Heildarafli íslenskra skipa¹ í nýliðnum desembermánuði var 71.687 tonn sem er 13.400 tonnum minni afli en í desember 2004 en þá veiddust 85.080 tonn. Ef magnbreyting milli desembermánaða 2004 og 2005 er metin á föstu verði ársins 2003, dróst fiskaflinn saman um 6,2%. Á árinu 2005 hefur fiskaflinn, metinn sem magnbreyting á föstu verði ársins 2003, dregist saman um 3,1 % miðað við 2004.

Botnfiskafli nam tæpum 34.900 tonnum sem er svipaður afli og í desember 2004 er aflinn var 35.000 tonn. Þar af nam þorskaflinn rúmum 17.300 tonnum sem er tæplega 600 tonnum meiri afli en 2004. Ýsuaflinn var ríflega 6.400 tonn og dróst saman um tæp 1.100 tonn. Hins vegar jókst ufsaafli um 900 tonn frá 2004, var rúm 6.600 tonn í desember 2005.

Flatfiskafli nam tæplega 1.600 tonnum og dróst saman um tæp 400 tonn milli ára. Grálúðuaflinn var um 1.100 tonn sem er tæplega 300 tonna minni afli en 2004.

Síldaraflinn var 17.400 tonn samanborið við 25.500 tonn í desember 2004 og dróst því saman um 8.100 tonn. Kolmunnaaflinn dróst einnig saman, nam rúmum 8.000 tonnum samanborið við 15.100 tonn í desember 2004.
Tæplega 9.300 tonnum af loðnu var landað í desembermánuði sem er aukning upp á tæp 2.900 tonn frá 2004.

Skel- og krabbadýraafli var ríflega 500 tonn og dróst saman um rúm 600 tonn milli desembermánaða. Þar af dróst rækjuafli saman um tæp 200 tonn, var rúm 600 tonn í desember 2004 en ríflega 400 tonn í síðastliðnum mánuði. Enginn kúfiskur barst á land en tæp 500 tonn voru veidd af kúfiski í desember 2004.

Heildarafli íslenskra skipa á árinu 2005 varð 1.667.300 tonn og er það tæplega 60.700 tonna minni afli en árið 2004, en þá var aflinn 1.728.000 tonn. Botnfiskafli var 490.800 tonn sem er svipað og árið 2004 er aflinn nam 492.500 tonnum. Þorskafli var 212.000 tonn og dróst saman um 15.200 tonn milli ára. Ýsuaflinn var 96.600 tonn og jókst um 11.900 tonn. Karfaafli nam 61.400 tonnum og hefur aukist um 13.700 tonn miðað við árið 2004.  Flatfiskafli dróst saman, nam 27.100 tonnum árið 2005 en 31.200 tonnum árið 2004. Uppsjávarafli var 1.135.000 tonn samanborið við 1.171.200 tonn árið 2004. Síldaraflinn nam tæpum 264.600 tonnum og jókst um tæplega 40.000 tonn milli ára. Loðnuaflinn var um 604.600 tonn árið 2005 sem er aukning um 80.000 tonn frá 2004. Á móti kom að kolmunnaflinn dróst saman um 156.600 tonn, var 265.500 tonn árið 2005 en 422.100 tonn árið áður. Skel- og krabbadýraafli nam tæpum 14.100 tonnum 2005 sem er samdráttur upp á 18.700 tonn milli ára.

¹Upplýsingar um fiskafla sem birtast í þessari fréttatilkynningu eru bráðabirgðatölur. Þær byggjast á upplýsingum Fiskistofu sem berast frá löndunarhöfnum innanlands (Lóðs), útflytjendum afla og frá umboðsmönnum erlendis og er safnað af Fiskistofu.

Talnaefni