FRÉTT MENNTUN 26. APRÍL 2005

Starfsmönnum við leikskóla fjölgaði um 4 en stöðugildum um 50
Í desember 2004 störfuðu 4.688 starfsmenn í 3.861 stöðugildi við leikskóla á Íslandi. Árið áður störfuðu 4.684 starfsmenn í 3.811 stöðugildum á íslenskum leikskólum. Starfsmönnum hefur því aðeins fjölgað um fjóra á milli ára, konum fækkar um þrjár á meðan körlum fjölgar um sjö. Stöðugildum hefur fjölgað um 50, og hafa því starfsmenn bætt við sig vinnu frá síðasta ári. Þegar litið er aftur til ársins 1998 voru 41,5% starfsfólks í leikskólum í fullu starfi eða meira. Árið 2001 er þessi tala komin upp í 44,4% og í desember 2004 vinna 48,9% starfsmanna í fullu starfi eða meira.
     Auk ofangreindra starfsmanna störfuðu 2 starfsmenn í fullu starfi við leikskóla sem rekinn er af Impregilo S.p.A. við Kárahnjúka.

Menntuðum leikskólakennurum fjölgar um 100
Milli áranna 2003 og 2004 fjölgaði leikskólakennurum um tæplega 100 en ófaglærðu starfsfólki fækkaði að sama skapi. Menntuðum leikskólakennurum hefur einnig fjölgað hlutfallslega og eru þeir nú 32,3% starfsmanna við uppeldi og menntun barna á leikskólum en voru 30,0% fyrir ári síðan.

Brottfall starfsmanna eykst upp í 24%
Brottfall starfsmanna er nú aftur að aukast eftir að hafa farið minnkandi tvö undanfarin ár. Alls voru 1.124 starfsmenn leikskóla í desember 2003 ekki við störf ári síðar, eða 24,0% starfsmanna.  Hlutfallslega er brottfallið mest meðal starfsmanna við ræstingar. Alls hættu 782 almennir starfsmenn við uppeldi og menntun störfum á milli þessara tveggja ára. Brottfallið er hlutfallslega minnst meðal leikskólastjóra, aðstoðarleikskólastjóra og deildarstjóra. Það skal tekið fram að hér um tvær punktmælingar að ræða. Því koma starfsmenn sem hófu störf árið 2004 og hættu störfum fyrstu 11 mánuði ársins ekki fram í tölunum.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.