FRÉTT FÉLAGSMÁL 16. MAÍ 2018

Árið 2017 fengu 5.142 heimili fjárhagsaðstoð sveitarfélaga og hafði heimilum sem þáðu slíkar greiðslur fækkað um 716 (12,2%) frá árinu áður. Frá árinu 2013 hefur heimilum með slíka aðstoð fækkaði milli ára eftir að hafa fjölgað árlega frá árinu 2007. Breyting í fjölda heimila sem fá fjárhagsaðstoð hefur haldist í hendur við þróun atvinnuleysis eins og kemur fram í mynd 1, sem sýnir fjölda viðtakenda fjárhagsaðstoðar og árlegt hlutfall atvinnuleysis samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofunnar árin 2003 til 2017.  

Frá árinu 2016 til 2017 lækkuðu útgjöld sveitarfélaganna vegna fjárhagsaðstoðar um 504 milljónir króna eða 13,6%, en á föstu verðlagi lækkuðu þau um 15,1%. Meðalmánaðargreiðslur fjárhagsaðstoðar voru 137.293 krónur og hækkuðu frá árinu á undan um 2.807 krónur eða 2,1%. Árið 2017 var fjárhagsaðstoð greidd að meðaltali 4,5 mánuði, en 4,7 mánuði árið 2016.

Af þeim heimilum sem fengu mesta fjárhagsaðstoð árið 2017 voru heimili einstæðra barnlausra karla 43,5% og heimili, einstæðra kvenna með börn 23,4% og heimili einstæðra barnlausra kvenna 22,1%. Heimili hjóna/sambúðarfólks voru 8,6%.  Árið 2017 voru 31,4% viðtakenda fjárhagsaðstoðar atvinnulausir og af þeim 84% án bótaréttar, alls 1.359 einstaklingar.

Árið 2017 bjuggu 8.223 einstaklingar eða 2,4% þjóðarinnar á heimilum sem fengu fjárhagsaðstoð, þar af voru 2.887 börn (17 ára og yngra) eða 3,6% barna á þeim aldri. Árið 2016 bjuggu 9.697 einstaklingar eða 2,9% þjóðarinnar á heimilum sem fengu fjárhagsaðstoð, þar af voru 3.317 börn eða 4,2% barna.

Fimmti hver 65 ára og eldri fær félagslega heimaþjónustu
Árið 2017 fékk 9.131 heimili félagslega heimaþjónustu. Tæplega fimm af hverjum sex heimilum voru heimili aldraðra eða 7.377 (80,8%) og hafði þeim fjölgað um 70 (1,0%) frá árinu 2016. Á þessum heimilum aldraðra bjuggu 9.284 einstaklingar sem jafngildir 19,0% landsmanna 65 ára og eldri. Þeir sem voru 80 ára og eldri á heimilum sem nutu félagslegrar heimaþjónustu voru 5.693 eða 45,9% fólks á þeim aldri.

Fækkun barna í dagvist á einkaheimilum
Árið 2017 voru 1.347 börn í dagvist á einkaheimilum og hafði þeim fækkað um 101 (7,0%) frá árinu á undan. Alls voru 5,2% barna 0 til 5 ára í slíkri dagvistun árið 2017. Rúm 4% allra barna á fyrsta ári voru í dagvistun á einkaheimili og rúm 28% eins árs barna, en það eru börn sem ekki hafa náð leikskólaaldri.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1257 , netfang bjorn.g.stefansson@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.