FRÉTT MENNTUN 17. FEBRÚAR 2005

Starfsmenn í grunnskólum á Íslandi í október 2004 voru 7.379 talsins. Starfsmenn við kennslu voru 4.725 og hefur fækkað um 18 manns frá árinu áður. Starfsfólki við kennslu í grunnskólum hefur fjölgað ár frá ári, en fækkar nú í fyrsta skipti milli ára síðan Hagstofan hóf gagnasöfnun sína haustið 1997. Þetta eru tölur úr gagnasafni Hagstofu Íslands, sem safnar upplýsingum um starfsfólk í grunnskólum á Íslandi í október ár hvert.

Yfir 85% starfsfólks við kennslu er með kennsluréttindi
Kennurum með kennsluréttindi fjölgar hlutfallslega og hefur hlutfall þeirra ekki verið hærra síðan gagnasöfnun Hagstofunnar hófst. Nú eru rúmlega 85% þeirra sem sinna kennslu með kennsluréttindi og hefur réttindakennurum fjölgað um 172 frá fyrra ári. Hæsta hlutfall réttindakennara á landinu er á höfuðborgarsvæðinu utan Reykjavíkur þar sem 94,3% kennara eru með kennsluréttindi. Þegar litið er á landsbyggðina í heild hefur hlutfall kennara með kennsluréttindi hækkað um 5,4 prósentustig frá síðastliðnu skólaári. Haustið 2004 eru rúmlega 76% kennara á landsbyggðinni með kennsluréttindi og hafa ekki verið fleiri frá árinu 1997.

Fjölgun kvenna í kennarastarfi
Yfir 80% allra starfsmanna í grunnskólum landsins eru konur. Þetta hlutfall er þó misumunandi eftir starfssviðum. Af 181 starfandi skólastjóra eru 102 karlar eða 56,4%. Árið 1999 var samsvarandi hlutfall 65,3%.  Konum hefur því fjölgað í hópi skólastjóra á þessu tímabili. Tæplega 80% kennara og deildarstjóra eru konur og hefur það hlutfall farið hækkandi frá árinu 1998 þegar hlutfall kvenna var 76,6%.  Kennarastarfið er því orðið enn meira kvennastarf en áður. Ákveðin störf innan grunnskólans eru svo til eingöngu unnin af konum og má þar nefna störf þroskaþjálfa og störf á bókasafni. Karlar eru hlutfallslega flestir í starfi húsvarða eða tæp 88%.

Brottfall úr kennslu eykst lítillega á milli ára
Alls höfðu 765 starfsmenn við kennslu haustið 2003 hætt störfum haustið 2004 og er brottfallið 16,1%. Þetta er lítið eitt meira brottfall en árið áður þegar brottfallið var 15,1%. Brottfall úr kennslu er hlutfallslega meira meðal þeirra sem ekki hafa kennsluréttindi og meðal þeirra sem eru í hlutastarfi. Ef litið er á alla starfsmenn sem störfuðu í grunnskólum haustið 1999 og skoðaðar mannabreytingar í gögnum Hagstofunnar haustið 2004 höfðu 2.366 starfsmenn hætt störfum á þessu 5 ára tímabili eða 36,7%. Yfir helmingur stuðningsfulltrúa, gangavarða, starfsmanna í eldhúsi og við þrif höfðu hætt störfum ef borin eru saman þessi tvö ár.

Meirihluti nýútskrifaðra kennara fer til starfa í grunnskólum
Skólaárið 2003-2004 útskrifuðust samtals 229 grunnskólakennarar og 34 íþróttakennarar frá Háskólanum á Akureyri og Kennaraháskóla Íslands. Í október 2004 voru 206 þessara kennara við störf í grunnskólum eða 78,3%. Nýútskrifaðir kennarar skila sér nú betur til starfa en fyrir 5 árum síðan þegar 71,4% nýútskrifaðra kennara hófu störf í grunnskólum strax eftir útskrift.

Starfsfólk í grunnskólum haustið 2004 - útgáfur  

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.