Um 36.900 manns á aldrinum 25-64 ára tóku þátt í símenntun árið 2020 eða 19,4% landsmanna á þessum aldri. Þátttaka í símenntun minnkaði nokkuð frá síðasta ári þegar 20,8% landsmanna tóku þátt. Þátttakendum í símenntun hefur fækkað flest ár frá 2015 þegar 27,3% 25-64 ára landsmanna sóttu sér símenntun.

Mun fleiri 25-64 ára einstaklingar sóttu skóla árið 2020 en árin á undan eða 21.600 á móti 18.800 árið áður. Þátttakendum í námskeiðum fækkaði úr 12.400 í 11.500 á milli ára og þátttakendum í annarri fræðslu með leiðbeinanda utan skóla (t.d. ráðstefnum) fækkaði úr 11.800 í 8.000. Má leiða líkum að því að kórónuveirufaraldurinn hafi þar haft áhrif enda var ýmsum ráðstefnum og námskeiðum aflýst á árinu.

Þátttaka í símenntun mest á meðal háskólamenntaðra
Þátttaka í símenntun var mest á meðal háskólamenntaðra en 26% háskólamenntaðra landsmanna á aldrinum 25-64 ára sóttu sér fræðslu árið 2020. Hlutfallið var lægra á meðal þeirra sem höfðu lokið starfs- og framhaldsmenntun, 17,6%, og lægst meðal þeirra sem eingöngu höfðu lokið grunnmenntun, rúm 11%.

Fleiri konur á aldrinum 25-64 ára sóttu sér fræðslu, eða 21.100 talsins, en karlar voru 15.800.

Flestir þátttakendur í símenntun eru starfandi
Mikill meirihluti þeirra sem tóku þátt í símenntun voru starfandi á vinnumarkaði eða 29.200 manns. Sé litið á hlutfallstölur sóttu 18,9% starfandi fólks á aldrinum 25-64 ára sér símenntun, 20,3% atvinnulausra og 22,0% þeirra sem voru utan vinnumarkaðar. Formleg menntun í skóla er talin með en margir þeirra yngri, sem eru utan vinnumarkaðar, eru námsmenn.

Um gögnin
Tölurnar eru fengnar úr vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands. Vinnumarkaðsrannsóknin er samevrópsk rannsókn sem byggir á alþjóðlegum stöðlum og skilgreiningum. Í úrtökuramma rannsóknarinnar eru allir 16–74 ára sem hafa lögheimili og búsetu á Íslandi. Í úrtak ársins 2020 völdust af handahófi 20.260 manns. Þegar frá eru taldir þeir sem voru látnir eða reyndust búsettir erlendis var nettóúrtakið 19.798 einstaklingar. Alls fengust nothæf svör frá 12.895 einstaklingum sem jafngildir 65,1% svarhlutfalli.

Ný vog og aðferð við mat á mannfjölda í vinnumarkaðsrannsókninni var tekin í notkun árið 2021 og eru þetta fyrstu tölurnar um símenntun sem eru birtar með nýju voginni. Jafnframt voru tímaraðir rannsóknarinnar endurskoðaðar út frá nýju voginni. Allar fjöldatölur sem fengnar eru með voginni eru uppreiknaðar í mannfjölda þjóðskrár eftir kyni og aldri.

Símenntun er skilgreind sem öll menntun sem einstaklingur sækir, hvort sem er formlegt nám í skóla eða menntun utan skóla, s.s. á námskeiði, fyrirlestri eða á ráðstefnu. Sami einstaklingur getur bæði verið á námskeiði, í annarri fræðslu og í skóla en hver einstaklingur er aðeins talinn einu sinni í heildartölum.

Talnaefni