FRÉTT UTANRÍKISVERSLUN 05. SEPTEMBER 2023

Tekjur af útfluttri þjónustu á árinu 2022 námu 759,7 milljörðum króna en útgjöld vegna innfluttrar þjónustu 563,2 milljörðum. Fyrir vikið var þjónustujöfnuður við útlönd jákvæður um 196,5 milljarða króna samanborið við jákvæðan jöfnuð upp á 76 milljarða árið 2021 á gengi hvors árs.

Útflutningstekjur af ferðalögum rúmlega tvöfölduðust á milli ára
Verðmæti þjónustuútflutnings árið 2022 var 314,5 milljörðum króna meira samanborið við árið 2021 eða 71% á gengi hvors árs. Aukinn þjónustuútflutning má að miklu leyti rekja til aukningar í tekjum af ferðalögum og samgöngum og flutningum. Útflutningstekjur af ferðalögum námu 336,2 milljörðum árið 2022 og rúmlega tvöfölduðust samanborðið við árið 2021. Útflutningstekjur af samgöngum og flutningum námu 223,9 milljörðum króna árið 2022 og jukust um 86% samanborið við árið 2021.

Sömu sögu er að segja af útflutningstekjum af fjarskipta-, tölvu- og upplýsingaþjónustu og annarri viðskiptaþjónustu. Útflutningstekjur af fjarskipta-, tölvu- og upplýsingaþjónustu námu 65,7 milljörðum króna árið 2022 og jukust þær tekjur um 24% á milli ára. Útflutningstekjur af annarri viðskiptaþjónustu námu 70 milljörðum árið 2022 og jukust um 18% á milli ára.

Bandaríkin voru stærsta einstaka viðskiptaland í þjónustuútflutningi á árinu 2022 og námu útflutningstekjurnar 245,6 milljörðum króna árið 2022. Útflutningurinn á þjónustu til Bandaríkjanna jókst á milli áranna 2021 og 2022 um 89% á gengi hvors árs. Stærsta skýringin á þessari aukningu er fjölgun bandarískra ferðamanna á Íslandi á árinu 2022 samanborið við árið 2021 sem hefur bæði áhrif á ferðalagahluta og samgönguhluta (farþegaflutningar með flugi) þjónustuviðskiptanna. Útflutningstekjur til Bretlands námu 75,4 milljörðum króna árið 2022 og jukust um 54% á milli ára og á sama tíma jukust útflutningstekjur til Þýskalands um 81% og námu þær 61,9 milljörðum.

Innflutningur á þjónustu eykst um 53% á milli ára
Árið 2022 var verðmæti þjónustuinnflutnings 194 milljörðum króna hærra en árið 2021 eða 53% á gengi hvors árs. Útgjöld vegna ferðalaga námu 204,9 milljörðum árið 2022 og meira en tvöfölduðust samanborðið við árið 2021. Útgjöld vegna samgangna og flutninga námu 108,4 milljörðum króna árið 2022 og jukust um 44% samanborið við árið áður. Útgjöld vegna annarrar viðskiptaþjónustu námu 104,9 milljörðum árið 2022 og jukust um 31% samanborið við árið á undan.

Stærstu viðskiptalönd í þjónustuinnflutningi á árinu 2022 voru sem fyrr Bandaríkin og Bretland. Gjöld vegna innflutnings á þjónustu frá Bandaríkjunum á árinu 2022 námu 72,5 milljörðum króna og jukust um 53% á milli ára. Á sama tíma námu gjöld vegna innflutnings á þjónustu frá Bretlandi 62,7 milljörðum og jukust um 38%. Fast á hæla Bretlands og Bandaríkjanna fylgdi svo Holland en innflutningur á þjónustu frá Hollandi jókst um 29% á milli ára.

Töflur með ítarlegri sundurliðun þjónustuflokka og landaskiptingu eru birtar á vef Hagstofunnar.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1156 , netfang utanrikisverslun@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.