofnun á einum stað með skólastjóra sem stjórnanda.

Brautskráður nemandi: Einstaklingur sem hefur lokið öllum námskröfum og verið brautskráður af skóla úr námi í hinu hefðbundna menntakerfi eða úr námi sem prófaskrá nær til.

Brautskráning: Brautskráðir nemendur eru taldir fyrir hverja útskrift úr námi. Tölur um brautskráningar eru að jafnaði hærri en tölur yfir brautskráða nemendur, þar sem sumir nemendur útskrifast af fleiri en einni námsbraut á ári. Þannig útskrifast t.d. margir iðnnemar bæði með burtfararpróf úr iðn og sveinspróf á sama árinu. Stúdentar ljúka sumir námi af styttri námsbraut jafnhliða stúdentsprófi, eða ljúka stúdentsprófi af fleiri en einni námsbraut, og teljast því með tvær brautskráningar.

Útskriftarár
: Tölur um útskrifaða nemendur eru gefnar upp miðað við útskriftarár, sem nær yfir útskrifaða nemendur frá 1. nóvember til 31. október. Í tölum til alþjóðastofnana er þó miðað við almanaksárið skv. alþjóðlegum leiðbeiningum.

Brottfall: Hlutfall nemenda sem skráðir hafa verið í nemendaskrá Hagstofu Íslands eitt ár og sem koma ekki fram í nemendaskrá ári síðar án þess að hafa verið brautskráðir samkvæmt prófaskrá eða látist á árinu.

Brautskráðir stúdentar í hlutfalli af tölu tvítugra: Hlutfall brautskráðra stúdenta af fjölda tvítugra, þ.e. af fjölda 19 ára hinn 31. desember á fyrri hluta útskriftarárs.

Eintaldir útskriftarnemar: Í erlendum ritum er oft fjallað um eintalda útskrifaða nemendur (á ensku "unduplicated count") þar sem hver nemandi er aðeins talinn í fyrsta skipti sem hann útskrifast af viðkomandi skólastigi. Þannig er t.d. nemandi sem lýkur verslunarprófi og síðan stúdentsprófi tveimur árum seinna aðeins talinn með sem eintalinn útskrifaður nemandi af framhaldsskólastigi þegar hann lýkur verslunarprófi. Hlutfall eintalinna útskriftarnema gefur vísbendingu um hlutfall nemenda sem ljúka námi af viðkomandi skólastigi af samanburðarhópi, t.d. aldursárgangi.

Útskriftarhlutfall: Útskriftarhlutfall er reiknað þannig að í fjölda þeirra sem útskrifast í fyrsta skipti er deilt með fjölda í dæmigerðum aldursárgangi. Á Íslandi er miðað við fjölda tvítugra þegar útskriftarhlutfall á framhaldsskólastigi er reiknað og fjölda 23 ára þegar reiknað er útskriftarhlutfall fyrir fyrstu háskólagráðu.

Próftegund: Hagstofan hefur flokkað próf í próftegundir, sem er tilbúin flokkun Hagstofunnar. Próftegundir eru:
Grunnpróf almennt. Grunnnám úr almennu bóknámi, t.d. af almennri braut framhaldsskóla.
Grunnpróf verkgreina. Grunnpróf úr starfsnámi öðru en iðnnámi, t.d. handíðabraut.
Grunnpróf úr iðn. Grunnpróf úr iðngreinum, s.s. grunndeild bíliðna, grunndeild háriðna og fyrri hluta málmtæknibrautar.
Hæfnispróf. Próf sem ekki veita réttindi til ákveðinna starfa. Sem dæmi má nefna hönnun, ferðamálabraut, listnámsbraut og hljóðfæraleik.
Réttindapróf. Próf sem veita réttindi til ákveðinna starfa. Til dæmis má nefna verslunarpróf, sjúkraliða, vélstjóra, hljóðfærakennara og flugumferðarstjóra.
Burtfararpróf úr iðn. Burtfararpróf frá skóla úr löggiltum iðngreinum.
Sveinspróf úr iðn. Sveinspróf í löggiltum iðngreinum.
Stúdentspróf verkgreina. Stúdentspróf að loknu list- eða starfsnámi.
Stúdentspróf almennt. Stúdentspróf að loknu bóknámi.
Iðnmeistarapróf. Próf til réttinda iðnmeistara.
Próf á háskólastigi án háskólagráðu. Stutt nám á háskólastigi, yfirleitt starfstengt.
Bachelor-gráða háskólastigs. T.d. B.A., B.S, B.Ed., B.M.
Viðbótarnám eftir Bachelor-gráðu. Sem dæmi má nefna nám til kennsluréttinda, diplómanám fyrir kennara að loknu kennaranámi, viðbótarnám í hjúkrun.
Meistaragráða. Framhaldsgráða í háskólanámi að lokinni Bachelor-gráðu. T.d. M.A., M.S. M.Ed., M.B.A.
Doktorsgráða. Rannsóknargráða.

ISCED97: Frá október 2007 eru tölur um próf á vef Hagstofu Íslands birtar samkvæmt alþjóðlega flokkunarkerfinu ISCED97 (International Classification of Education). Nám er nú flokkað annars vegar á stig og hins vegar á svið eftir innihaldi námsins samkvæmt ISCED97. Sjá nánar um flokkunarkerfið ISCED97 á vef Hagstofunnar. Áður voru prófatölur flokkaðar á skólastig samkvæmt ISCED76 en námsbrautaflokkun Hagstofunnar notuð til að flokka nám á námsbrautir.
Stig: Skólastigin eru 7 alls og birtast prófatölur um stig 3-6 á vef Hagstofu Íslands. Stig 3 er framhaldsskólastig og er það óbreytt frá fyrri flokkun (ISCED76). Stig 4 kallast viðbótarstig, og nær það yfir nám að loknu framhaldsskólastigi sem ekki telst á háskólastigi. Sem dæmi má nefna iðnmeistara, 4. stigs vélstjóra og skipstjóra, læknaritara og leiðsögumenn. Nám sem telst vera á stigi 4 samkvæmt ISCED97 taldist á Íslandi vera á háskólastigi samkvæmt ISCED76. Stig 5 er háskólastig (fyrri hluti), sem lýkur oft með Bachelor-gráðu eða meistaragráðu. Stig 6 er doktorsstig (seinni hluti háskólastigs) sem lýkur með doktorsgráðu.
Svið (námsbrautir): Í stað námsbrautaflokkunar Hagstofunnar er nám flokkað á svið samkvæmt ISCED97. Svið náms skiptast í 9 almenn svið (flokkun niður á 1 staf), 25 afmörkuð svið (flokkun niður á 2 stafi) og um 90 einstök svið (flokkun niður á 3 stafi).

2. Tími


2.1 Viðmiðunartími talnaefnis

Viðmiðunartími prófaskrár er útskriftarárið frá 1. nóvember til 31. október árið á eftir.

2.2 Vinnslutími

Vinnslutími talna um brautskráða nemendur er um 11 mánuðir frá lokadegi útskriftarársins. Tölur eru birtar í október fyrir útskriftarárið sem lauk 31. október árið á undan.

2.3 Stundvísi birtingar

Birtingaráætlun er birt í október ár hvert á heimasíðu Hagstofunnar og kemur þar fram hvaða dag efnið verður birt. Hefur sú dagsetning oft staðist en síðustu þrjú ár var birtingu seinkað um um það bil 2 vikur frá upphaflegri birtingaráætlun.

2.4 Tíðni birtinga

Niðurstöður gagnasöfnunarinnar eru birtar árlega.

3. Áreiðanleiki og öryggismörk


3.1 Nákvæmni gagna og áreiðanleiki

Hagstofan leitar eftir gögnum frá öllum starfandi framhaldsskólum og háskólum landsins og frá öðrum skólum sem þekja prófaskrár nær til. Skil skýrslna um nemendur þessara skóla hafa verið 100%.

3.2 Skekkjuvaldar í gögnum

Markmiðið er að halda skekkjum í lágmarki og er það m.a. gert með samanburði við skýrslugerð fyrri ára, fyrirspurnum til einstakra skóla og samkeyrslu við aðrar skrár Hagstofu, s.s. nemendaskrá og þjóðskrá. Einnig hafa skrár úr miðlæga nemendaskrárkerfinu INNU og fréttir af brautskráningum í dagblöðum verið notaðar til samanburðar við skrár skóla. Skekkjuvalda í gögnum má oftast rekja til ónákvæmrar skráningar í frumgögnum hjá skólum. Helst er um að ræða að nemendur hafi verið of- eða vantaldir. Þegar nemendur eru oftaldir eru nemendur taldir útskrifaðir sem ekki hafa uppfyllt allar kröfur um námslok. Þessir nemendur koma gjarnan aftur fram seinna í skrám skóla þegar öllum kröfum hefur verið fullnægt. Ef það gerist er útskriftardagsetningu þeirra breytt í prófaskrá. Einnig kemur fyrir að nemendur eru taldir hafa lokið sama námi frá fleiri en einum skóla. Þá þarf að leita til skólanna og fá skýringu á því hvar og hvenær nemandinn hafi í raun útskrifast. Þegar nemendur eru vantaldir hefur skóli ekki skilað réttum upplýsingum til Hagstofu. Einnig útskrifa ekki allir framhaldsskólar af styttri námsbrautum, sem sumar eru hluti af lengra námi, s.s. almennri braut og úr grunndeildum iðna. Auðkenni skóla fyrir námsbrautir eru stundum ekki skráð í samræmi við aðalnámsskrá og þá getur komið fram villa í tengingu auðkennis við námsbraut samkvæmt aðalnámsskrá

3.3 Tölur um öryggismörk/skekkjumælingar

Í upplýsingaöflun um útskrifaða nemendur í framhaldsskólum og háskólum eru fengnar upplýsingar frá öllum framhaldsskólum og háskólum landsins. Þar sem unnið er með þýðistölur eru hvorki reiknuð út öryggismörk né gerðar skekkjumælingar.

4. Samanburður


4.1 Samanburðarhæfi milli tímabila

Gagnasöfnunin hefur staðið frá 1995 með sama sniði. Gögn eru því samanburðarhæf á milli ára en þó þarf að geta þess að þekja söfnunarinnar hefur verið aukin í samræmi við aukna þekju nemendaskrár.

Í október 2007 voru tölur í fyrsta skipti birtar innanlands samkvæmt alþjóðlegu flokkuninni ISCED97 (International Standard Classification of Education). Tölur frá 1995 eru uppfærðar en jafnframt verður um tíma hægt að nálgast tölur samkvæmt eldri flokkun.

4.2 Samanburður við aðrar hagtölur

Tölur úr prófaskrá framhalds- og háskóla eru bornar saman við aðrar heimildir og hagtölur eftir því sem við á, svo sem nemendaskrá og þjóðskrá. Þá eru tölur bornar saman við upplýsingar um menntunarstöðu þjóðarinnar úr vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands. Einnig tölur frá öðrum löndum, m.a. í alþjóðlegum ritum. Tölurnar eru að mestu unnar í samræmi við alþjóðlegar skilgreiningar. Á Íslandi eru birtar tölur fyrir útskriftarár en í skýrslum til alþjóðastofnana er miðað við almanaksár. Í vinnslu talna fyrir alþjóðastofnanir eru ekki taldar útskriftir úr námi sem er hluti af lengra námi, t.d. úr grunndeildum iðna, en þessar útskriftir eru taldar með í tölum sem birtar eru innanlands.

4.3 Samband milli bráðabirgðatalna og lokatalna

Ekki eru birtar bráðabirgðatölur. Þar sem breytingar geta orðið á gögnum eftir að tölur hafa verið birtar vegna breyttra upplýsinga um einstaka nemendur, t.d. vegna þess að nemendur voru sagðir útskrifaðir sem ekki höfðu uppfyllt allar kröfur um útskrift, eru eldri tölur uppfærðar um leið og tölur næsta árs á eftir eru birtar.

5. Aðgangur að upplýsingum


5.1 Miðlunarleiðir

1. Fréttir, birtar á vef Hagstofunnar.
2. Hagtölur, efnisflokkaðar veftöflur.
3. Landshagir, árbók Hagstofu Íslands.
4. Hagtíðindi, ritröð.
5. Upplýsingar úr gagnasöfnun Hagstofu um útskrifaða nemendur í framhaldsskólum og háskólum er að finna í ritum alþjóðastofnana um menntamál, s.s. Key data on Education in Europe sem kemur út á tveggja ára fresti (útgefandi Eurydice), Education at a Glance (árleg útgáfa OECD) og Global Education Digest (árleg útgáfa UNESCO).

5.2 Grunngögn; varðveisla og notkunarmöguleikar

Gögnin eru geymd á tölvutæku formi á Hagstofunni. Litið er á gögn um einstaka nemendur sem trúnaðarmál. Ekki er veittur aðgangur að gögnunum sjálfum en unnt er að fá unnar tölur að ósk fyrirspyrjenda þar sem niðurstöður eru á samandregnu formi og ekki hægt að þekkja einstaklinga. Vísindamenn geta sótt um aðgang að gögnunum í rannsóknarskyni að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

5.3 Skýrslur

Ekki hafa verið gefnar út skýrslur um prófaskrá Hagstofu Íslands, umfram það sem talið er upp undir lið 5.1.

5.4 Aðrar upplýsingar

Frekari upplýsingar má fá hjá ábyrgðarmanni gagna um prófaskrá framhaldsskóla og háskóla og öðrum starfsmönnum mennta- og menningarmáladeildar Hagstofu Íslands.

© Hagstofa �slands, �ann 7-2-2014