FRÉTT MENNTUN 01. JÚNÍ 2007

Hagstofa Íslands hefur tekið saman tölur um fjölda nemenda á öllum skólastigum og tölur um skólasókn í framhaldsskólum og háskólum eins og hún var á miðju haustmisseri 2006. Auk þess hafa töflur á vef með tölum aftur til ársins 1997 verið uppfærðar.

Nemendur á öllum skólastigum eru rúmlega 102 þúsund
Á skólaárinu 2006-2007 er heildarfjöldi nemenda á landinu á öllum skólastigum 102.288. Á yfirstandandi skólaári eru skráðir 17.216 nemendur á leikskólastigi, 43.875 nemendur á grunnskólastigi, 24.459 nemendur á framhaldsskólastigi og 16.738 á háskólastigi. Nemendum á Íslandi hefur fjölgað um 1.117 frá árinu áður, eða um 1,1%. Nemendum á framhaldsskólastigi fjölgaði um 4,8% frá haustinu 2005 en fjölgun á háskólastigi var 0,7% á sama tíma.

Frá 1997 hefur nemendum á öllum skólastigum fjölgað um 16.128 eða 18,7%. Hlutur kvenna í þeirri fjölgun er áberandi en á þessu tímabili fjölgaði þeim um 10.432 (24,3%) en körlum um 5.696 (13,2%). Konur eru 53,2% nemenda á framhaldsskólastigi og 62,3% nemenda á háskólastigi.

Skólasókn 16 ára nemenda í framhaldsskólum hefur lækkað um eitt prósentustig frá fyrra ári
Skólasókn 16 ára ungmenna á Íslandi haustið 2006 var 93% sé miðað við öll kennsluform, þ.e. dagskóla, kvöldskóla og fjarnám. Skólasókn 16 ára ungmenna hefur lækkað um eitt prósentustig frá fyrra ári þegar hún var 94%. Skólasókn 16 ára nemenda hefur hækkað að jafnaði um eitt prósentustig á ári allt frá 1999. Nú bregður svo við að skólasóknin lækkar um eitt prósentustig. Stúlkur sækja skóla í meira mæli en piltar. Skólasókn 16 ára stúlkna er þremur prósentustigum hærri en pilta eða 94% á móti 91% meðal pilta. Nokkur munur er á skólasókn 16 ára ungmenna eftir landshlutum. Alls staðar er skólasókn 90% eða hærri, lægst er hún á Vesturlandi (90%) en hæst á Norðurlandi vestra (96%).

Skólasókn 17 og 18 ára nemenda hækkaði um eitt prósentustig frá haustinu 2005 en 85% 17 ára ungmenna og 74% 18 ára ungmenna sækja skóla.

Hlutfallslega flestir háskólanemar eru 22 og 23 ára
Hagstofan birtir nú í fyrsta skipti tölur um skólasókn á framhaldsskólastigi annars vegar og háskólastigi hins vegar, auk hinna hefðbundnu talna um skólasókn 16-29 ára. Þessar tölur ná aftur til skólaársins 1999-2000. Þegar skoðaðar eru tölur um hlutfall nemenda á háskólastigi eftir aldri kemur í ljós að hlutfallslega flestir nemendur eru á aldrinum 22 og 23 ára. Skólasókn þessara aldurshópa er 32% haustið 2006 en var 26% haustið 1999 hjá 23 ára nemendum. Skólasókn þessa aldurshóps hefur því aukist sem nemur sex prósentustigum á tímabilinu. Á mynd 2 má glögglega sjá að talsvert hærra hlutfall hvers aldurshóps sækir nú nám á háskólastigi en var árið 1999. 

 

Íslenskir námsmenn erlendis stunda nám í 34 löndum
Íslenskir námsmenn erlendis sem skráðir eru í nemendaskrá Hagstofunnar voru 2.308 haustið 2006. Tæplega helmingur þeirra, eða 48% (1.109), voru við nám í Danmörku. Næst fjölmennastir eru íslenskir námsmenn í Bandaríkjunum, 304 talsins (13,2%) og í Englandi, 223 talsins (9,7%). Íslenskir námsmenn erlendis fara víða og haustið 2006 voru þeir skráðir til náms í 34 löndum. Frá 1999 hafa íslenskir námsmenn erlendis verið skráðir til náms í 49 löndum í öllum heimsálfum.

Hagstofan sækir upplýsingar sínar um námsmenn erlendis til Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Námsmenn sem ekki fá námslán eru ekki inni í þessum tölum. Tölur frá öðrum löndum um íslenska námsmenn sýna að íslenskir námsmenn erlendis eru mun fleiri en tölur LÍN gefa til kynna. Munar þar mestu um námsmenn á Norðurlöndunum.

Um gögnin
Upplýsingum er safnað beint frá skólunum og miðast við fjölda nemenda um miðjan október. Hver nemandi er aðeins talinn einu sinni þótt hann stundi nám í tveimur skólum. Skólasókn er reiknuð þannig að nemendur eru flokkaðir eftir aldri og lögheimili þann 1. desember ár hvert og hlutfall þeirra síðan reiknað af fjölda í hverjum árgangi.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.