FRÉTT MENNTUN 12. SEPTEMBER 2023

Nemendur á skólastigum ofan grunnskóla á Íslandi voru 44.031 haustið 2022 og hafði fækkað um 2.090 frá fyrra ári, eða um 4,5%. Nemendum fækkaði bæði á framhaldsskólastigi og háskólastigi, í öllum landshlutum og í öllum aldurshópum frá 16 til 29 ára.

Á framhaldsskólastigi stunduðu rúmlega 22.100 nemendur nám og fækkaði þeim um 1,7% frá fyrra ári. Á viðbótarstigi, þar sem er nám sem bætist ofan á nám á framhaldsskólastigi en er ekki á háskólastigi, voru rúmlega 1.500 nemendur.

Nemendur á háskólastigi að undanskildu doktorsstigi voru rúmlega 19.600 og fækkaði um 7,9%. Á doktorsstigi hafa aldrei verið fleiri nemendur, en þeir voru 734 og fjölgaði um 12,7% frá fyrra ári.

Alls sóttu rúmlega 19.800 karlar nám og rúmlega 24.200 konur. Körlum við nám fækkaði um rúmlega 700 frá fyrra ári (-3,5%) en konum um tæplega 1.400 (-5,4%).

Þriðjungur nemenda á framhaldsskólastigi er í starfsnámi
Rúmlega þriðjungur (34,8%) nemenda á framhaldsskólastigi var í starfsnámi haustið 2022, lítið eitt færri en árið áður. Hlutfall nemenda í starfsnámi jókst frá 2017 til 2021 þegar það var 35,2%. Í upphafi þessarar aldar voru starfsnámsnemendur hærra hlutfall nemenda á framhaldsskólastigi en hæst var hlutfallið árið 2003 þegar 38,5% nemenda á framhaldsskólastigi voru í starfsnámi.

Hlutfall nema í starfsnámi haustið 2022 var mun hærra meðal karla en kvenna, eða 43,4% á móti 25,0% hjá konum.

Einn af hverjum fimm háskólanemum stundar nám í raunvísindum og verkfræðigreinum
Langflestir háskóla- og doktorsnemar sóttu nám á sviði félagsvísinda, viðskipta og lögfræði haustið 2022, eða rúmlega 6.400 nemendur. Næstflestir nemendur voru á sviði heilbrigðis og velferðar, rúmlega 3.700.

Í mörgum löndum er áhersla á fjölgun nemenda í svokölluðum STEM greinum, það er á sviðum raunvísinda, stærðfræði og tölvunarfræði, verkfræði, framleiðslu og mannvirkjagerð. Nemendum í þessum greinum hefur farið hægt fjölgandi undanfarin ár á Íslandi, og stunduðu 19,6% háskólanema nám í STEM greinum haustið 2022, eða tæplega 4.000 nemendur.

Á háskóla- og doktorsstigi voru konur tæp 66% nemenda haustið 2022. Þær voru fleiri en karlar á öllum sviðum menntunar nema í STEM greinunum. Hlutfall kvenna var hæst á sviði heilbrigðis og velferðar en þar voru þær tæp 87% nemenda.

Um gögnin
Upplýsingum er safnað beint frá skólunum og úr framhaldsskólaforritinu INNU og miðast við fjölda nemenda um miðjan október ár hvert.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1000 , netfang menntamal@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.