FRÉTT MENNTUN 23. NÓVEMBER 2007

Hagstofa Íslands hefur reiknað út brautskráningarhlutfall á háskólastigi árið 2006. Brautskráningarhlutfall sýnir hlutfall nýnema á háskólastigi sem ljúka háskólanámi innan tiltekins tíma, í þessu tilviki innan 10 ára frá upphafi náms. Árið 1996 hóf 2.031 nemandi nám í fyrsta skipti á háskólastigi á Íslandi. Árið 2006 höfðu 1.426 úr hópi nýnemanna lokið námi á háskólastigi. Brautskráningarhlutfallið er því 70,2%.

Brautskráningarhlutfallið er hærra meðal kvenna en karla. Þannig luku 73,8% kvenna námi á þessu 10 ára tímabili en 65,0% karla. Fimm árum eftir að nám hófst höfðu 1.106 nemendur (54,5%) lokið námi, 49,5% karla í upphaflega nýnemahópnum og 57,9% kvennanna. Á þeim fimm árum sem síðar liðu brautskráðust 320 nemendur til viðbótar en það samsvarar 15,8%.

Í nýútgefnu riti OECD, "Education at a Glance 2007, OECD Indicators" er birt brautskráningarhlutfall OECD landanna árið 2004. Þá var brautskráningarhlutfall á Íslandi 68,8%. Það var nálægt meðaltali OECD ríkjanna, sem var 70%. Tölur OECD sýna að brautskráningarhlutfall er yfirleitt hærra í löndum þar sem nám til fyrstu háskólagráðu er stutt, en lægra þar sem lengra nám liggur að baki fyrstu háskólagráðu. Þá er hlutfallið hærra í fræðilegu háskólanámi (ISCED5A) en í starfstengdu háskólanámi (ISCED5B), eða 71% á móti 67%.

Einungis tvö önnur OECD lönd (Frakkland og Sviss) birta brautskráningarhlutfall byggt á einstaklingsupplýsingum, líkt og Ísland gerir, og kann það að hafa einhver áhrif á samanburð á milli OECD landanna. Önnur lönd reikna hlutfallið með samanburði á fjölda útskrifaðra nemenda ákveðið ár á móti fjölda nýnema x árum áður, þar sem x er lengd á námi til fyrstu háskólagráðu. Sú aðferð hentar illa þegar nemendum á háskólastigi er að fjölga, eins og hefur verið raunin á Íslandi undanfarin ár og í sumum öðrum OECD löndum.

 

Talnaefni (sjá Brautskráningarhlutfall nemenda á háskólastigi 2004 og 2006)

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.