FRÉTT VINNUMARKAÐUR 04. MAÍ 2010

Á árinu 2009 voru 180.900 á vinnumarkaði. Af þeim voru 167.800 starfandi en 13.100 án vinnu og í atvinnuleit. Atvinnuþátttaka mældist 80,9%, hlutfall starfandi 75,1% og atvinnuleysi var 7,2%. Á árunum 1991 til 2009 hélst atvinnuþátttaka nokkuð stöðug á bilinu 80,7% til 83,6%. Síðan reglulegar mælingar Hagstofunnar hófust árið 1991 hefur hlutfall starfandi aldrei mælst minna og atvinnuleysi meira en árið 2009. Mest atvinnuleysi fram að því var á árunum 1992 til 1995 eða á bilinu 4,3% til 5,3%.


 

Á árunum 1991 til 2009 var atvinnuþátttaka og hlutfall starfandi mest meðal þeirra sem hafa lokið háskólamenntun en minnst meðal þeirra sem hafa aðeins lokið grunnmenntun. Atvinnuleysi er minnst hjá þeim sem hafa lokið háskólamenntun en mest meðal þeirra sem hafa aðeins lokið grunnmenntun. Meiri sveiflur eru hvað varðar atvinnuþátttöku, hlutfall starfandi og atvinnuleysi hjá aldurshópnum 16–24 ára en öðrum aldurshópum á tímabilinu.

Heildarvinnutími karla hefur dregist saman úr 51,3 klukkustunum árið 1991 í 43,8 klukkustundir árið 2009 en vinnutími kvenna hefur haldist tiltölulega stöðugur í kringum 35 klukkustundir. Hlutfall kvenna í fullu starfi hefur aukist frá 1991 úr 51,6% í 63,1% árið 2009 á meðan hlutfall karla var í kringum 90%.

Þessar niðurstöður eru meðal efnis í nýju hefti Hagtíðinda um vinnumarkaðinn árin 1991 til 2009.

Vinnumarkaður 1991–2009 - Hagtíðindi

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.