FRÉTT VÍSINDI OG TÆKNI 01. APRÍL 2020

Sex af hverjum tíu (59%) Íslendingum höfðu í byrjun árs 2019 verslað á netinu á síðustu þremur mánuðum en nærri átta af hverjum tíu á síðustu 12 mánuðum. Þegar horft er til annarra landa Evrópu var netverslun útbreiddust í Bretlandi og Danmörku en árið 2019 höfðu 87% Breta verslað á netinu á síðustu 12 mánuðum og 84% Dana. Þetta er meðal niðurstaðna úr nýrri rannsókn Hagstofu Íslands á notkun heimila og einstaklinga á upplýsingatækni og neti.

Hærra hlutfall í öllum aldurhópum
Ef hlutfall þeirra sem höfðu keypt vöru eða þjónustu á netinu er skoðað eftir aldursflokkum kemur í ljós að yfir tímabilið 2004 – 2019 (fyrir utan árin 2015 og 2016 þegar gögnum var ekki safnað á Íslandi) er leitni hlutfallsins að mestu leyti upp á við. Þó má merkja áhrif efnahagshrunsins á árunum 2007 – 2010 þegar netverslun dróst saman í flestum aldursflokkum. Síðan 2011 hefur verið nánast stöðug aukning fyrir utan á milli áranna 2012 og 2013.

Tónlist, kvikmyndir og aðgöngumiðar vinsælir í netverslun
Meðal þeirra sem höfðu keypt vörur eða þjónustu á netinu á síðustu 12 mánuðum höfðu flestir, eða 78,6%, keypt tónlist og/eða kvikmyndir en 71,8% keypt aðgöngumiða á viðburði og 69,9% keypt farmiða, greitt fyrir bílaleigubíla eða annað ferðatengt. Fæstir höfðu keypt lyf, eða 12,4%, og 17,2% höfðu keypt matvæli eða hreinlætisvörur. Svipað mynstur má sjá árin 2017 og 2018 þegar 9,5% höfðu keypt lyf í gegnum netið, hvort ár fyrir sig, en í kringum 70% höfðu keypt annars vegar tónlist og/eða kvikmyndir í gegnum netið og hins vegar aðgöngumiða á viðburði.

Margir hafa lent í vandræðum
Árið 2019 lentu 76,8% þeirra sem versluðu í gegnum netið í einhvers konar vandræðum því tengdu. Það er hærra hlutfall en mældist árið 2017 þegar það var 66,7% og mun hærra heldur en árið 2009 þegar það var rétt innan við 10%. Áhugavert er að skoða þetta í samhengi við aðrar þjóðir Evrópu.1 Árið 2019 var Ísland í efsta sæti yfir hlutfall þeirra sem versluðu á netinu sem lentu í vandræðum við netkaup. Meðal þeirra vandamála sem spurt var um eru bilun í netkerfi vefverslunar, að varan berist kaupanda síðar en áætlað var, kostnaður sé hærri en áætlað var eða röng eða gölluð vara afhent.

1 Sjá: Eurostat, hagstofa Evrópusambandsins

Um gögnin
Niðurstöðurnar eru unnar úr rannsókn Hagstofu Íslands á notkun heimila og einstaklinga á upplýsingatækni og neti sem er þversniðsrannsókn þar sem um 2.500 heimili eru valin í úrtak árlega. Um er að ræða rannsókn sem framkvæmd er í öllum löndum Evrópska hagskýrslusamstarfsins með samræmdum hætti. Svarhlutfall var 64% árið 2017, 63% 2018 og 56% árið 2019. Rannsóknin var ekki framkvæmd á Íslandi árin 2015 og 2016.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1281 , netfang Anton.Karlsson@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.