Kannanir meðal heimila og einstaklinga

Tilgangur og markmið

Hagstofa Íslands safnar upplýsingum fyrir margvísleg rannsóknarverkefni. Leitast er við að afla öruggra og nákvæmra gagna um íslenskt samfélag eins og það er nú og þróun þess. Niðurstöðurnar eru birtar í skýrslum og á vef Hagstofunnar og er þeim ætlað að nýtast til upplýsinga um þjóðfélagið og breytingar þess, til rannsókna og sem grundvöllur að stefnumótun og ákvarðanatöku.

Hverjir lenda í úrtaki?

Allir þeir sem skráðir eru í þjóðskrá og búsettir eru á Íslandi eru jafnlíklegir til að lenda í úrtaki. Aldursmörk eru bundin markmiðum hverrar rannsóknar fyrir sig. Í flestum rannsóknum er leitað til fólks 16 til 74 ára en í sumum tilvikum eru neðri aldursmörkin 18 ára og stundum eru engin efri mörk.

Af hverju ættir þú að taka þátt?

Í hvernig samfélagi vilt þú búa? Vonandi í upplýstu samfélagi þar sem ákvarðanir eru byggðar á gagnlegum og öruggum upplýsingum. Hagskýrslur eru safn upplýsinga um samfélagið, en þær verða einungis til ef fólk vill láta upplýsingar í té. Til þess að komast hjá því að spyrja alla eru gerðar úrtakskannanir þar sem úrtakið er tekið tilviljanakennt úr þjóðskrá. Ef tilviljun ræður því hver lendir í úrtaki og nógu margir af þeim taka þátt er unnt að heimfæra niðurstöður á hópinn sem verið er að kanna. Ekki er hægt að skipta út þeim sem lenda í úrtaki fyrir einhverja aðra því að þá ræður tilviljun því ekki lengur hver lendir í úrtaki. Sá sem lendir í úrtaki er því mjög mikilvægur fyrir rannsóknina. Því fleiri sem taka þátt í rannsókn, því ábyggilegri verða niðurstöðurnar.

Meðferð upplýsinga sem þú veitir Hagstofunni

Aðeins þeir sem vinna með gögn rannsóknar hafa aðgang að upplýsingum úr henni. Þeir eru bundnir þagnarskyldu og trúnaðarheiti. Þegar úrvinnslu rannsóknar er lokið eru persónuauðkenni þátttakenda afmáð. Gögnin verða þó geymd áfram í gagnasafni en auðkennalaus. Hagstofan veitir engum, hvorki stjórnvöldum né einkaaðilum, upplýsingar um svör einstakra þátttakenda. Nánar er hægt að lesa um verklagsreglur Hagstofu Íslands um meðferð trúnaðargagna.

Hvernig nálgast þú niðurstöðurnar?

Hægt er að nálgast niðurstöðurnar á vef Hagstofunnar:

Hverjir nýta sér niðurstöðurnar?

 • Almenningur
 • Stjórnvöld
 • Hagsmunasamtök
 • Fyrirtæki
 • Fræðimenn
 • Námsmenn
 • Fjölmiðlar

Nánar um:

 • Rannsókn á útgjöldum heimilanna
 • Lífskjararannsókn
 • Vinnumarkaðsrannsókn
 • Rannsókn á upplýsingatækni