FRÉTT MENNTUN 03. JÚNÍ 2008

Út er komið hefti í ritröðinni Hagtíðindi um nemendur og námslok við 24 ára aldur.
Á Íslandi eru 4.352 einstaklingar fæddir árið 1982. Nám og námslok þessara einstaklinga eru skoðuð í nemendaskrá og prófaskrá Hagstofu Íslands til ársins 2006. Það ár er þessi árgangur 24 ára. Niðurstöðurnar sýna að 62,1% árgangsins höfðu lokið einhverju námi á Íslandi árið 2006. Langflestir höfðu lokið stúdentsprófi og eru brautskráningar úr bóknámi um 60% brautskráninga á framhaldsskólastigi. Þeir sem teljast hafa menntunarstöðu framhaldsskólastigs, það er geta haldið áfram námi á næsta skólastigi fyrir ofan, voru 58,3% árgangsins. Fleiri konur luku námi en karlar. Þannig hafa 65,8% kvenna lokið framhaldsskólastiginu en 51,4% karla. Fleiri íbúar á höfuðborgarsvæðinu luku námi en nemendur á landsbyggðinni. Alls luku 62,4% þeirra sem voru búsettir í Reykjavík árið 1997 framhaldsskólastiginu en 48,3% íbúa á Suðurnesjum og á Vestfjörðum. Úr þessum árgangi hafa 1.427 stundað nám að loknum grunnskóla á Íslandi án þess að hafa lokið námi árið 2006. Þar af er tæpur fjórðungur ennþá í námi haustið 2006, alls 334 nemendur. Í árganginum eru 224 einstaklingar sem ekki hafa stundað nám á Íslandi að loknum grunnskóla, eða 5,1% árgangsins.

Nemendur og námslok við 24 ára aldur

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma
528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.