Fréttasafn Útgáfur 11. SEPTEMBER 2008

Heildarlaunakostnaður hækkaði frá fyrri ársfjórðungi um 3,1% í samgöngum og flutningum, 1,9% í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð og 0,9% í iðnaði. Á sama tímabili lækkaði heildarlaunakostnaður í verslun og ýmissi viðgerðarþjónustu  um 0,7%. 

Heildarlaunakostnaður án óreglulegra uppgerðra greiðslna hækkaði um 1,2% í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð og 0,4% í samgögnum og flutningum frá fyrri ársfjórðungi.  Á sama tímabili lækkaði heilarlaunakostnaður án óreglulegra greiðslna  í verslun og ýmissi viðgerðarþjónustu  um 1,4% og 0,2% í iðnaði. Vísitala heildarlaunakostnaðar án óreglulegra greiðslna er frábrugðin vísitölu heildarlaunakostnaðar að því leyti að aðeins er tekið tillit til greiðslna sem gerðar eru upp á hverju útborgunartímabili. Greiðslur svo sem desemberuppbót og orlofsuppbót reiknast því ekki í vísitölu heildarlaunakostnaðar án óreglulegra greiðslna.

Árshækkun heildarlaunakostnaðar frá fyrra ári var mest í samgöngum og flutningum, 9,6%, en minnst í verslun og ýmissi viðgerðarþjónustu, 4,4%. Á sama tímabili hækkaði heildarlaunakostnaður um 5,9% í iðnaði og 6,0% í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð.

Á fyrsta ársfjórðungi 2008 var skrifað undir kjarasamninga milli Samtaka atvinnulífsins og landssambanda og stærstu aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands. Samningarnir voru ekki samþykktir endalega fyrr en 12. mars síðastliðinn og gætir því áhrifa af framkvæmd þeirra einnig í vísitölu launakostnaðar á öðrum ársfjórðungi.  Á tímabilinu komu einnig til framkvæmda kjarasamningar nokkurra stéttarfélaga við Samtök atvinnulífsins, fyrir hönd einstakra aðildarfyrirtækja.

Vísitala launakostnaðar er gefin út ársfjórðungslega og reiknuð samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og Ráðsins (EB) nr. 450/2003. Vísitala launakostnaðar er kostnaðarvísitala sem sýnir breytingar á launakostnaði á vinnustund og er ekki er leiðrétt fyrir breytingum í samsetningu vinnuafls og vinnustunda. Breytingar geta því endurspeglað verðbreytingu vinnustundar, breytt hlutfall yfirvinnustunda, breytt hlutfall vinnuafls með há/lág laun eða samspil umræddra þátta.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.