Launavísitalan hækkaði í nóvember um 0,4% og má rekja hluta hækkunar til aukagreiðslna hjá opinberum starfsmönnum í heilbrigðisgeiranum en aukagreiðslur lækkuðu lítilsháttar á almennum vinnumarkaði. Þá gætir áhrifa vegna kjarasamninga kennara sem komu til framkvæmda í október og nóvember.

Laun hækkuðu um rúm 11% á milli þriðja ársfjórðungs 2018 og 2020
Laun hækkuðu um rúmlega 11% á milli þriðja ársfjórðungs 2018 og 2020 hvort sem horft er til launavísitölu eða vísitölu heildarlauna. Launaþróun er þó ólík innan tímabilsins þar sem vísitala heildarlauna hefur skýrar ársfjórðungssveiflur. Til að mynda lækka heildarlaun á greidda stund alltaf á þriðja ársfjórðungi þegar samsetning vinnuaflsins breytist við það að sumarstarfsfólk kemur til vinnu og hálaunastörf vega minna. Að sama skapi hækka heildarlaun á fjórða ársfjórðungi þegar áhrifa af sumarstarfsfólki gætir ekki lengur auk þess sem til koma ótímamældar greiðslur eins og desemberuppbót. Þessi þættir hafa hins vegar ekki áhrif á launavísitölu.

Þriðji ársfjórðungur 2018=100.

Launaþróun á tímabilinu skýrist af stórum hluta af launahækkunum sem samið var um í kjarasamningum en launabreytingar koma almennt fram í gögnum þegar þær koma til framkvæmda hjá launagreiðendum. Árið 2019 komu svokallaðir lífskjarasamningar til framkvæmda á almennum vinnumarkaði sem kváðu meðal annars á um krónutöluhækkanir og styttingu vinnuvikunnar. Árið 2020 voru gerðir sambærilegir kjarasamningar í opinbera geiranum sem fólu í sér tvær kjarasamningshækkanir, vegna ársins 2019 og 2020, þar sem samningar höfðu verið lausir frá fyrri helmingi árs 2019. Yfirlit um nýlega kjarasamninga á íslenskum vinnumarkaði má finna í skýrslu kjaratölfræðinefndar um samningalotuna 2019-2020.

Breytingar á mörkuðum komu til framkvæmda á ólíkum tíma
Launahækkun samkvæmt launavísitölu var sambærileg á milli markaða á milli þriðja ársfjórðungs 2018 og 2020, 11,2% á almennum vinnumarkaði en 10,9% í opinbera geiranum. Sé hins vegar horft til launabreytingar á milli þriðja ársfjórðungs 2018 og 2019 þá höfðu laun á almennum vinnumarkaði hækkað um 5,1% en um 2,2% í opinbera geiranum þar sem launabreytingar slá inn á ólíkum tímum vegna framkvæmda kjarasamninga. Stytting vinnutíma samkvæmt kjarasamningum hafði ennfremur áhrif til hækkunar á almennum vinnumarkaði en stytting vinnuvikunnar í opinbera geiranum kemur til framkvæmda á næsta ári. Á þriðja ársfjórðungi 2020 voru ekki allir kjarasamningar í opinbera geiranum komnir til framkvæmda.

Launavísitala og vísitala heildarlauna sýna sambærilega launaþróun í opinbera geiranum á milli þriðja ársfjórðungs 2018 og 2020. Hins vegar er launaþróun á almennum vinnumarkaði samkvæmt vísitölu heildarlauna nokkuð hærri en samkvæmt launavísitölu, einkum á milli þriðja ársfjórðungs 2019 og 2020. Breytingar á vinnumarkaði vegna afleiðinga kórónuveirufaraldursins (Covid-19) eru meiri á almennum vinnumarkaði en í opinbera geiranum. Meiri launaþróun á almennum vinnumarkaði samkvæmt vísitölu heildarlauna en launavísitölu gefur til kynna að samsetning vinnuaflsins sé að breytast í þá veru að hálaunastörf vegi meira þar sem lægri launaðir hópar séu að fara af vinnumarkaði.

Miklar breytingar á vinnumarkaði en minni áhrif á launaþróun
Miklar breytingar hafa átt sér stað á vinnumarkaði á árinu 2020 sem rekja má til afleiðinga kórónuveirufaraldursins (Covid-19). Samkvæmt niðurstöðum vinnumarkaðsrannsóknar var hlutfall starfandi af mannfjölda 77% á þriðja ársfjórðungi 2020 og hafði hlutfallið ekki mælst jafn lágt síðan 2011, fjöldi vinnustunda hafði fækkað, atvinnuleysi aukist og um 34% launafólks að jafnaði unnið aðalstarf sitt venjulega eða stundum í fjarvinnu heima. Þær breytingar hafa ekki bein áhrif á launavísitölu en geta haft áhrif á vísitölu heildarlauna. Mikilvægt er að hafa í huga að mat á launaþróun, bæði samkvæmt launavísitölu og vísitölu heildarlauna, byggir á tímakaupi þeirra sem eru í vinnu (eða eru að fá greidd laun á uppsagnarfresti) og segir því ekki alla söguna um þróun á tekjum einstaklinga.

Tímanlegar vísbendingar um tekjur einstaklinga má finna í tilraunatölfræði um staðgreiðsluskyldar greiðslur. Þar kemur fram að heildarsumma staðgreiðsluskyldra greiðslna til einstaklinga hafi hækkað um tæp 11% á milli þriðja ársfjórðungs 2018 og 2020, án verðlagsleiðréttinga, en hlutfall launa farið úr 81% í 75% um leið og atvinnuleysisgreiðslur og aðrar greiðslur hafa hækkað hlutfallslega. Til staðgreiðsluskyldra greiðslna teljast launagreiðslur, atvinnuleysisgreiðslur og aðrar greiðslur, til dæmis greiðslur vegna fæðingarorlofs, bótagreiðslur, styrkir, lífeyrisgreiðslur og úttekt einstaklinga á séreignarsparnaði.

Mestur samdráttur launasummu kemur fram í atvinnugreinunum rekstur gististaða og veitingarekstur (I), flutningar og geymsla (H) og leigustarfsemi og ýmis sérhæfð þjónusta (N) sem höfðu samtals 15% vægi af allri launasummunni á þriðja ársfjórðungi 2018.

Raðað í stærðarröð miðað við launasummu á þriðja ársfjórðungi 2018.

Um launavísitölu, vísitölu heildarlauna og launasummu
Hagstofa Íslands birtir fjölbreytta mælikvarða á laun og launabreytingar til að gefa skýrari heildamynd. Til að auðvelda túlkun á mælikvörðum er þó mikilvægt að hafa sérkenni þeirra í huga.

  Launavísitala Vísitala heildarlauna Launasumma
Hvað er mælt? Reglulegt tímakaup Heildartímakaup Öll greidd laun
Hafa breytingar á aukagreiðslum (öðrum en dagvinnulaunum) áhrif? Já - að hluta
- breyting á samsetningu reglulegra greiðslna svo sem
álagsgreiðslum, bónusum og vaktaálagi
- breyting á hlutfalli yfirvinnugreiðslna Nei
- breyting á óreglulegum greiðslum svo sem eingreiðslum Nei
Hafa breytingar á vinnutíma launafólks
áhrif?
Já - að hluta Já - að hluta Já - að hluta
- stytting vinnutíma samkvæmt kjarasamningi Nei
- breyting á starfshlutfalli Nei Nei
- breyting á hlutfalli vinnustunda í yfirvinnu Nei
Hafa samsetningabreytingar á vinnumarkaði
áhrif?
Nei Já - að hluta
- breyting á samsetningu launafólks með tilliti til launa Nei
- breyting á fjölda launafólks á vinnumarkaði Nei Nei

Vísitala heildarlauna og launasumma byggja á stjórnsýsluskrá samkvæmt lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987. Niðurstöður vísitölu heildarlauna ná til launagreiðenda með 10 eða fleiri starfsmenn á ársgrundvelli en niðurstöður launasummu ná til launagreiðanda sem skila sundurliðun launatekna fyrir að minnsta kosti einn launamann. Þeir sem eru með rekstur á eigin kennitölu og greiða sjálfum sér reiknað endurgjald eru ekki hluti niðurstaðna. Vísitala heildarlauna og launasumma mæla öll greidd staðgreiðsluskyld laun þar með talið yfirvinnu, kaupauka og önnur óreglulega uppgerð laun eins og desember- og orlofsuppbætur. Greiddar stundir í vísitölu heildarlauna eru fengnar með fjölþættu tölfræðilegu mati og byggja meðal annars á gögnum úr rannsóknum Hagstofunnar. Um er að ræða bráðabirgðatölur.

Launavísitala byggir á mánaðarlegum launagögnum úr fyrirtækjarannsókn sem nær til launagreiðenda með 10 starfsmenn eða fleiri á ársgrundvelli þar sem gögn eru fengin beint úr launakerfum launagreiðenda. Mældar eru breytingar á reglulegu tímakaupi, það er laun fyrir umsaminn vinnutíma hvort sem um er að ræða dagvinnu eða vaktavinnu. Í þessum launum eru hvers konar álags- og bónusgreiðslur sem tilheyra launaliðum sem eru gerðir upp á hverju útborgunartímabili hjá launagreiðanda deilt með þeim vinnustundum sem liggja að baki. Tilfallandi yfirvinna er ekki hluti af mælingu.

Ástæður þess að reynt er eftir megni að halda samsetningu fastri á milli mælinga í útreikningum launavísitölu er að mælikvarðinn byggir á lögum um launavísitölu þar sem kveðið er á um að vísitalan skuli sýna launabreytingar fyrir fastan vinnutíma. Því hefur verið stuðst við það sjónarmið löggjafans að um sé að ræða verðvísitölu. Launabreytingar á milli mánaða byggir því á pörun ráðningarsambanda, en pörun (e. matched sample models) er algeng aðferð við gæðaleiðréttingar verðvísitalna.

Ráðningarsamband er skilgreint sem launagreiðandi, launamaður, starf og atvinnugrein og einungis er parað á milli þess tímabils sem er mælt eða á milli tveggja aðliggjandi mánaða. Ef starfsmaður fær hærri laun í kjölfar þess að hann skiptir um starf, eða fer að vinna hjá öðrum launagreiðanda milli mánaða, þá mælast þær breytingar ekki í launavísitölu þar sem ráðningarsamband hans hefur rofnað. Auk þess eru fyrstu og síðustu þrjár mælingar á hverju pöruðu ráðningarsambandi undanskildar í mælingum. Á síðustu árum hefur Hagstofan gert greiningu á launavísitölu og þær leiða meðal annars í ljós að um helmingur ráðningasambanda hefur rofnað eftir þrjú ár, sjá nánar í frétt um niðurstöður rannsókna á launavísitölu.

Staðgreiðsluskyldar greiðslur - Tilraunatölfræði

Talnaefni