Vinsamlegast athugið að þessari fréttatilkynningu var breytt 14. september kl. 9 frá upprunalegri útgáfu.

Landsframleiðslan á 2. ársfjórðungi 2018 jókst að raungildi um 7,2% frá sama ársfjórðungi fyrra árs. Á sama tíma jukust þjóðarútgjöld, sem eru samtala neyslu og fjárfestingar, um 6,6%. Einkaneysla jókst um 5,1%, samneysla um 2,8% og fjárfesting um 7,5%. Útflutningur jókst um 0,8% og á sama tíma dróst innflutningur saman um 0,4%. Helstu drifkraftar hagvaxtar eru einkaneysla og fjármunamyndun. Árstíðaleiðrétt landsframleiðsla jókst að raungildi um 1,8% frá 1. ársfjórðungi 2018.

Landsframleiðslan á fyrstu sex mánuðum ársins 2018 jókst um 6,4% að raungildi borið saman við fyrstu sex mánuði ársins 2017. Á sama tíma jukust þjóðarútgjöld um 6,2%. Einkaneysla jókst um 5,3%, samneysla um 3,1% og fjárfesting um 7,6%. Útflutningur jókst um 4,5% og innflutningur um 4,1%.

Landsframleiðslan á 2. ársfjórðungi 2018 – Hagtíðindi

Talnaefni (sjá Landsframleiðsla eftir ársfjórðungum 1997-2018)