Heildarafli íslenskra skipa¹ í nýliðnum aprílmánuði, metinn á föstu verði, var 17,6% minni en í apríl 2005. Aflinn nam alls 80.105 tonnum samanborið við 117.612 tonn í apríl í fyrra. Það sem af er árinu hefur aflinn dregist saman um 15,5% miðað við sama tímabil 2005, sé hann metinn á föstu verði. Afli fyrstu fjóra mánuði ársins var 469.282 tonn en 870.117 tonn í fyrra.

Botnfiskaflinn var rúm 44.400 tonn samanborið við 51.400 tonn í apríl 2005. Þar af var þorskaflinn tæp 17.400 tonn og hafði dregist saman um 3.300 tonn. Ýsuaflinn dróst saman um 2.900 tonn, var ríflega 7.500 tonn í ár og karfaaflinn var tæp 8.000 tonn sem er rúmlega 1.700 tonnum minni afli en í apríl í fyrra. Það sem af er árinu nemur afli botnfisks rúmum 184.600 tonnum sem er 11.800 tonnum minni afli en 2005.

Kolmunnaaflinn nam 32.700 tonnum samanborið við rúm 62.300 tonn í apríl 2005, en í lok apríl höfðu borist á land samtals 87.400 tonn sem er tæplega 21.000 tonnum meira en á sama tíma í fyrra.

Humarvertíð er hafin og hafa borist á land tæp 300 tonn sem er svipað og fyrstu fjóra mánuði ársins 2005.¹Upplýsingar um fiskafla sem birtast í þessari fréttatilkynningu eru bráðabirgðatölur. Þær byggjast á upplýsingum Fiskistofu sem berast frá löndunarhöfnum innanlands (Lóðs), útflytjendum afla og frá umboðsmönnum erlendis og er safnað af Fiskistofu.

Talnaefni