FRÉTT FERÐAÞJÓNUSTA 30. NÓVEMBER 2010

Hagstofa Íslands birtir nú öðru sinni ferðaþjónustureikninga, að þessu sinni fyrir tímabilið 2000–2008. Greint verður frá ferðaneyslu innanlands á árinu 2008 og dreginn upp ferðajöfnuður fyrir árið 2009. Ferðaþjónustureikningar hafa það hlutverk að meta efnahagsleg áhrif ferðaþjónustu fyrir þjóðarbúskapinn. Helstu hagtölur í ferðaþjónustu byggjast á niðurstöðum um útgjöld eða kaup erlendra ferðamanna á Íslandi, útgjöldum Íslendinga á ferð um eigið land og útgjöldum Íslendinga á ferðalagi erlendis.

Helstu niðurstöður eru þessar:

  • Hlutur ferðaþjónustu í vergri landsframleiðslu var 4,6% á árinu 2008.
  • Heildarumsvif fyrirtækja í ferðaþjónustu á árinu 2008 námu ríflega 209 milljörðum króna eða sem svarar um 14% af vergri landsframleiðslu, og hefur þá verið áætlað fyrir umsvifum íslenskra ferða- og flugþjónustufyrirtækja vegna starfsemi utan Íslands.
  • Heildarferðaneysla innanlands á árinu 2008 var rúmlega 171 milljarður króna eða sem svarar rúmlega 11,5% af vergri landsframleiðslu.
  • Ferðaneysla innanlands skiptist þannig að kaup erlendra ferðamanna voru 93,5 milljarðar, ferðaneysla heimilanna um 67,5 milljarðar og kaup fyrirtækja og opinberra aðila 9,5 milljarðar króna.
  • Á árinu 2008 er áætlað að ríflega 9.200 manns hafi starfað við ferðaþjónustu eða um 5,1% af störfum alls.
  • Á árinu 2009 voru gjaldeyristekjur af erlendum ferðamönnum 155 milljarðar króna að teknu tilliti til umsvifa íslenskra ferða- og flugþjónustufyrirtækja vegna starfsemi utan Íslands. Ferðaneysla erlendra ferðamanna innanlands var 112 milljarðar króna en 43 milljarðar króna eru tekjur vegna ferðamanna utan Íslands.


Ferðaþjónustureikningar 2000-2008 - Hagtíðindi

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.