FRÉTT UTANRÍKISVERSLUN 30. JÚNÍ 2004

Vöruskiptajöfnuður
Í maímánuði voru fluttar út vörur fyrir 14,9 milljarða króna og inn fyrir 18,7 milljarða króna fob.  Vöruskiptin í maí voru því óhagstæð um 3,8 milljarða króna en í maí í fyrra voru þau óhagstæð um 1,8 milljarða á föstu gengi¹. 
     Fyrstu fimm mánuði ársins voru fluttar út vörur fyrir 82,6 milljarða króna og inn fyrir 89,6 milljarða króna. Vöruskiptin við útlönd voru því óhagstæð um 7,0 milljarða en á sama tíma árið áður voru þau hagstæð um 2,4 milljarða á sama gengi¹. Vöruskiptajöfnuðurinn var því 9,4 milljörðum króna lakari en á sama tíma árið áður.

Útflutningur
Verðmæti vöruútflutnings fyrstu fimm mánuði ársins var 3,5 milljörðum eða 4,4% meira á föstu gengi1 en á sama tíma árið áður. Sjávarafurðir voru 61% alls útflutnings og var verðmæti þeirra 4,4% meira en á sama tíma árið áður. Aukning varð í verðmæti fersks fisks, frystra loðnuhrogna og saltfisks. Verðmæti útfluttra iðnaðarvara var 4,8% meira á föstu gengi en á sama tíma árið áður. Útflutningur á áli dróst saman en á móti kom aukning á útfluttum lyfjum og lækningavörum.
 
Innflutningur
Verðmæti vöruinnflutnings fyrstu fimm mánuði ársins var 12,9 milljörðum eða 16,8% meira á föstu gengi en á sama tíma árið áður. Mest aukning varð í innflutningi á fjárfestingarvörum en einnig var umtalsverð aukning í innflutningi hrá- og rekstrarvara, neysluvara, fólksbíla, flutningatækja til atvinnurekstrar og eldsneytis og smurolía. Á móti kom minni innflutningur á skipum og flugvélum.

Stækkun Evrópusambandsins
Eins og kunnugt er bættust 10 lönd við Evrópusambandið þann 1. maí sl. Að þeim meðtöldum hækkar hlutdeild EES (ESB að meðtöldum EFTA löndum án Sviss) í innflutningi janúar-maí úr 64,1% í 70,8% og í útflutningi janúar-maí úr 76,3% í 77,9%. Í þessum tölum eru þá löndin 10 tekin með ESB allt tímabilið.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.