FRÉTT FYRIRTÆKI 10. FEBRÚAR 2023

Árið 2022 fækkaði nýskráningum einkahlutafélaga um 5,8% frá fyrra ári en alls voru 3.033 ný einkahlutafélög skráð á árinu. Nýskráningum fækkaði um 28% á milli ára í fjármála- og vátryggingastarfsemi eða úr 454 í 326. Einnig má nefna að nýskráningum fækkaði úr 374 í 315 á milli ára í heild- og smásöluverslun og viðgerðum á vélknúnum ökutækjum (16% fækkun) og úr 127 í 69 í framleiðslu (46% fækkun). Hins vegar fjölgaði nýskráningum úr 516 árið 2021 í 562 árið 2022 í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð eða um 9% á milli ára.

Ef litið er til síðasta áratugar fór nýskráningum einkahlutafélaga fjölgandi fram til ársins 2016 þegar þær voru 2.666. Þeim fækkaði svo ár frá ári fram til 2019 þegar þær voru 2.201 en tóku kipp næstu tvö ár þar á eftir og náðu hámarki árið 2021 þegar þær voru 3.220.

Ef skoðuð er skipting á nýskráningum einkahlutafélaga og hlutafélaga milli landshluta árið 2022 sést að á höfuðborgarsvæðinu fækkaði nýskráningum úr 2.446 í 2.204 á milli ára, eða um 9,9%, en tekið saman fyrir aðra landshluta voru nýskráningar 7,6% fleiri en árið áður eða 837 borið saman við 778.

Nýskráningar einkahlutafélaga í desember 2022 voru 206 sem er 42 félögum færra en í desember árið áður. Flestar nýskráningar í desember voru í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð eða 37 og fjölgaði þeim úr 30 frá desember 2021 á meðan þeim fækkaði úr 46 í 21 í fasteignaviðskiptum.

Hagstofa Íslands birtir mánaðarlega tölur um fjölda nýskráninga í fyrirtækjaskrá Skattsins og tekur einnig saman árlega fjölda skráðra fyrirtækja og félaga. Tekið skal fram að fjöldi skráðra félaga þarf ekki að endurspegla fjölda þeirra fyrirtækja sem stunda atvinnustarfsemi, eru með veltu eða hafa starfsfólk á launaskrá. Í lok árs 2022 voru 79.890 fyrirtæki og félög á skrá í fyrirtækjaskrá Skattsins.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1260 , netfang fyrirtaekjatolfraedi@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.