Hagstofa Íslands birtir nú í fyrsta sinn upplýsingar um fjölda lífeyrisþega í landinu. Upplýsingarnar taka til elli-, örorku- og endurhæfingarlífeyris auk örorkustyrks í desembermánuði ár hvert frá árinu 2007 til 2016. Fram kemur skipting eftir greiðendum, þ.e. almannatryggingum og samtryggingardeildum lífeyrissjóða, án tvítalningar.

Ellilífeyrisþegar voru 43.650 í desember árið 2016. Þar af 20.333 karlar og 23.317 konur. Árið 2016 voru 2.769 ellilífeyrisþegar yngri en 67 ára eða 6,3% en árið 2007 var sama hlutfall 3,5%.

 

Ellilífeyrisþegum sem fá greiðslur frá lífeyrissjóðum hefur fjölgað. Í desember 2016 fengu rúm 97% karla en rúm 96% kvenna greiddan ellilífeyri eingöngu frá lífeyrissjóðum eða frá Tryggingarstofnun og lífeyrissjóðum. Hliðstæðar tölur árið 2007 voru tæp 95% hjá körlum en tæp 92% hjá konum.

Örorkulífeyrisþegar voru 18.415 í desember árið 2016 og hafði fjölgað um 639 (3,6%) frá desember 2015. Frá árinu 2007 hefur örorkulífeyrisþegum fjölgað um 3.560 eða 24%, en um tæp 15% að teknu tilliti til mannfjölda 18 til 66 ára.

Talnaefni