FRÉTT UMHVERFI 07. DESEMBER 2022

Vinsamlegast athugið að þessi fréttatilkynning var leiðrétt 7. desember 2022 kl. 11:30 frá upprunalegri útgáfu. Umhverfisskattar árið 2021 voru 55.244 milljónir króna en ekki 54.346 milljónir eins og fram kom í fyrri útgáfu fréttarinnar.

Skatttekjur og tryggingagjöld hins opinbera námu samtals 1.139.776 milljónum króna á árinu 2021 og þar af voru umhverfisskattar 55.244 milljónir (4,8%) en Hagstofan birtir nú í fyrsta sinn gögn um umhverfisskatta á Íslandi. Þegar hlutfall heimila af heildarumhverfisskattbyrði er skoðað sést að á Íslandi borguðu heimilin 59% allra umhverfisskatta árið 2020 sem er með því hæsta sem gerist í Evrópu.

Umhverfisskattarnir eru flokkaðir í samræmi við viðmið Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins. Samkvæmt skilgreiningu Eurostat er skattur flokkaður sem umhverfisskattur ef það sem skattlagt er hefur sannarlega neikvæð áhrif á umhverfið. Til þess að auðvelda samanburð á milli landa gefur Eurostat út lista yfir vörur og þjónustu sem umhverfisskattar ná til. Ekki er nauðsynlegt að skatttekjum sé ráðstafað til aðgerða í þágu umhverfisverndar til þess að skattur teljist umhverfisskattur.

Umhverfissköttum er skipt í fjóra flokka; orkuskatta, flutningsskatta, mengunarskatta og auðlindaskatta.

Orkuskattar eru skattar sem tengjast framleiðslu og notkun orku í ýmsum myndum. Skattar á bensín, olíu og aðra orkugjafa fyrir samgöngur teljast hér með og sömuleiðis skattar sem tengjast losun gróðurhúsalofttegunda. Tekjur ríkisins af sölu á losunarkvóta innan viðskiptakerfis Evrópusambandsins með losunarheimildir teljast einnig orkuskattur. Skattar á framleiðslu og notkun orku teljast orkuskattar hvort sem framleiðslan byggir á endurnýjanlegum auðlindum eða ekki.

Flutningsskattar eru skattar sem tengjast því að eiga og nota farartæki (undantekning eru skattar á eldsneyti). Mengunarskattar eru skattar á losun mengandi efna (þó ekki gróðurhúsalofttegunda). Til mengunarskatta teljast líka skattar á söfnun, meðhöndlun og förgun úrgangs.

Auðlindaskattar eru skattar tengdir veiðum, breytingum á landslagi og vinnslu jarðefna og annarra hráefna úr umhverfinu. Þó að virðisaukaskattur sé lagður á marga vöruflokka sem umhverfisskattar tengjast telst virðisaukaskattur aldrei umhverfisskattur.

Á Íslandi vega orkuskattar mest og auðlindaskattar lang minnst.

Skattar sem tengjast því að eiga og reka bifreið vega þungt
Á Íslandi voru skattar á eldsneyti 46% allra umhverfisskatta árið 2021 og aðrir skattar sem tengjast bifreiðaeign og notkun á vegum vega sömuleiðis þungt.

Bensín af dælu ber þrjá mismunandi umhverfisskatta; vörugjald af bensíni og olíuvörum, sérstakt vörugjald af bensíni og kolefnisgjald. Tveir mismunandi umhverfisskattar leggjast á dísilolíu: olíugjald og kolefnisgjald. Allir þessir skattar eru innheimtir sem föst krónutala á lítra eldsneytis.

Bifreiðagjöldin eru innheimt tvisvar á ári og frá árinu 2011 hefur gjaldið verið uppbyggt á þann hátt að eigendur allra bifreiða greiða fasta upphæð og við það bætist gjald sem er háð skráðri koltvísýringslosun viðkomandi bifreiðar. Vörugjöld af bifreiðum, eingreiðsla sem greidd er þegar bifreiðar eru fluttar inn, er annað dæmi um umhverfisskatt.

Veiðigjald telst ekki skattur
Veiðigjald fyrir veiðiheimildir telst ekki auðlindaskattur heldur eignatekjur sem eigendur fiskiskipa greiða ríkinu. Veiðigjald nemur 33% af reiknistofni hvers nytjastofns þar sem reiknistofn byggir á aflaverðmæti að frádregnum föstum og breytilegum kostnaði samkvæmt aðferð sem tiltekin er í lögum um veiðigjald. Umtalsverðar sveiflur hafa verið í upphæð veiðigjalds undanfarin ár sem skýrist af sveiflum í afkomu greiðenda.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 5281100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.