FRÉTT MENNTUN 03. MAÍ 2011

Haustið 2002 voru 3.982 nýnemar í dagskóla á framhaldsskólastigi á Íslandi. Fjórum árum síðar höfðu 45% nýnemanna verið brautskráðir úr námi á framhaldsskólastigi sem var að minnsta kosti tvö ár að lengd. Um 29% nýnemanna höfðu þá hætt námi eða tekið sér tímabundið hlé án þess að vera brautskráðir en 26% voru enn í námi án þess að hafa brautskráðst.

Árið 2008, sex árum frá upphafi náms, höfðu 58% nýnemanna verið brautskráðir, 29% nýnemanna höfðu hætt námi eða tekið hlé frá námi án þess að vera brautskráðir en 13% voru enn í námi. Árið 2009, sjö árum eftir upphaf náms, hafði hlutfall brautskráðra hækkað í 61% en 28% voru brottfallnir. Það er athyglisvert að stærð þess hóps sem hér er skilgreindur sem brottfallinn úr námi minnkaði aðeins um eitt prósentustig þótt svigrúm til að ljúka námi hafi aukist úr fjórum árum í sjö. Hlutfall þeirra sem voru brautskráðir óx úr 45% í 61% og hlutfall þeirra sem voru enn í námi minnkaði að sama skapi.

Staða nýnema í dagskóla á framhaldsskólastigi árið 2002 fjórum, sex og sjö árum eftir innritun
  Fjöldi ára frá innritun
  4 ár  6 ár  7 ár
Brautskráðir 45% 58% 61%
Enn í námi 26% 13% 11%
Brottfallnir 29% 29% 28%
Alls 100% 100% 100%

Fjórum árum eftir innritun höfðu 51% kvenna og 38% karla verið brautskráð. Bilið á milli karla og kvenna hélst svo til óbreytt þegar hópurinn var skoðaður sex og sjö árum frá upphafi náms. Karlar voru fleiri í hópi brottfallinna fjórum árum frá upphafi náms, 35% á móti 23% kvenna.

Um 43% nemenda í bóknámi höfðu verið brautskráðir fjórum árum eftir upphaf náms en 49% nemenda í starfsnámi. Hærra hlutfall brautskráðra í starfsnámi skýrist m.a. af því að í starfsnámi er hægt að ljúka námi eftir tvö eða þrjú ár en fjögur ár þarf til að ljúka flestum bóknámsbrautum. Þannig hafði fjöldi nemenda lokið tveggja ára verslunar- og viðskiptabrautum sem teljast til starfsnámsbrauta. Sjö árum frá upphafi náms höfðu 61% nemenda í bóknámi verið brautskráðir og sömuleiðis 61% nemenda í starfsnámi.

Algengt er að nemendur skipti um námsleið í framhaldsskólum. Þannig höfðu 29% nemenda sem innrituðust í starfsnám haustið 2002 lokið bóknámi fjórum árum síðar. Þá höfðu tæp 7% allra nýnema bæði verið brautskráðir úr starfsnámi og bóknámi fjórum árum frá upphafi náms.

 


Hvað er brottfall?
Brottfall nemenda úr skóla má skilgreina á marga vegu. Hér er sú aðferð valin að fylgja eftir nemendum sem töldust til nýnema haustið 2002 og stunduðu nám í dagskóla. Þessi aðferð er valin þar sem OECD er að taka saman sambærilegar tölur sem verða birtar í september 2011. Með því að skilgreina brottfall á sama hátt og OECD má bera íslenskar tölur um brottfall og brautskráningarhlutfall saman við tölur annarra OECD ríkja.

Um gögnin
Nýnemar eru þeir nemendur sem voru skráðir í nám á framhaldsskólastigi haustið 2002 í fyrsta skipti frá upphafi nemendaskrár Hagstofu Íslands árið 1975. Allir dagskólanemendur eru teknir með, óháð aldri. Rúmlega 11% nemenda eru 17 ára eða eldri og elsti nýneminn er 73 ára. Til nemenda sem enn eru í námi teljast nemendur á framhaldsskólastigi og háskólastigi á Íslandi að hausti. Til brautskráðra teljast þeir sem hafa verið brautskráðir úr námi á framhaldsskólastigi sem er a.m.k. tvo ár að lengd. Margir nemendur halda síðan áfram námi og ljúka stúdentsprófi eða lengra starfsnámi.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.