FRÉTT LAUN OG TEKJUR 05. JÚNÍ 2009


Laun hækkuðu um 0,8% frá fyrri ársfjórðungi
Samkvæmt vísitölu launa voru regluleg laun að meðaltali 0,8% hærri á fyrsta ársfjórðungi 2009 en í ársfjórðungnum á undan. Á sama tímabili hækkuðu laun á almennum vinnumarkaði um 0,3% að meðaltali en laun opinberra starfsmanna hækkuðu um 1,8%.  Frá fyrra ári hækkuðu laun um 6,2%, þar af um 4,1% á almennum vinnumarkaði og um 11,3% hjá opinberum starfsmönnum.

Laun stjórnenda á almennum vinnumarkaði lækkuðu um 1,4% frá fyrra ári
Frá fyrri ársfjórðungi hækkuðu laun skrifstofufólks mest eða um 2,4% en laun stjórnenda lækkuðu á sama tímabili um 1,7%. Frá fyrra ári hækkuðu laun verkafólks mest eða um 8,8% en laun stjórnenda lækkuðu hins vegar um 1,4% á sama tímabili.

Laun í fjármálaþjónustu lækkuðu frá sama tímabili árið 2008
Frá fyrri ársfjórðungi mældist hækkun launa í iðnaði 1,1%. Á sama tímabili lækkuðu laun í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð um 1,1%. Frá fyrra ári hækkuðu regluleg laun mest í iðnaði um 6,2% en laun í fjármálaþjónustu, lífeyrissjóðum og vátryggingum lækkuðu um 0,1% á sama tímabili.

Breytingar vísitölu launa helstu launaþegahópa 2006-2009
Starfsmenn á almennum
Alls  vinnumarkaði Opinberir starfsmenn
Breyting Breyting Breyting Breyting Breyting Breyting
frá fyrri frá fyrra frá fyrri frá fyrra frá fyrri frá fyrra
  ársfj., % ári, % ársfj., % ári, % ársfj., % ári, %
2006
1. ársfj. 4,2 9,7 4,1 9,3 4,5 10,6
2. ársfj. 1,7 9,4 1,4 8,9 2,4 10,6
3. ársfj. 3,0 11,0 3,6 11,4 1,7 10,1
4. ársfj. 1,8 11,2 1,9 11,5 1,4 10,3
Meðaltal . 10,3 . 10,3 . 10,4
2007
1. ársfj. 4,1 11,0 4,2 11,7 3,7 9,5
2. ársfj. 1,4 10,6 1,5 11,7 1,1 8,1
3. ársfj. 1,3 8,8 1,5 9,4 1,0 7,4
4. ársfj. 1,5 8,4 1,8 9,2 0,8 6,7
Meðaltal . 9,7 . 10,4 . 7,9
2008
1. ársfj. 2,8 7,1 2,6 7,5 3,1 6,1
2. ársfj. 2,6 8,5 3,1 9,2 1,6 6,7
3. ársfj. 2,2 9,4 1,1 8,9 4,8 10,7
4. ársfj. 0,4 8,3 -0,5 6,4 2,7 12,7
Meðaltal . 8,3 . 8,0 . 9,0
2009
1. ársfj. 0,8 6,2 0,3 4,1 1,8 11,3

Kjarasamningar sem komu til framkvæmda á tímabilinu
Samkvæmt kjarasamningi Félags grunnskólakennara og Launanefndar sveitarfélaganna hækkuðu laun félagsmanna um 2,5% þann 1. janúar 2009.

Samkvæmt ákvörðun Kjararáðs frá 23. febrúar sl. lækkuðu laun embættismanna sem heyra undir kjararáð, annarra en dómara og skrifstofustjóra í Stjórnarráði Íslands um 5-15% frá 1. mars 2009. Áður hafði Kjararáð ákvarðað að laun alþingismanna skyldu lækka um 7,5% og laun ráðherra um 14-15%.

Samkvæmt kjarasamningum aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands og Samtaka Atvinnulífsins sem undirritaður var þann 17. febrúar 2008 átti 13.500 króna hækkun launataxta að koma til framkvæmda þann 1. mars 2009. Þrátt fyrir að samkomulag lægi fyrir á milli aðila vinnumarkaðarins um frestun launahækkana komu þær til framkvæmda í einhverjum tilfellum.

Í breytingum vísitölu launa á fyrsta ársfjórðungi 2009 gætir einnig áhrifa kjarasamninga á sveitarstjórnarstiginu sem gerðir voru undir lok síðasta árs. Þá gætir einnig áhrifa kjarasamnings Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja og Samtaka atvinnulífsins sem undirritaður var þann 5. desember sl.

Endurnýjaður grunnur vísitölu launa
Birting vísitölu launa fyrir fyrsta ársfjórðung 2009 byggir á endurnýjuðum grunni. Grunnur vísitölunnar byggir m.a. á niðurstöðum launarannsóknar Hagstofu Íslands og upplýsingum úr staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra. Að öllu jöfnu byggja vogir vísitölunnar á gögnum næstliðins árs. Í ljósi þeirra breytinga sem hafa átt sér stað í íslensku efnahagslífi frá því á síðari hluta árs 2008 var nú jafnframt stuðst við fyrirliggjandi gögn um fyrstu mánuði ársins 2009 við ákvörðun grunnvoga.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.