FRÉTT FYRIRTÆKI 26. OKTÓBER 2022

Af 32 fyrirtækjum í fyrirtækjaskrá Skattsins, sem tekin voru til gjaldþrotaskipta á þriðja ársfjórðungi 2022 (júlí-september), voru 24 með virkni á fyrra ári, 38% færri en á sama tímabili árið 2021 þegar þau voru 39. Þar af voru sex í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð, sex í heild- og smásöluverslun og viðgerðum á vélknúnum ökutækjum, fimm í einkennandi greinum ferðaþjónustu og sjö í öðrum atvinnugreinum.

Fyrirtæki sem tekin voru til gjaldþrotaskipta á þriðja ársfjórðungi 2022 höfðu að jafnaði um 87 launamenn árið áður sem er um 58% fækkun frá þriðja ársfjórðungi 2021 þegar launamenn gjaldþrota fyrirtækja á fyrra ári voru um 207. Hvort sem miðað er við fjölda launafólks eða virðisaukaskattskylda veltu á fyrra ári má merkja minni áhrif gjaldþrota á þriðja ársfjórðungi 2022 en á sama ársfjórðungi árið áður í öllum helstu atvinnugreinaflokkum.

Samtals voru 19 fyrirtæki, sem skráð voru í fyrirtækjaskrá Skattsins, tekin til gjaldþrotaskipta í september síðastliðnum. Af þeim voru fimmtán með virkni á fyrra ári, það er annað hvort með launþega samkvæmt staðgreiðsluskrá eða veltu samkvæmt virðisaukaskattskýrslum, sem er 44% fækkun frá september 2021.

Um gögnin
Hagstofa Íslands gefur út tölur um gjaldþrot skráðra fyrirtækja í hverjum mánuði og birtast þær að jafnaði innan 30 daga frá því að mánuði lýkur en þá hefur stærstur hluti gjaldþrotabeiðna verið skráður í fyrirtækjaskrá Skattsins í kjölfar þess að auglýsing um gjaldþrotabeiðni er birt í Lögbirtingablaðinu. Tölur um gjaldþrot og fyrri virkni fyrirtækja eru teknar saman samkvæmt atvinnugreinaflokkunarkerfinu ÍSAT2008 fyrir atvinnugreinabálkana byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð og heild- og smásöluverslun og viðgerðir á vélknúnum ökutækjum auk einkennandi greina ferðaþjónustu samkvæmt skilgreiningu Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins. Tölur um gjaldþrot fyrir síðasta mánuð eru bráðabirgðatölur og eru birtar með fyrirvara um nýjar upplýsingar um gjaldþrotabeiðnir frá dómstólum.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1260 , netfang fyrirtaekjatolfraedi@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.