FRÉTT MANNFJÖLDI 30. OKTÓBER 2017

Íbúar á Íslandi verða 452 þúsund árið 2066 samkvæmt miðspá um mannfjölda. Landsmenn verða fleiri í lok spátímabils bæði vegna fólksflutninga og náttúrulegrar fjölgunar. Til samanburðar var mannfjöldinn 338 þúsund 1. janúar 2017. Samkvæmt háspánni verða íbúar 531 þúsund í lok spátímabilsins en 367 þúsund í lágspánni. Spárnar byggjast á ólíkum forsendum um hagvöxt, frjósemishlutfall og búferlaflutninga.

Mannfjöldaspáin nær yfir tímabilið 2017–2066 og sýnir áætlaða stærð og samsetningu mannfjöldans í framtíðinni. Spáin er byggð á tölfræðilíkönum fyrir búferlaflutninga, frjósemi og dánartíðni.

Fleiri fæðast en deyja og ævilíkur við fæðingu aukast
Samkvæmt háspá munu fleiri fæðast en deyja á hverju ári spátímabilsins. Í miðspánni eru dánir hins vegar fleiri en fæddir frá og með árinu 2060 en frá 2040 samkvæmt lágspá. Meðalævi karla og kvenna við fæðingu mun halda áfram að lengjast. Stúlkur sem fæðast árið 2066 geta vænst þess að verða 88,6 ára en drengir 84,4 ára en nú eru meðalævilíkur kvenna við fæðingu 83,8 ár og karla 79,7 ár.

Aðfluttir verða fleiri en brottfluttir ár hvert samkvæmt spánni, fyrst og fremst vegna erlendra innflytjenda. Íslendingar sem flytjast frá landinu verða áfram fleiri en þeir sem flytjast til landsins.

Yfir fjórðungur íbúa eldri en 65 ára frá árinu 2057
Samkvæmt spánni verða yfir 20% af heildarmannfjölda eldri en 65 ára árið 2039 og yfir 25% árið 2057. Frá árinu 2047 verða þeir sem eru eldri en 65 ára í fyrsta sinni fjölmennari en þeir sem eru yngri en tvítugir.

Breytingar á aldurssamsetningu mannfjöldans sjást mjög vel þegar litið er á aldurspíramídann í upphafi og lok spátímabilsins. Mynd 2 sýnir aldurssamsetningu árin 2017 og 2066 samkvæmt miðspánni.

Þótt þjóðin sé að eldast og fólksfjölgun verði fremur hæg, þá eru Íslendingar nú, og verða enn um sinn, mun yngri en flestar Evrópuþjóðir. Árið 2060 verður yfir þriðjungur Evrópubúa eldri en 65 ára en einungis um fjórðungur Íslendinga.

Mannfjöldaspá 2017–2066 - Hagtíðindi

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1030 , netfang mannfjoldi@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.