Tilraunatölfræði


Staðgreiðsluskyldar launagreiðslur

Samantekt

Staðgreiðsluskyldar launagreiðslur eftir atvinnugrein eru samtölur launagreiðslna vegna atvinnu sem greiddar eru mánaðarlega til launafólks. Samhliða eru birtar talningar á launagreiðendum og einstaklingum sem fá greidd laun. Ekki eru taldir með einyrkjar með rekstur á eigin kennitölu sem greiða sjálfum sér laun í formi reiknaðs endurgjalds. Atvinnugrein launagreiðanda byggir á aðalatvinnugrein fyrirtækjaskrá Hagstofu Íslands.

Mánaðarlega eru birtar bráðabirgðatölur sem ná aftur til janúar 2008. Vakin er athygli á því að tölur geta breyst vegna síðbúinna skila launagreiðanda en það á einkum við nýjustu mánuði talnaefnis.

Lýsing

Hagstofan birtir árlegar upplýsingar um launagreiðslur á íslenskum vinnumarkaði í hagtölum um afkomu fyrirtækja (viðskiptahagkerfið) og í framleiðsluuppgjöri þjóðhagsreikninga um laun og launatengd gjöld atvinnugreina (allt hagkerfið). Hins vegar hafa tímanlegar vísbendingar um launagreiðslur ekki verið aðgengilegar fyrr en nú með birtingu á staðgreiðsluskyldum launagreiðslum (heildarsumma).

Markmið

Markmiðið er að veita tímanlega vísbendingu um launagreiðslur á íslenskum vinnumarkaði í einstökum atvinnugreinum. Miklar breytingar hafa orðið á samfélaginu á síðastliðnum mánuðum, meðal annars vegna Covid-19, og í kjölfarið aukin þörf á tímanlegum upplýsingum um þróun atvinnulífsins. Hagstofan stefnir að því að tímanlegt talnaefni um staðgreiðsluskyldar launagreiðslur verði hluti af reglulegri hagskýrslugerð og því eru notendur hvattir til að hafa samband og gefa endurgjöf á talnaefnið (laun@hagstofa.is).

Uppfærsla á staðgreiðsluskyldum launagreiðslum

Síðast uppfært: 2. október 2020

Hagstofa Íslands hefur uppfært mánaðarlegar upplýsingar um heildarsummu staðgreiðsluskyldra launagreiðslna eftir atvinnugreinum með upplýsingum um launagreiðslur í ágúst 2020. Vakin er athygli á því að tölur geta breyst vegna síðbúinna skila launagreiðanda og á það einkum við nýjustu mánuði talnaefnis.


Talnaefni

Staðgreiðsluskyldar launagreiðslur frá janúar 2008 til og með ágúst 2020, bráðabirgðatölur (xlsx)


Lýsigögn

Staðgreiðsluskyldar launagreiðslur (heildarsumma) eru bráðabirgðatölur í íslenskum krónum og á verðlagi hvers mánaðar. Vakin er athygli á því að tölur geta breyst vegna síðbúinna skila launagreiðanda og leiða slíkar breytingar yfirleitt til hækkunar á heildarsummu launa eftir mánuðum – einkum vegna nýjustu skila. Þeir sem skila gögnum seint eru oftast launagreiðendur sem greiða fáum laun. Einnig geta tölur breyst ef fyrirtæki breytir um atvinnugrein en slíkar breytingar geta gilt afturvirkt í fyrirtækjaskrá Hagstofu.

Talnaefni byggir í grunninn á staðgreiðsluskrá Skattsins en öllum þeim, sem teljast greiðendur samkvæmt lögum um staðgreiðslu opinbera gjalda, ber að skila mánaðarlega skilagrein með sundurliðuðum upplýsingum um hvern þann sem fær staðgreiðsluskylda greiðslu. Í gögnum er ekki gerður greinarmunur á launagreiðslum eða öðrum staðgreiðsluskyldum greiðslum, eins og bótagreiðslum, en Hagstofan aðgreinir launagreiðslur frá öðrum greiðslum í úrvinnslu. Einyrkjar með rekstur á eigin kennitölu, sem greiða sjálfum sér laun í formi reiknaðs endurgjalds, eru ekki hluti talnaefnis.

Staðgreiðsluskyldar launagreiðslur (heildarsumma) innihalda stærstan hluta launatekna vegna atvinnu sem greiddar eru mánaðarlega til launafólks. Um er að ræða hvers konar endurgjald fyrir vinnu, laun og aðrar starfstengdar greiðslur eins og ökutækjastyrkir, hlunnindi, desember- og orlofsuppbót, eingreiðslur, flutningspeningar, ferðapeningar, dagpeningar,aðrar en þær sem heimilt er að halda utan staðgreiðslu samkvæmt reglugerð þar um. Staðgreiðsluskyldar launagreiðslur innihalda ekki reiknað endurgjald, fæðingarorlof, atvinnuleysisbætur, bætur frá Tryggingastofnun eða fjármagnstekjur.

Fjöldi launagreiðenda sem greiða staðgreiðsluskyld laun eru allir aðilar sem skila sundurliðun launagreiðslna fyrir a.m.k. einn móttakanda launa til Skattsins. Talning launagreiðenda byggist á auðkenni lögaðila sem tengist kennitölu þess. Hver kennitala lögaðila telst því sem einn greiðandi.

Fjöldi einstaklinga sem fá greidd staðgreiðsluskyld laun er talning á hverjum þeim sem fær greidd staðgreiðsluskyld laun frá launagreiðanda. Hver einstaklingur getur verið talinn oftar en einu sinni ef hann vinnur hjá fleiri en einum launagreiðanda. Ekki er gerður greinamunur á því hvort viðkomandi sé í fullu starfi eða hlutastarfi. Ekkert lágmarksviðmið er á launagreiðslum og hver einstaklingur sem fær launagreiðslur telst einu sinni óháð launaupphæð. Í einhverjum tilfellum getur launaupphæð verið mjög lág.

Atvinnugrein byggir á aðalatvinnugrein launagreiðanda samkvæmt fyrirtækjaskrá Hagstofunnar í samræmi við ÍSAT2008-atvinnugreinaflokkun. Birtar eru upplýsingar um yfirflokka atvinnugreina, deildir eða samantektir á bálkum. Athugið að birtar atvinnugreinar geta skarast og þar af leiðir að séu allar atvinnugreinar, sem settar eru fram í talnaefninu, lagðar saman fæst ekki sama niðurstaða og birt heildartala (alls tala).


Öllum eru heimil afnot af tilraunatölfræði Hagstofu Íslands. Vinsamlegast getið heimildar.
Nánari upplýsingar eru veittar í síma +354 528 1250. Netfang: laun@hagstofa.is