FRÉTT MENNTUN 22. DESEMBER 2021

Nemendur á skólastigum ofan grunnskóla voru 46.328 haustið 2020 og hafði fjölgað um 4.721 frá hausti 2019 eða um 11,3%. Þetta er næstmesti fjöldi nemenda á þessum skólastigum sem mælst hefur samkvæmt tölum Hagstofunnar en lítið eitt fleiri nemendur stunduðu nám haustið 2011. Nemendum fjölgaði á öllum skólastigum og á öllum landsvæðum að Austurlandi undanskildu. Nemendum með erlendan bakgrunn fjölgaði sem og nemendum með íslenskan bakgrunn.

Nemendur á háskólastigi voru 22.067, fjölgaði um 14,7% og hafa ekki áður verið fleiri. Þar af voru 656 nemendur í doktorsnámi, aldrei fleiri. Á framhaldsskólastigi stunduðu 22.767 nemendur nám sem er 7,5% fjölgun. Á viðbótarstigi voru 1.494 nemendur og hafa ekki verið fleiri nemendur á því stigi.

Skólasókn 16 ára nemenda var óbreytt á milli ára, eða 95,1%, en hlutfallslega fleiri nemendur á aldrinum 17-29 ára sækja skóla en árið áður. Skólasókn 19 ára nemenda hefur minnkað síðustu ár í kjölfar styttingar náms til stúdentsprófs en haustið 2020 jókst hún í 66,5% úr 58,0% árið áður.

Um gögnin
Upplýsingum er safnað beint frá skólunum og úr framhaldsskólaforritinu INNU og miðast við fjölda nemenda um miðjan október ár hvert. Skólasókn er reiknuð þannig að nemendur eru flokkaðir eftir aldri ár hvert og hlutfall þeirra síðan reiknað af fjölda í hverjum aldursflokki.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1000 , netfang menntamal@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.