FRÉTT FYRIRTÆKI 14. FEBRÚAR 2023

Fimm helstu greinar landbúnaðar skiluðu ríflega þrefalt meiri hagnaði árið 2021 en árið á undan eða 2,1 milljarði króna samanborið við 692 milljónir árið áður. Mikill viðsnúningur var á rekstri sauðfjárbúa sem skiluðu 677 milljóna króna hagnaði samanborið við 94 milljóna króna tap árið 2020. Þá ríflega tvöfaldaðist hagnaður kúabúa og nam hann 883 milljónum króna árið 2021. Loks skilaði loðdýrarækt jákvæðri afkomu í fyrsta sinn síðan árið 2013 eða 104 milljóna króna ágóða samanborið við 107 milljóna króna tap árið 2020.

Rekstrartekjur landbúnaðarins jukust um 6% á milli ára og námu tæplega 51 milljarði króna árið 2021. Þetta var nokkuð meiri hækkun en undanfarin ár og umfram verðbólgu ársins (5,1%). Hlutfallslega var mest tekjuaukning í loðdýrarækt eða tæplega tvöföldun á milli ára (úr 290 milljónum króna í 572 milljónir króna). Aftur á móti jukust rekstrargjöld greinarinnar einungis um 30% sem leiddi til áðurnefndrar jákvæðrar afkomu.

Mestur hluti tekjuaukningar landbúnaðarins kom þó frá sauðfjárbúum en þar jukust rekstrartekjur um rúmlega 1,5 milljarða króna (úr 12,3 milljörðum króna í 13,9 milljarða króna). Á sama tíma hækkuðu rekstrargjöld sauðfjárræktar einungis um 7% og varð því umtalsverður viðsnúningur á afkomu greinarinnar. Ræktun mjólkurkúa (kúabú) var samt sem áður stærsta grein landbúnaðarins með óbreyttar árstekjur upp á 26,8 milljarða króna en lægri rekstrarkostnaður miðað við fyrra ár leiddi til hagnaðaraukningar ársins 2021. Sauðfjárrækt var næst stærsta grein landbúnaðarins með tæplega helmingi lægri tekjur en kúabú árið 2021.

Þrátt fyrir góða rekstrarafkomu hélt búum áfram að fækka árið 2021 og var fækkun í flestum greinum. Alls fækkaði rekstraraðilum í landbúnaði um 80 á árinu, eða 3%, og var samanlagður fjöldi þeirra 2.353 árið 2021 samanborið við 2.433 fyrra ár. Mest var fækkun í sauðfjárrækt eða um 56 (4%), úr 1.436 í 1.380, og hefur fækkunin verið alls 20% síðan 2008. Kúabúum fækkaði um 3% (úr 662 í 644) á árinu 2021 en þeim hefur fækkað um 8% síðan 2008 og hefur þorri þeirrar fækkunar átt sér stað á síðastliðnum fjórum árum. Öðrum nautgripabúum fækkaði einnig, úr 89 í 84 eða um 6%.

Ólíkt öðrum greinum landbúnaðar hefur fjöldi rekstrareininga í garðrækt og plöntufjölgun nánast staðið í stað síðan 2008. Smávægileg fækkun (2%) átti sér stað árið 2021 en þó var fjölgun í ræktun á aldingrænmeti og öðrum nytjajurtum. Starfsemi þeirra undirgreina gekk sérlega vel árið 2021 en heldur síðri gangur var hjá hinum undirgreinunum sem aftur leiddi til tiltölulega óbreyttrar rekstrarafkomu greinarinnar í heild sinni.

Sé miðað við landsvæði var fækkunin tiltölulega jöfn á milli landshluta (að undanskildu höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum og Vestfjörðum þar sem lítið er um búskap) en hlutfallslega fækkaði sauðfjár-, kúa- og öðrum nautgripabúum mest á Austurlandi eða um 7% (úr 225 í 210). Flest voru bú á Suðurlandi eins og áður eða alls 537 (sem samt var fækkun um 16 frá fyrra ári). Alls hefur rekstraraðilum í landbúnaði fækkað um 16% síðan 2008.

Fjárhagsstaða landbúnaðarins batnaði nokkuð á milli ára enda hækkaði eigið fé um 15% vegna aukins hagnaðar samhliða einungis 1% aukningu á langtímaskuldum. Hlutfall langtímaskulda af eigin fé lækkaði því úr 628% árið 2020 í 551% árið 2021. Þá voru 14% af eignum fjármögnuð með eigin fé sem enn fremur var jákvætt í öllum greinum nema loðdýrarækt.

Helst batnaði fjárhagsstaðan hjá kúabúum og í loðdýrarækt, en þar skilaði viðsnúningur í rekstri umtalsverðri aukningu á eigin fé. Litlar breytingar voru á efnahag sauðfjárbúa og garðræktar þar sem aukningu á eigin fé var mætt með svipaðri aukningu skulda. Staðan versnaði hins vegar í annarri nautgriparækt og hækkaði hlutfall langtímaskulda af eigin fé úr 370% árið 2020 í rúmlega 600% árið 2021 enda dróst eigið fé saman vegna bágrar afkomu samfara aukningu á langtímaskuldum. Almennt hefur þó fjárhagsstaða landbúnaðarins í heild sinni batnað á nær hverju ári síðan 2014.

Um gögnin
Rekstrartekjur: Sundurliðun á rekstrartekjum var hætt frá og með árinu 2017 þar sem framtal vegna búnaðargjalds (RSK 1.09) var lagt niður árið 2016. Framtalið var lagt til grundvallar skiptingu rekstrartekna í tekjur nautgriparæktar vegna aðalbúgreina og aukabúgreina. Eftir 2016 er skiptingin ekki lengur möguleg og slík sundurliðun tekna því ekki birt.

Flokkun: Bændur sem eru í blönduðum rekstri teljast starfandi í þeirri atvinnugrein sem skilar þeim hlutfallslega mestum tekjum. Þannig eru til dæmis einstaka stór sauðfjárbú skráð á meðal kúabúa eða annarra nautgripabúa enda tekjur þeirra meiri af kúa- eða nautgriparækt en sauðfjárrækt.

Fjöldi: Tölur um fjölda eiga við um alla aðila í landbúnaði sem skila rekstrarframtali og geta t.d. innihaldið aðila án tekna sem þó hafa eignir og skuldir á árinu.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1260 , netfang fyrirtaekjatolfraedi@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.