FRÉTT ÞJÓÐHAGSSPÁ 22. MARS 2021

Hagstofa Íslands hefur gefið út þjóðhagsspá í ritröð sinni Hagtíðindum. Spáin tekur til áranna 2021 til 2026.

Verg landsframleiðsla dróst saman um 6,6% á síðasta ári. Efnahagslegar afleiðingar kórónuveirufaraldursins voru víðtækar, sérstaklega í ferðaþjónustu. Atvinnuleysi jókst mikið, hrun varð í komum ferðamanna til landsins, fyrirtæki í ferðaþjónustu urðu fyrir tekjubresti og atvinnuleysi jókst til muna. Reiknað er með að hagkerfið taki við sér í ár, hagvöxtur verði 2,6% og þjóðarútgjöld aukist um 2,1%.

Samdráttur einkaneyslu á síðasta ári var minni en gert var ráð fyrir en í ár er búist við 2,3% vexti og 4,1% árið 2022. Er áætlað að hún aukist að meðaltali um 2,9% eftir það. Horfur eru á að hægja muni á vexti samneyslu næstu tvö ár og að hún aukist um 1,1% og 0,7% árin 2021 og 2022. Eftir það er áætlað að hún dragist lítillega saman næstu þrjú árin. Fjárfesting tekur við sér í ár og er útlit fyrir að hún aukist um 5,0% í ár og 4,3% á næsta ári. Gert er ráð fyrir kröftugum vexti opinberrar fjárfestingar í ár og að hún aukist um 17,7% en dragist saman um 6,8% á næsta ári.

Reiknað er með hóflegum bata útflutnings í ár og að hann aukist um 10,3% eftir að hafa dregist saman um 30,5% á síðasta ári. Á næsta ári er gert ráð fyrir að batinn í ferðaþjónustu verði þróttmeiri og útflutningur aukist um 16,8% og verður framlag utanríkisviðskipta til hagvaxtar mest á því ári. Innflutningur mun einnig taka við sér samhliða bata innlendrar eftirspurnar og aukinna utanlandsferða.

Atvinnuleysi nær hámarki í ár og fer minnkandi með bata í ferðaþjónustu á spátímanum. Reiknað er með að verðbólga verði 3,2% að meðaltali í ár en verði nálægt 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands það sem eftir lifir spátímans.

Hagstofan gaf síðast út þjóðhagsspá 1. október sl. og er næsta útgáfa fyrirhuguð í júní.

Þjóðhagsspá - Hagtíðindi

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1073 , netfang Marino.Melsted@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.