FRÉTT VERÐLAG 15. APRÍL 2020

Hagstofa Íslands hefur gefið út greinargerð á ensku um eigið húsnæði í vísitölu neysluverðs. Í greinagerðinni er gerð grein fyrir nokkrum atriðum sem varða útreikning á eigin húsnæði frá árinu 1922 til dagsins í dag og þeim aðferðum lýst sem beitt hefur verið.

Útgjaldavogir fyrir húsnæði í vísitölu neysluverðs hafa verið metnar með þremur mismunandi aðferðum frá upphafi. Á tímabilinu 1922-1968 voru vogirnar metnar miðað við greidda leigu, frá 1968 til 1992 voru útgjaldavogir metnar miðað við áætlaðan kostnað við eigin húsnæði eftir upplýsingum sem fengust úr útgjaldarannsóknum eða voru metnar, en í vogunum var fjármagnskostnaður talinn með og greiðsluaðferð beitt, og frá 1992 hafa vogirnar verið reiknaðar sem notendakostnaður og reistar á fasteignamati eigna með það að markmiði að meta þjónustuna sem verður til við búsetu í eigin húsnæði.

Helstu not vísitölu neysluverðs árin 1922 til 1984 voru til verðtryggingar á launum. Árin 1922-1992 voru tvær aðfangavísitölur notaðar til að reikna úr verðbreytingu á eigin húsnæði; húsaleiguvísitala, sem var aðfangavísitala og var samsetning hennar 45% laun og 55% efni, og byggingarvísitala. Árin 1939-1968 var eingöngu 15% af verðbreytingu húsaleiguvísitölunnar notuð í útreikning á vísitölu neysluverðs. Vogir vísitölunnar voru miðaðar við greidda leigu en verðbreyting leigu ekki notuð í útreikningi neysluverðsvísitölunnar. Mælingaraðferðin vanmat því kerfisbundið verðbreytingu vísitölunnar.

Breytt notkun vísitölu neysluverðs í gegnum tíðina

Frá árinu 1992 hefur notendakostnaðaraðferð verið beitt við útreikning á þjónustu vegna afnota á eigin húsnæði og verðbreytingin reiknuð með fasteignaverðsvísitölu og breytingum raunvaxta, en markmiðið var að reikna leigu sem þjónustuflæði. Vísitala neysluverðs var ekki lengur aðallega notuð til verðtryggingar á launum heldur sem almennur mælikvarði á breytingar á verðlagi og heildar vísitalan mældi meiri verðbreytingar en vísitalan án húsnæðis. Í lögunum um vísitölu neysluverðs frá 1995 var umfang vísitölunnar skilgreint á þann veg að hún skyldi mæla verðlag einkaneyslu og aðferð til að mæla flæði þjónustu valin í samræmi við þjóðhagsreikningaaðferðir.

Árið 1997 var greidd leiga aðskilin frá reiknaðri leigu í grunni neysluverðsvísitölunnar þar sem hvor liður fékk sérstaka vog og verðbreytingarnar fyrir greidda leigu voru reiknaðar sérstaklega. Leiga er greiðsla fyrir afnot af húsnæði á hverju tímabili. Leigumarkaður á Íslandi er lítill, nær eingöngu til um 20% af húsnæði og helmingur leigjenda greiðir markaðsleigu en hinn hlutinn greiðir leigu sem er ekki markaðstengd.

Greidd leiga og reiknuð leiga ættu fræðilega að breytast með svipuðum hætti og árin 1992-2019 mældu báðar vísitölurnar svipaðar verðbreytingar. Á tímabilinu hafa verðbreytingar verið mismunandi. Árin 2005-2008 breyttist reiknuð leiga meira en greidd leiga og 2009-2016 hækkaði greidd leiga meira en reiknuð leiga. Þetta tímabil var sérstaklega sveiflukennt. Það hófst með innkomu bankanna á markað með fasteignalán árið 2004, náði hámarki með bankakreppunni 2008 og lauk með efnahagsbatanum sem fylgdi í kjölfarið.

Þrátt fyrir að reiknuð leiga hækkaði ýmist eða lækkaði á tímabilinu 2004-2016 breyttist vísitala neysluverðs ekki eins hratt. Reiknuð leiga breytist með andhverfum hætti við vísitölu neysluverðs án húsnæðis og gerir heildarniðurstöður fyrir vísitölu neysluverðs stöðugri. Gengi hefur mikil áhrif á vístölu neysluverðs án húsnæðis þar sem um það bil þriðjungur heimilisútgjalda er innfluttar vörur. Gengi hefur ekki bein áhrif á eigið húsnæði en húsnæðisverð hefur bein áhrif á það í gegnum greidda og reiknaða leigu. Staðreyndin er að þessir þættir vega hvor upp á móti öðrum og gera heildarniðurstöður fyrir vísitölu neysluverðs stöðugri og er mikilvægt einkenni á neysluverðsvísitölunni.

Ólík markmið með notkun neysluverðsvísitölu

Þrjú ríki (Ísland, Svíþjóð og Kanada) reikna eigið húsnæði í neysluverðsvísitölu sem notendakostnað. Markmið íslensku neysluverðsvísitölunnar er að vera almennur verðmælikvarði þar sem öll verð notuð við gerð vísitölunnar eru á verðlagi dagsins í dag. Svíþjóð og Kanada nota greiðsluaðferð með það að markmiði að verðbæta tekjur eða bætur. Verðlag á eignastofninum miðast við eldri tímabil og er ætíð að meðaltali 12-15 ára gamalt.

Útreikningur á sænsku notendakostnaðar aðferðinni með íslenskum gögnum sýnir að á tímabilinu 2007-2019 er niðurstaðan svipuð fyrir báðar aðferðirnar. Sænska aðferðin er samt sem áður mun sveiflukenndari þegar íslensk gögn eru notuð sem að hluta til stafar af meiri verðbólgu á Íslandi en í Svíþjóð.

Owner occupied housing in the Icelandic Consumer Price Index - greinargerð

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1200 , netfang neysluverd@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.