FRÉTT FJÁRMÁL HINS OPINBERA 12. SEPTEMBER 2011

Út eru komin Hagtíðindi í efnisflokknum þjóðhagsreikningar um fjármál hins opinbera árið 2010. Gefið er talnalegt yfirlit um helstu þætti opinberra fjármála, þ.e. ríkis, sveitarfélaga og almanna-trygginga, og er áherslan fyrst og fremst á hið opinbera en samsvarandi upplýsingar um undirgeira þess er að finna á vefsíðu Hagstofunnar.

Af helstu niðurstöðum má nefna að tekjuhalli hins opinbera var 155 milljarðar króna á síðasta ári eða rúmlega 10% af landsframleiðslu, sem er svipaður halli og árið 2009. Þessi óhagstæða niðurstaða skýrist fyrst og fremst af miklum samdrætti í tekjum hins opinbera vegna 11% samdráttar í landsframleiðslu árin 2009-2010 á sama tíma og útgjöldin jukust verulega vegna mikillar skuldsetningar og aukins atvinnuleysis.

Heildartekjur hins opinbera námu 637 milljörðum króna árið 2010 og jukust um 23 milljarða króna milli ára eða 3,7%. Sem hlutfall af landsframleiðslu mældust þær 41,5% árið 2010 samanborið við 41,0% árið 2009, 44,1% árið 2008 og 47,9% árið 2007. Útgjöld hins opinbera reyndust um 792 milljarðar króna 2010 og jukust einnig um 3,7% eða um 28,6 milljarða króna milli ára. Sem hlutfall af landsframleiðslu hækkuðu þau úr 51,0% árið 2009 í 51,5% 2010.

Útgjöld til heilbrigðismála voru 142,6 milljarðar króna árið 2010, eða 9,3% af landsframleiðslu. Þar af var hlutur hins opinbera 114,6 milljarðar króna en hlutur heimila um 28 milljarðar eða 19,6%. Á mann námu heilbrigðisútgjöld hins opinbera 360 þúsund krónum og lækkuðu um 24 þúsund krónur frá 2009. Til fræðslumála var ráðstafað 128,2 milljörðum króna árið 2010, eða 8,3% af landsframleiðslu. Þar af var fjármögnun hins opinbera 116,7 milljarðar króna og hlutur heimila 11,5 milljarðar króna, eða 9%. Á mann námu fræðsluútgjöld hins opinbera 367 þúsund krónum og lækkuðu um rúmlega 13 þúsund krónur frá 2009. Til almannatrygginga og velferðarmála ráðstafaði hið opinbera 172 milljörðum króna 2010, eða 11,2% af landsframleiðslu en það svarar til 541 þúsund krónur á mann. Af heildarútgjöldum hins opinbera 2010 runnu 15,3% til heilbrigðismála, 16,2% til fræðslumála og 21,7% til velferðarmála, eða 53,2% af útgjöldum þess, en það svarar til 27,4% af landsframleiðslu. 

Hrein peningaleg eign hins opinbera, þ.e. peningaleg eign umfram skuldir, var neikvæð um 741 milljarða króna í árslok 2010, eða sem svarar 48,2% af landsframleiðslu. Hún versnaði um 144 milljarð króna milli ára eða 8,3% af landsframleiðslu. Peningalegar eignir hins opinbera námu 1.181 milljarði króna í árslok 2010 (76,8% af landsframleiðslu) og heildarskuldir 1.921 milljarði króna (125% af landsframleiðslu).

Fjármál hins opinbera 2010 - Hagtíðindi

Talnlaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.