Dreifing ráðstöfunartekna hefur haldist nokkuð stöðug undanfarin fimm ár samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum lífskjararannsóknar Hagstofunnar. Gini-stuðullinn var 24,2 árið 2022 en stuðullinn sýnir dreifingu ráðstöfunartekna á meðal landsmanna. Stuðullinn væri 100 ef einn maður væri með allar tekjurnar en 0 ef allir hefðu jafnar tekjur. Frá árinu 2018 var Gini-stuðullinn lægstur það ár og 2022, eða 24,2, og hæstur árið 2020 eða 24,8.

Félagsleg aðstoð frá yfirvöldum til heimila dregur úr ójöfnuði en Gini-stuðullinn er hærri þegar hann er reiknaður án félagslegrar aðstoðar og var hann þannig 31,1 árið 2022. Þegar horft er til síðustu fimm ára var Gini-stuðullinn án fjárhagsaðstoðar lægstur árið 2018, eða 29,1, og hæstur árið 2021 eða 31,7. Með félagslegri aðstoð er vísað til greiðslna á borð við fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna, barnabætur, húsnæðisbætur, atvinnuleysisbætur og örorkubætur. Þetta er í fyrsta sinn sem Hagstofan birtir Gini-stuðulinn með og án félagslegrar aðstoðar sem gefur færi á því að leggja mat á áhrif félagslegrar aðstoðar á jöfnuð.

Ójöfnuður er lítill á Íslandi í evrópskum samanburði. Árið 2022 var Gini-stuðulinn á Íslandi sá þriðji lægsti í Evrópu en meðaltalið í ríkjum Evrópusambandsins var 29,6. Gini-stuðullinn var hæstur í Búlgaríu, eða 38,4, og lægstur í Slóvakíu eða 21,2. Á Norðurlöndunum var ójöfnuður minnstur á Íslandi en í Danmörku var Gini-stuðullinn 27,7, í Svíþjóð 27,6 og í Finnlandi 26,6. Enn vantar niðurstöður fyrir Noreg en árin á undan var Gini-stuðullinn þar á bilinu 24,8 til 25,4.

Fimmtungastuðullinn, sem mælir tekjumun á milli efsta og neðsta tekjufimmtungs, var 3,5 árið 2022. Það þýðir að 20% tekjuhæstu heimilin höfðu 3,5 sinnum hærri ráðstöfunartekjur á neyslueiningu en 20% tekjulægstu heimilin. Ráðstöfunartekjur á neyslueiningu byggjast á ráðstöfunartekjum heimila eftir að tillit hefur verið tekið til þess hversu margir þurfa að lifa af þeim. Fimmtungastuðullinn hefur, eins og Gini-stuðullinn, sveiflast lítið frá árinu 2018 en þá var hann lægstur, eða 3,3, en hæstur var hann árið 2020 eða 3,6. Þetta gefur til kynna að tekjumunur á milli efsta og neðsta tekjufimmtungs hafi lítið breyst á tímabilinu.

Tekjumunur á milli efsta og neðsta tekjufimmtungs er meiri þegar ekki er tekið tillit til félagslegrar aðstoðar. Fimmtungastuðull án félagslegrar aðstoðar var 6,2 árið 2022, töluvert hærri en þegar tekið er tillit til félagslegrar aðstoðar. Það gefur til kynna að aðstoð dragi töluvert úr tekjumun á milli þeirra sem tilheyra neðsta og efsta tekjufimmtungi.

Um gögnin
Tölurnar eru unnar úr lífskjararannsókn Hagstofu Íslands sem er hluti af samræmdri lífskjararannsókn Evrópska efnahagssvæðisins (EU-SILC). Undanfarin ár hefur Hagstofan unnið að umbótum í vinnslu talna úr lífskjararannsókninni með það að markmiði að bæta tímanleika og áreiðanleika upplýsinganna. Í kjölfarið hefur tímaröðin verið uppfærð með endurbættum vogum, nákvæmari vikmörkum og samræmdari vinnsluaðferðum. Tölur áranna 2019-2022 eru bráðabirgðatölur.

Talnaefni