Heildarfjáreignir innlendra aðila námu tæplega 37.702 milljörðum króna við árslok 2022 samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum fjármálareikninga eða sem nemur 993% af vergri landsframleiðslu (VLF). Heildarskuldbindingar námu um 36.694 milljörðum króna eða 967% af VLF. Hrein fjáreign innlendra aðila var því jákvæð um 1.008 milljarða króna í lok árs 2022 en var jákvæð um 1.440 milljarða árið áður.

Fjáreignir heimilanna stóðu í tæplega 10.249 milljörðum króna og fjárskuldir í um 3.053 milljörðum í lok árs 2022, samsvarandi 270% og 80% af VLF. Hreinar fjáreignir heimila drógust saman á milli ára, úr tæpum 7.255 milljörðum króna árið 2021 í um 7.196 milljarða árið 2022.

Heildarfjáreignir fyrirtækja annarra en fjármálafyrirtækja námu rúmlega 6.552 milljörðum króna í árslok 2022 en fjárskuldir stóðu í 11.392 milljörðum.

Fjáreignir fjármálafyrirtækja námu um 18.211 milljörðum króna í lok árs 2022 en fjárskuldbindingar voru 18.301 milljarðar.

Í lok árs 2022 námu fjáreignir hins opinbera 2.559 milljörðum króna, eða sem nemur rúmlega 67% af VLF, og skuldir 3.929 milljörðum eða 103% af VLF.

Fjármálaeignir erlendra aðila með innlenda mótaðila stóðu í 4.159 milljörðum króna, eða 110% af VLF í árslok 2022, og skuldbindingar í 5.151 milljörðum eða 136% af VLF.

Talnaefni