FRÉTT HEILBRIGÐISMÁL 08. DESEMBER 2009

Efnahags- og framfarastofnunin í París (OECD) hefur gefið út ritið “Health at a Glance 2009, OECD indicators”. Byggt er einkum á Gagnasafni OECD um heilbrigðismál 2009 (OECD Health Data 2009), alhliða gagnagrunni um heilbrigði og heilbrigðiskerfi í OECD ríkjunum. Í ritinu má finna margvíslegar upplýsingar um heilbrigðismál í 30 aðildarríkjum stofnunarinnar.

Ritið skiptist í sjö kafla sem fjalla um heilbrigðisástand, áhrifaþætti heilsufars aðra en læknisfræðilega, mannafla, starfsemi heilbrigðisþjónustunnar, gæði, aðgengi, heilbrigðisútgjöld og fjármögnun heilbrigðisþjónustunnar. Í ritinu er fjöldi mynda auk taflna og skýringatexta.

Ísland í samanburði við önnur ríki OECD

Heilbrigðisástand
Lífslíkur við fæðingu voru 79,1 ár að meðaltali í ríkjum OECD árið 2007 og höfðu aukist um rúm tíu ár frá árinu 1960. Árið 2007 voru ævilíkur á Íslandi 81,2 ár, eða fimmtu hæstu meðal ríkja OECD. Lífslíkur íslenskra karla voru 79,4 ár, aðeins lægri en í Sviss þar sem þær voru hæstar. Lífslíkur kvenna á Íslandi voru 82,9 ár eða í 10.-12. sæti OECD landa ásamt Austurríki og Noregi. Hæstar voru þær í Japan, 86,0 ár. Kynjamunur á ævilíkum við fæðingu var 5,6 ár að meðaltali í ríkjum OECD en minnstur á Íslandi, 3,5 ár.

Hjarta- og æðasjúkdómar eru algengasta dánarorsök í flestum löndum OECD og voru 36% dánarmeina árið 2006 (Ísland 38%). Í þessum flokki dánarmeina eru blóðþurrðarsjúkdómar og heilablóðfall. Hefur dánartíðni blóðþurrðarsjúkdóma sem er jafnan  helmingi hærri meðal karla en kvenna, lækkað í nær öllum ríkjum OECD frá árinu 1980 og er Ísland í hópi 10 landa þar sem hún hefur lækkað um meira en 50%. Árið 2006 létust hér á landi 121 karl  og 64 konur á 100.000 íbúa (aldursstaðlað) en 126 karlar og 66 konur á 100.000 íbúa að meðaltali í löndum OECD. Dánartíðni vegna heilablóðfalls hefur einnig farið lækkandi.

Krabbamein er önnur helsta dánarorsök í löndum OECD (27%) og er tíðnin hærri meðal karla en kvenna. Karlar á Íslandi voru með þriðju lægstu dánartíðni vegna krabbameins (174 á 100.000 íbúa, aldursstaðlað) árið 2006, næst á eftir Svíþjóð og Mexíkó en 13 lönd voru með lægri dánartíðni kvenna af völdum krabbameins en Ísland (124) sem var nærri meðaltali OECD (126).


Dánartíðni vegna umferðarslysa hefur dregist saman hér á landi um 28% frá árinu 1970 en um 58% að meðaltali í ríkjum OECD. Var hún 8,2 á 100.000 íbúa (aldursstaðlað) á Íslandi árið 2006 samanborið við 9,6 í löndum OECD.

Árið 2007 var tíðni ungbarnadauða næst lægst á Íslandi eða sem svarar 2,0 látnum á fyrsta ári af 1.000 lifandi fæddum en meðaltal OECD landa var 3,9. Lægst var hlutfallið 1,8 í Lúxemborg en hæst 20,7 í Tyrklandi. Var Ísland með lægst hlutfall ungbarna með lága fæðingarþyngd, 3,8% en meðaltal OECD landa var 6,8%.

Áætlað er að tíðni (algengi) sykursýki fólks 20-79 ára verði 1,6% á Íslandi árið 2010 eða lægst OECD landa þar sem meðaltalið er áætlað 6,3%. Er talið að hlutfallið verði yfir 10% í Bandaríkjunum og Mexíkó.

Áhrifaþættir heilsufars aðrir en læknisfræðilegir
Hlutfall þeirra sem reykja hefur farið lækkandi á undanförnum árum, hlutfallslega meira meðal karla en kvenna. Var Ísland meðal sjö landa OECD með hlutfall daglegra reykinga undir 20% árið 2007.

Á sama tíma og dregið hefur úr áfengisneyslu í meirihluta ríkja OECD frá árinu 1980 hefur áfengisneysla hér á landi aukist um 74% og var 7,5 alkóhóllítrar á mann 15 ára og eldri árið 2007 en meðaltal OECD var 9,7 l..

Helmingur fullorðinna eða meira er nú talinn of þungur eða of feitur í 13 löndum OECD þ.á.m. á Íslandi. Árið 2007 var hlutfall of feitra lægst í Japan og Kóreu, rúm 3% og hæst, 34% í Bandaríkjunum. Á sama tíma var þetta hlutfall 20% á Íslandi samanborið við 12% árið 2002 og 8% árið 1990.

Í riti OECD er fjallað um niðurstöður alþjóðlegrar könnunar á heilsu og lífskjörum skólanema 2005-2006, sem Ísland tók þátt  í. Þar kemur fram að 13-14% íslenskra 15 ára ungmenna reyktu að minnsta kosti einu sinni í viku en meðaltal 24 OECD landa var 16-17%. Hlutfall ungmenna sem höfðu orðið drukkin a.m.k. tvisvar um ævina var 31% hjá drengjum og 32% hjá stúlkum en meðaltal OECD landa var 33 % og 29%.

Hærra hlutfall stúlkna en drengja neytti ávaxta daglega en hjá báðum kynjum fór neysla ávaxta minnkandi með hækkandi aldri. Minnkaði þetta hlutfall um allt að helming frá 11 ára aldri til 15 ára aldurs hér á landi eða úr 51% í 28% hjá stúlkum og úr 39% í 18% hjá drengjum. Fyrir OECD löndin dróst sambærilegt hlutfall saman úr 46% í 36% hjá stúlkum og úr 38% í 26% hjá drengjum.

Eitt af hverjum sjö (13,8%) börnum 11-15 ára í löndum OECD voru of þung eða of feit en eitt af hverjum fimm í Kanada og nærri eitt af hverjum þremur í Bandaríkjunum þar sem hlutfallið var hæst. Hér á landi voru 14,5% barna á þessum aldri of þung eða of feit. Var hlutfallið um 10 í Danmörku, Noregi og Svíþjóð en 15,8 í Finnlandi. Á Íslandi voru 22% 15 ára drengja of feitir (OECD 17%) og 12 % stúlkna (OECD 10%).

Mannafli í heilbrigðisþjónustu
Á Íslandi voru 3,7 læknar á 1.000 íbúa árið 2007 en meðaltal OECD var 3,1. Sambærilegt hlutfall var 3,9 í Noregi, 3,6 í Svíþjóð, 3,2 í Danmörku og 3,0 í Finnlandi. Konum hefur farið fjölgandi í læknastétt hér á landi sem víðar. Voru konur 29% lækna árið 2007 en hins vegar 40% lækna að meðaltali í ríkjum OECD. Hæst var hlutfallið 57% í Slóvakíu og 56% í Finnlandi en lægst í Japan, 17%.

Samanlagður fjöldi hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða var 14 á 1.000 íbúa á Íslandi árið 2007 eða svipað og í Danmörku en var að meðaltali 9,6 á 1.000 íbúa í ríkjum OECD.

Starfsemin í heilbrigðisþjónustu
Meðallegutími á sjúkrahúsum (bráðaþjónusta) var 5,4 dagar á Íslandi árið 2007 samanborið við 6,5 að meðaltali í ríkjum OECD. Á hinum Norðurlöndunum var meðallegutíminn lægri (3,5-5,0). Meðallegutími fyrir eðlilega fæðingu var 2 dagar á Íslandi og Nýja Sjálandi sem er minna en á hinum Norðurlöndunum (2,3-3,4) og ennfremur minna en meðaltal OECD sem var 3,2 dagar.

Árið 2007 voru framkvæmdar 272 kransæðaaðgerðir (víkkanir og hjáveituaðgerðir) á 100.000 íbúa á Íslandi eða aðeins fleiri en að meðaltali í ríkjum OECD (267).

Sem fyrr var Ísland meðal landa með lágt hlutfall keisaraskurða eða 17 á 100 lifandi fædd börn árið 2007, svipað og í Finnlandi og Noregi (16), samanborið við tæplega 26 að meðaltali í löndum OECD.

Lyfjanotkun er mjög breytileg milli landa. Árið 2007 var notkun sykursýkislyfja minnst á Íslandi af ríkjum OECD eða 26 dagskammtar á 1.000 íbúa á dag en meðaltalið fyrir OECD var 52. Helst það í hendur við lága tíðni sykursýkis hér á landi í samanburði við önnur lönd. Notkun þunglyndislyfja var  mest á Íslandi eða 95 dagskammtar á 1.000 íbúa samanborið við meðaltal OECD sem var 52. Notkun blóðfitulækkandi lyfja var hér minni en meðaltal OECD-ríkja en notkun sýklalyfja jafnmikil.

Gæði heilbrigðisþjónustu
Á grundvelli ákveðins hugmyndaramma hafa verið þróaðir og valdir gæðavísar sem gefa vísbendingar um gæði þjónustunnar. Val gæðavísa takmarkast af ýmsum þáttum s.s samanburðarhæfni upplýsinga og aðgengi að þeim og ber sérstaklega að hafa það í huga þegar upplýsingar eru skoðaðar frá einstökum ríkjum. Þeir gæðavísar sem birtir eru nú ná yfir stærstan hluta heilbrigðisþjónustunnar og algengustu sjúkdómana.

Fram kemur að Ísland stendur sem fyrr almennt vel að vígi þegar kemur að gæðum þjónustunnar og í ákveðnum  tilvikum er árangur bestur  af OECD  löndunum. Dæmi  um  slíkt er árangur af meðferð við kransæðastíflu á Íslandi, mældur sem hlutfall látinna í innlögn innan 30 daga og það sama á við um  hlutfall látinna í innlögn innan 30 daga eftir heilablóðfall vegna blóðþurrðar árið 2007. Hlutfall þeirra sem greinst höfðu með brjóstakrabbamein á Íslandi og lifðu í 5 ár eða lengur eftir greiningu síðasta fimm ára tímabil var 88,3% sem var næst  hæsta  hlutfall meðal OECD ríkja en meðaltal þeirra var 81,2% (aldursstaðlað).

Aðgengi að heilbrigðisþjónustu
Í riti OECD er sýndur samanburður 20 Evrópulanda varðandi það hvort íbúar hafi ekki leitað sér læknis eða farið til tannlæknis síðustu 12 mánuði þó þess væri þörf árið 2007 og var vægi kostnaðar, biðtíma og vegalengda mismikið eftir löndum og tekjum fólks. Algengara var að fólk léti vera með að fara til tannlæknis en læknis. Var hlutfall íbúa sem ekki höfðu farið til tannlæknis þó þörf væri hæst í Póllandi (7,5%), Ítalíu (6,7%) og á Íslandi (6,5%). Á Íslandi og í fleiri löndum var hlutfallið mun hærra hjá tekjulágum en tekjuháum.

Útgjöld til heilbrigðismála
Heildarútgjöld til heilbrigðismála í ríkjum OECD voru að meðaltali 8,9% af vergri landsframleiðslu (VLF) ríkjanna árið 2007, en mikill munur er á því hlutfalli milli einstakra ríkja. Í Bandaríkjunum var hlutfallið til dæmis 16,0% árið 2007 en 5,7% í Tyrklandi á því ári. Hér á landi voru heildarútgjöld til heilbrigðismála 9,3% af VLF árið 2007, samanborið við 9,1% árið 2006.  Danir vörðu  9,8% af VLF til heilbrigðismála árið 2007, Svíar 9,1% og Norðmenn  8,9%, en Frakkar aftur á móti 11,0% og Svisslendingar 10,8%. Á þennan mælikvarða voru Íslendingar í 12. sæti OECD ríkjanna. 


 

Hérlendis er meginhluti útgjalda til heilbrigðismála fjármagnaður af hinu opinbera eða um 82,5% árið 2007, en það svarar til 7,7% af VLF. Á hinum Norðurlöndunum var hlutur hins opinbera svipaður eða 81,7-84,5%, að Finnlandi undanskildu þar sem hlutfallið var 74,6%. Í Lúxemborg var þetta hlutfall hæst (árið 2006) eða 90,9% en lægst í Mexíkó eða 45,2%.

Meðalheilbrigðisútgjöld OECD ríkja á mann voru 2.984 bandaríkjadalir (USD) árið 2007 miðað við jafnvirðisgildi dollars (PPP). Í Bandaríkjunum mældust útgjöldin hins vegar hæst eða 7.290 USD á mann, en aftur lægst í Tyrklandi eða 618 USD. Á Íslandi námu útgjöldin 3.319 USD á mann 2007, í Noregi 4.763 USD, í Danmörku 3.512 USD og í Svíþjóð 3.323 USD. Á þennan mælikvarða var Ísland í 14. sæti næst á eftir Þýskalandi, Danmörku, Írlandi, Svíþjóð og Austurríki. 

Opinber útgjöld til heilbrigðismála á mann á Íslandi voru á sama tíma 2.739 USD miðað við jafnvirðisgildi og var Ísland í 10. sæti hvað þessi útgjöld varðar af aðildarríkjum OECD. Opinber útgjöld á mann voru hæst í Noregi 4.005 USD, þar á eftir í Lúxemborg (m.v. árið 2006) 3.782 USD og síðan komu Bandaríkin með 3.307 USD á mann. Lægst voru opinber heilbrigðisútgjöld mæld á þennan veg í Mexíkó eða 372 USD á mann.

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.