Seldar gistinætur árið 2016 voru ríflega 8,8 milljónir, þar með talið áætlaðar óskráðar gistinætur seldar í gegnum Airbnb og sambærilegar vefsíður. Gistinætur erlendra ferðamanna voru 89% af heildarfjölda gistinátta árið 2016. Eftir tegundum gististaða voru flestar gistinætur á hótelum og gistiheimilum eða 59% allra gistinátta, 11% gistinátta voru á tjaldsvæðum og 30% á öðrum tegundum gististaða. Gistinætur seldar í gegnum Airbnb flokkast hér með öðrum tegundum gististaða ásamt annarri heimagistingu, íbúðagistingu, farfuglaheimilum og orlofshúsum í eigu annarra en stéttarfélaga og félagasamtaka.

Gistinætur á hótelum og gistiheimilum voru tæplega 5,2 milljónir á síðasta ári og fjölgaði um 26% frá fyrra ári, þar af voru gistinætur á hótelum um 3,9 milljónir sem er 35% meira en árið 2015 og tæplega tvöfalt fleiri gistinætur en voru á hótelum árið 2013. Framboð gistirýmis á hótelum hefur einnig aukist mikið á milli ára en jafnframt hefur nýting herbergja og rúma aukist, sérstaklega yfir vetrarmánuðina.

Tafla 1. Framboð og nýting hótelherbergja 2015 og 2016
  Fjöldi herbergja   Nýting herbergja, %
  2015 2016 % 2015 2016
Janúar 6.031 7.478 24 50 50
Febrúar 6.357 7.688 21 63 68
Mars 6.497 7.750 19 62 69
Apríl 6.484 7.730 19 52 59
Maí 6.772 8.072 19 61 65
Júní 7.262 8.364 15 77 81
Júlí 7.372 8.637 17 89 91
Ágúst 7.577 8.668 14 84 91
September 7.579 8.791 16 67 78
Október 7.586 8.706 15 61 71
Nóvember 7.233 8.601 19 56 68
Desember 7.364 8.274 12 47 64

Áætlaðar óskráðar seldar gistinætur ríflega milljón árið 2016
Uppbygging gististaða hefur á undanförnum árum ekki náð að fylgja eftir mikilli fjölgun ferðamanna. Mikil eftirspurn eftir gistirými hefur orðið til þess að stóraukið framboð hefur myndast á vefsíðum á borð við Airbnb. Erfitt er að meta nákvæmlega framboð og nýtingu þess gistirýmis sem fellur fyrir utan gistináttatalningu Hagstofunnar. Gistirými skráð á Airbnb er að stórum hluta ekki með í talningu Hagstofunnar vegna þess að upplýsingum um leigusala er ábótavant. Stærri gististaðir sem skráðir eru á Airbnb eru þó í mörgum tilvikum meðtaldir í tölum Hagstofunnar. Ætla má að árið 2016 hafi tæplega 3600 herbergi/íbúðir verið reglulega til leigu í gegnum vefsíðu Airbnb, þar af um 2000 á höfuðborgarsvæðinu. Ljóst er að framboð gistirýmis er ekki stöðugt yfir árið og því er erfitt að áætla nákvæmt framboð og nýtingu gistirýmis. Ef miðað við gögn frá Airdna.co eru flestar eignir í útleigu 1–3 mánuði (38%) á ári en fæstar (15%) í útleigu 10–12 mánuði á ári. Áætlað er að heildarfjöldi gistinátta, seldar í gegnum Airbnb og sambærilegar síður, sem vantar inn í gistináttatalningu Hagstofunnar hafi verið ríflega 1 milljón árið 2016.

Tafla 2. Heildarfjöldi gistinátta eftir landsvæði 2016
  Skráðar gistinætur Airbnb* Alls
  Íslendingar Erlendir ríkisborgarar    
Höfuðborgarsvæði 248.990 3.230.399 669.164 4.148.553
Suðurnes 68.124 345.481 25.400 439.005
Vesturland 94.935 379.654 41.976 516.565
Vestfirðir 60.676 177.566 14.454 252.696
Norðurland vestra 50.925 166.918 15.377 233.220
Norðurland eystra 170.466 651.474 65.032 886.972
Austurland** 64.585 309.694 30.577 404.856
Suðurland** 285.715 1.503.132 174.895 1.963.742
  1.044.416 6.764.318 1.036.875 8.845.609
* Áætlaðar gistinætur bókaðar í gegnum Airbnb eða sambærilegar síður  
**Sveitarfélagið Hornafjörður flokkast nú með Suðurlandi    

Nánari upplýsingar um skráðar gistinætur brotnar niður eftir landsvæðum og tegund gistingar eru aðgengilegar í talnaefni á vef. Þrátt fyrir að áætlaðar hafi verið heildartölur fyrir Airbnb og sambærilegt gistirými eru þau gögn ekki aðgengileg í veftöflum.

Sú breyting hefur orðið frá fyrri birtingum að gistináttatölur fyrir Sveitarfélagið Hornafjörð flokkast nú með Suðurlandi í stað Austfjarða. Búið er að uppfæra flestar veftöflur í samræmi við þetta og verður þeirri uppfærslu að fullu lokið í apríl.

Til að svara eftirspurn eftir aukinni svæðisbundinni tölfræði hefur verið birt ný veftafla með sundurliðun á heildarfjölda gistinátta eftir sveitarfélögum þar sem því er komið við. Áfram verður unnið að því að birta aukna sundurliðun niður á landsvæði.

Talnaefni