Meðalævilengd karla á Íslandi var 81,0 ár árið 2019 og meðalævilengd kvenna 84,2 ár.

Meðalævilengd sýnir hve mörg ár einstaklingur á að meðaltali ólifuð við fæðingu ef miðað er við aldursbundna dánartíðni mannfjöldans. Aldursbundin dánartíðni hefur lækkað á undanförnum áratugum og má því vænta þess að fólk lifi að jafnaði lengur en reiknuð meðalævilengd segir til um.

Frá árinu 1988 hafa karlar bætt við sig rúmlega sex árum og konur rúmlega fjórum í meðalævilengd (sjá mynd 1).

Á tíu ára tímabili (2009–2018) var meðalævi karla lengst í Sviss, 80,9 ár, og skipuðu þeir fyrsta sætið í Evrópu. Fast á hæla þeirra komu karlar á Íslandi (80,8), í Liechtenstein (80,4), í Svíþjóð og Ítalíu (80,2), og á Spáni og í Noregi (79,9). Styst var meðalævilengd karla í Úkraínu (67,0), Hvíta-Rússlandi (67,8) og Litháen (68,9).

Á sama tíma var meðalævi kvenna á Spáni 85,8 ár og í Frakklandi 85,6 ár og skipuðu þær fyrsta og annað sæti í Evrópu. Næst á eftir komu konur í Sviss (85,2), Ítalíu (85,1), Liechtenstein (84,4), Luxemborg (84,2) og á Íslandi (84,1). Meðalævilengd kvenna var styst í Úkraínu (76,9), Azerbaijan (77,2) og Norður-Makedóníu (77,5).

Ævilengd háskólamenntaðra jókst meira en grunn- og framhaldskólamenntaðra á milli 2011-2019
Árið 2019 var ólifuð meðalævi 30 ára kvenna með grunnskólamenntun 52,8 ár á meðan þrítugir grunnskólamenntaðir karlar máttu búast við að lifa 48,8 ár til viðbótar. Konur með framhaldsskólamenntun máttu búast við að lifa rúmlega tveimur árum lengur en stallsystur þeirra með grunnskólamenntun eða í 54,9 ár frá 30 ára aldri. Munurinn var meiri meðal karla þar sem ólifuð ævi 30 ára karla með framhaldsskólamenntun var að meðaltali 52,1 ár eða rúmlega þremur árum lengri en karla með grunnskólamenntun.

Þrítugir háskólamenntaðir einstaklingar eiga von á því að lifa mun lengur en þeir sem minni menntun hafa. Þannig var ætluð ólifuð meðalævi 30 ára kvenna með háskólamenntun 56,1 ár eða 3,3 árum lengri en þrítugra kvenna með grunnskólamenntun árið 2019. Ólifuð ævilengd 30 ára karla með háskólamenntun var 53,5 ár eða tæpum fimm árum lengri en þrítugra karla með grunnskólamenntun.

Á milli áranna 2011 og 2019 jókst ævilengd frá 30 ára aldri mest meðal háskólamenntaðra eða um 1,3 ár. Ólifuð ævilengd 30 ára jókst minna meðal framhaldsskólamenntaðra eða 1,1 ár en stóð í stað hjá grunnskólamenntuðum.

Ungbarnadauði í Evrópu minnstur á Íslandi
Árið 2019 létust 2.275 einstaklingar sem búsettir voru á Íslandi, 1.157 karlar og 1.118 konur. Dánartíðni var 6,3 látnir á hverja 1.000 íbúa og ungbarnadauði 1,1 börn af hverjum 1.000 lifandi fæddum árið 2019.

Á tíu ára tímabili (2009–2018) var ungbarnadauði á Íslandi að meðaltali 1,7 af hverjum 1.000 lifandi fæddum. Hvergi í Evrópu var ungbarnadauði jafn fátíður og hér. Ungbarnadauði var að meðaltali 2,1 í Finnlandi, 2,2 í Slóveníu, 2,4 í Svíþjóð og 2,5 í Noregi. Tíðastur var ungbarnadauði í Tyrklandi, 11,0 af hverjum 1.000 lifandi fæddum. Athygli er vakin á því að tölur um dánarmein ársins 2018 voru uppfærðar með þessari frétt.

Skýringar
Ungbarnadauði er stöðluð alþjóðleg vísitala sem sýnir dánartíðni barna á fyrsta aldursári. Hún er reiknuð með því að deila fjölda látinna á fyrsta aldursári með fjölda lifandi fæddra í árgangi og margfalda niðurstöðuna með 1.000. Um samanburð á tölum um ævilengd og ungbarnadauða í Evrópu er rétt að geta þess að tölurnar fyrir 2009–2018 byggjast á útreikningum hagstofu Evrópusambandsins, Eurostat. Undanskilin úr samanburðinum eru gögn frá Andorra, Moldavíu , Rússlandi og San Marino sökum þess að gögn vantar fyrir meirihluta tímabilsins.

Menntun er flokkuð samkvæmt ISMENNT2011, íslensku menntunarflokkuninni. ISMENNT2011 er byggt á alþjóðlegu flokkunarkerfi menntunarstigs ISCED2011 (International Standard Classification of Education 2011). Skýringar á ISMENNT2011 má finna á vef Hagstofunnar.

Ævilengd einstakra ára byggist á meðaltali á viðmiðunarári að viðbættum fjórum árum þar á undan. Þannig eru útreikningar fyrir 2019 byggðir á meðaltali áranna 2015-2019.

Ólifuð meðalævi sýnir hve mörg æviár einstaklingur, karl eða kona, á að meðaltali ólifuð miðað við að hann/hún sé á lífi við upphaf tiltekins aldursskeiðs. Algengt er að reikna ólifaða meðalævi við fæðingu, 1 árs, 15 ára, 50 ára, 65 ára og 80 ára. Ólifuð meðalævi við fæðingu er jafnframt kölluð meðalævilengd.

Talnaefni