FRÉTT FERÐAÞJÓNUSTA 28. MARS 2018

Gistinætur á hótelum í febrúar síðastliðnum voru 348.400, sem er 4% aukning frá sama mánuði árið áður. Um 66% allra gistinátta voru á höfuðborgarsvæðinu eða 231.500. Gistinóttum á Norðurlandi fjölgaði um 34% frá febrúar fyrra árs .

Um 91% gistinátta voru skráðar á erlenda ferðamenn, en erlendum gistinóttum fjölgaði um 7% frá febrúar í fyrra á meðan gistinóttum Íslendinga fækkaði um 16%. Bretar gistu flestar nætur (106.700), síðan Bandaríkjamenn (77.000) og Kínverjar (26.900), en gistinætur Íslendinga voru 31.700.

Á tólf mánaða tímabili, frá mars 2017 til febrúar 2018, var heildarfjöldi gistinátta á hótelum um 4.281.800 sem er 7% aukning miðað við sama tímabil árið áður.

74% nýting herbergja á hótelum í febrúar
Herbergjanýting í febrúar 2018 var 73,7%, sem er lækkun um 4,1 prósentustig frá febrúar 2017 þegar hún var 77,8%. Á sama tíma hefur framboð gistirýmis aukist um 8,8% mælt í fjölda herbergja. Nýtingin í janúar var best á höfuðborgarsvæðinu, eða 90,3%.

Áætlun á heildarfjölda gistinátta fyrir allar tegundir gististaða í febrúar
Hagstofan áætlar að heildarfjöldi gistinátta á öllum tegundum gististaða hafi í febrúar verið um 576.100. Af þeim gistinóttum, sem eru áætlaðar af gististöðum skráðum í gistináttagrunn Hagstofunnar, má ætla að gistinætur erlendra gesta hafi verið um 515.100 og gistinætur Íslendinga um 61.000.

Búið er að ganga frá mati á gistinóttum ársins 2017 fyrir aðrar tegundir gististaða en hótel og eru þær tölur nú aðgengilegar í veftöflum. Samkvæmt því voru gistinætur á öllum skráðum gististöðum árið 2017 um 8.378.000, þar af 7.259.000 erlendir gestir og 1.119.000 Íslendingar. Auk hótela og gistiheimila er um að ræða s.s. farfuglaheimili, orlofshús, svefnpokagististaði, íbúða- og heimagistingu auk tjaldsvæða og skála í óbyggðum. Gistirými skráð á Airbnb og aðrar sambærilegar vefsíður eru yfirleitt ekki með í talningu Hagstofunnar þar sem upplýsingum um leigusala er ábótavant. Stærri gististaðir sem skráðir eru á þessar síður eru þó yfirleitt með í gögnunum. Verið er að undirbúa mánaðarlega birtingu á áætluðum fjölda gistinátta sem greitt er fyrir gegnum Airbnb og áætlað er að þær tölur verði komnar í gistináttatölfræði Hagstofunnar fyrir apríl 2018.

Gistinætur á hótelum
  Febrúar   Mars–febrúar  
  2017 2018 % 2017 2018 %
             
Alls 334.441 348.405 4 4.013.609 4.281.803 7
Höfuðborgarsvæði 227.112 231.452 2 2.523.605 2.595.445 3
Suðurnes 24.372 26.635 9 228.244 301.807 32
Vesturland og Vestfirðir 9.533 10.219 7 177.735 192.043 8
Norðurland 11.425 15.361 34 285.757 305.502 7
Austurland 2.521 2.629 4 108.521 108.431 0
Suðurland 59.478 62.109 4 689.747 778.575 13
             
Íslendingar 37.592 31.732 -16 411.752 420.373 2
Erlendir gestir 296.849 316.673 7 3.601.857 3.861.430 7

Tölur fyrir 2017 og 2018 eru bráðabirgðatölur. Um þessar mundir fer fram vinna við endurskoðun á skiptingu gistinátta eftir þjóðerni ferðamanna. Þessi vinna hefur ekki áhrif á heildarfjölda gistinátta en gæti haft áhrif á hlutfall milli erlendra og innlendra ferðamanna.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1000 , netfang gistiskyrslur@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.