FRÉTT MANNFJÖLDI 29. JÚNÍ 2017

Í hagtíðindum um mannfjöldaþróun árið 2016 sem Hagstofan hefur gefið út kemur meðal annars fram að hinn 1. janúar síðastliðinn hafi íbúafjöldi á Íslandi verið 338.349 sem er 1,8% fjölgun frá sama tíma árið áður eða um 5.820 einstaklinga.

Árið 2016 fæddust 4.034 börn en 2.309 manns létust. Fæddir umfram dána voru því 1.725. Þá fluttust 6.889 utan en 10.958 til landsins. Aðfluttir umfram brottflutta voru því 4.069 árið 2016, 2.899 karlar og 1.170 konur. Brottfluttir íslenskir ríkisborgarar umfram aðflutta voru 146 árið 2016.

Í upphafi árs 2016 var 60 þéttbýlisstaðir á landinu með 200 íbúa eða fleiri. Auk þeirra voru 36 smærri byggðakjarnar með 50–199 íbúa. Alls bjuggu 316.904 í þéttbýli 1. janúar síðastliðinn og hafði þá fjölgað um 5.054 frá sama tíma ári fyrr. Í dreifbýli og smærri byggðakjörnum bjuggu alls 21.455.

Fjölmennasta sveitarfélagið var Reykjavík með 123.246 íbúa. Það fámennasta var hins vegar Árneshreppur þar sem bjuggu 46 íbúar. Árið 2016 fækkaði fólki í 26 sveitarfélögum og á einu landsvæði af átta. Fólki á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði árið 2016, en 1. janúar 2017 bjuggu þar 3.259 fleiri en árið áður. Það jafngildir 1,5% fjölgun íbúa á einu ári.

Erlendir ríkisborgarar voru 30.275 hinn 1. janúar 2017 og voru Pólverjar langfjölmennastir. Alls höfðu 13.795 einstaklingar pólskt ríkisfang eða 45,6% allra erlendra ríkisborgara. Alls voru 46.516 landsmanna árið 2016 fæddir erlendis (23.830 karlar og 22.686 konur) eða 13,7% mannfjöldans, fleiri en nokkru sinni.

Mannfjöldaþróun 2016 — Hagtíðindi

Talnaefni

 

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1030 , netfang mannfjoldi@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.